Frjáls með Framsókn leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar í komandi kosningum. Það er okkur mikilvægt að skapa hér enn betra samfélag fyrir fjölskylduna með áherslum á umhverfismál, öryggi, íþrótta- og tómstundastarf.
Umhverfið
- Við eigum falleg græn svæði eins og t.d Lystigarðinn og aðstöðuna undir Hamrinum. Þessi svæði eiga mikið inni og getum við nýtt þau enn betur með lagfæringum og nýjum tækifærum til leikja og útiveru. Við viljum einnig leita leiða til að útbúa varanlega salernisaðstöðu á þessum svæðum.
- Við teljum mikilvægt að ljúka við frágang á aðkomu og bílastæði við Hamarshöllina sem og að finna varanlega lausn á búningaaðstöðu en hún er óviðunandi.
- Hveragerðisbær er eitt af fáum sveitarfélögum landsins sem flokkar í þriggja tunnu kerfi og þar á meðal lífrænt. Við viljum áfram vera leiðandi á þessu sviði og efla flokkun og endurvinnslu úrgangs og stuðla að plastpokalausu Hveragerði.
- Við viljum útvíkka starf umhverfisnefndar yfir í umhverfis- og ferðamálanefnd sem hefur það markmið að fá ferðamanninn til að dvelja lengur í bænum.
Öryggi
- Við viljum taka umferðaröryggismál í bænum til endurskoðunar með öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í huga. Einnig viljum við fjölga speglum þar sem skyggni er lítið fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja.
- Þrátt fyrir að gervigrasið á sparkvellinum við grunnskólann sé tiltölulega nýtt er það iðkendum varasamt. Við teljum nauðsynlegt að laga gervigrasið til að tryggja öryggi iðkenda.
Íþrótta- og tómstundastarf
- Til að styðja enn betur við fjölskyldur og íþróttaiðkun barna í Hveragerði viljum við hækka frístundastyrkinn í a.m.k. 40.000 kr. á kjörtímabilinu.
- Við teljum nauðsynlegt að keyra yngstu iðkendurna á æfingar í Hamarshöllinni eins og verið hefur. Við viljum útfæra aktsturinn enn frekar, bæði með fjölgun ferða og að aka stuttan hring um bæinn með ákveðnum stoppistöðvum.
- Við styðjum að komið verði á fót íþróttaskóla í samstarfi við Hamar fyrir yngstu börnin, svo þau fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum.
Byggjum upp enn fjölskylduvænna samfélag í Hveragerði!
Við hvetjum þig til að setja X við B í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn!
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.
Snorri Þorvaldsson, skipar 3. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.