Categories
Greinar

Grunnstoð samfélagsins

Deila grein

15/05/2019

Grunnstoð samfélagsins

Í dag er alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar en Sameinuðu þjóðirnar tileinka 15. maí ár hvert málefnum hennar. Ástæðan er sú að þótt fjölskyldur séu jafn ólíkar og þær eru margar eru þær grunnstoð samfélagsins og erfitt að finna aðra einingu innan þess sem gegnir jafn þýðingarmiklu og flóknu hlutverki.

Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar sérstaka áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum en undanfarið hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum verið í brennidepli. Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan.

Á flóknum tímum sem þessum, í bland við hraða og annríki nútímans, eru þannig gerðar sífellt meiri kröfur til fjölskyldna. Eitt mikilvægasta verkefni þeirra er uppeldi og umönnun barna en fjölskyldan er best til þess fallin að veita barni þá ást og það öryggi sem það þarf til þess að verða á fullorðinsaldri virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er svo aftur ekki aðeins hagur hverrar fjölskyldu heldur samfélagsins alls. Þetta mikilvæga verkefni er hins vegar allt annað en auðvelt. Við hvert fótmál bíða foreldra og barna þeirra nýjar hindranir og áskoranir, miserfiðar. Við þurfum öll á aðstoð að halda á einhverjum tímapunkti. Til þess að vel takist til þurfum við að búa til samfélag sem veitir hana þegar hennar er þörf og styður betur við þessa dýrmætustu einingu okkar, fjölskylduna. Það er einmitt á meðal markmiða heildarendurskoðunar á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra sem nú stendur yfir í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu þvert á ráðuneyti, við Samband íslenskra sveitarfélaga og með liðsinni þingmanna úr öllum flokkum. Í þágu barna, fjölskyldna og samfélagsins alls – enda leiða sterkar fjölskyldur til betri framtíðar fyrir alla. Til hamingju með daginn!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. maí 2019.