Börn eru yfirleitt ekki gömul þegar þau átta sig á að það er betra að vera stór en lítil, eldri en yngri. Stærð og aldri fylgja völd og möguleikinn til að hafa áhrif á eigið líf og samfélag. Orðræða endurspeglar ráðandi viðhorf til samfélagshópa og eru börn þar engin undantekning. Óforsvaranleg hegðun fullorðinna er stundum kölluð barnaleg. Það liggur í augum uppi að til þess að hafa vægi í samfélaginu, eins og það er uppbyggt í dag, skiptir máli að vera fullorðinn.
Ósjaldan heyrum við því haldið fram, við hin ýmsu tilefni, að börnin séu framtíðin. Falleg hugsun liggur þar eflaust að baki og ætlunin að benda á mikilvægi þess að hlúa vel að heiminum til þess að geta afhent hann börnunum þegar þau verða stór. Það sem margir átta sig hins vegar ekki á er að með þessum orðum erum við að segja að tími barnanna komi seinna. Barnæskan er hins vegar ekki biðstofa fullorðinsáranna. Börn og ungmenni eiga að hafa rödd frá því að þau eru fær um að koma skoðunum sínum á framfæri og þeirra rödd á að fá svigrúm og vægi.
Barnasáttmálinn loforð til barna
Fyrir rúmlega þrjátíu árum var börnum heimsins gefið loforð. Loforð um að standa skyldi vörð um réttindi þeirra og velferð framar öllu öðru. Loforðið, sem í daglegu tali kallast Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, markaði mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna, en sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna.
Sáttmálinn var fullgiltur af Alþingi árið 1992 og lögfestur 2013. Þrátt fyrir að langt sé um liðið eru mörg af ákvæðum hans enn ekki orðin að veruleika. Það telst til dæmis enn til fyrirmyndar og vekur athygli þegar börnum er gefið tækifæri til að tjá sig á opinberum vettvangi. Það ætti hins vegar að vera orðið með öllu sjálfsagt enda eru, þegar öllu er á botninn hvolft, fá málefni sem ekki snerta líf þeirra með einhverjum hætti.
Raddir barna fá aukið vægi
Víðtæk endurskoðun stendur nú yfir á allri þjónustu við börn á Íslandi að mínu frumkvæði. Við stöndum á krossgötum og höfum alla burði til að búa til einhverja framsæknustu umgjörð í heimi þegar kemur að því að hlusta á raddir barna og uppfylla réttindi þeirra. Aukinn skilningur er að verða á því að raddir barna og Barnasáttmálinn sé áttavitinn sem eigi að liggja til grundvallar öllum ákvörðunum og stefnumótun sem varða líf yngri kynslóðarinnar. Því til staðfestingar má nefna að ríkisstjórnin samþykkti fyrr á þessi ári tillögu mína um að allar stórar ákvarðanir sem og lagafrumvörp sem varða börn skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi þeirra.
Þessi hugsun liggur til grundvallar allri minni vinnu í embætti félags- og barnamálaráðherra. Ekki síst í fyrrnefndi endurskoðun og samþættingu á þjónustu við börn sem nú fer fram undir forystu félagsmálaráðuneytisins þvert á önnur ráðuneyti. Hugsunin endurspeglast einnig í stuðningi ráðuneytisins við nýafstaðið Barnaþing umboðsmanns barna og nýundirrituðum samstarfssamningi félagsmálaráðuneytisins við UNICEF um markvisst samstarf við innleiðingu sveitarfélaga á Barnasáttmálanum. Mun það fara fram undir formerkjum Barnvænna sveitarfélaga og er stefnt að því að að minnsta kosti 30 prósent sveitarfélaga á Íslandi hafi fengið viðurkenningu sem barnvæn sveitarfélög við árslok 2021.
Hluti af daglegu lífi
Til að tryggja raunverulega barnvænt samfélag þurfa börn að njóta þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn kveður á um í sínu nærumhverfi á degi hverjum. Þess vegna þarf innleiðing hans ekki síst að fara fram hjá sveitarfélögum en þangað sækja börn að stærstum hluta þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Innleiðing Barnasáttmálans þýðir að forsendur hans gangi sem rauður þráður gegnum starfsemi sveitarfélagsins á öllum stigum. Barnasáttmálinn verði þannig ekki lengur falleg kóróna sem sett er upp á hátíðisdögum heldur hluti af daglegu lífi, alla daga og alls staðar.
Ég legg áherslu á að hér er ekki aðeins um að ræða falleg orð og fögur fyrirheit. Að baki þessum breytingum liggja beinhörð vísindi en æ fleiri rannsóknir sýna að velferð barna skiptir sköpum þegar kemur að því að byggja upp heilbrigt og gott samfélag til skemmri og lengri tíma. Lengi býr að fyrstu gerð og ein besta fjárfesting sem samfélög geta ráðist í er að hlúa vel að börnum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2019.