Categories
Fréttir

Stöðvum feluleikinn

Deila grein

23/01/2020

Stöðvum feluleikinn

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, segir að rúmlega 80.000 börn sem búa á Íslandi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur samkvæmt tölum UNICEF. Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins á Alþingi í gær.
UNICEF samtökin hafa hrundið af stað ofbeldisvarnarátaki sem nefnist Stöðvum feluleikinn. „Þegar umrædd tölfræði var birt í maí 2019 boðaði Ásmundur Einar Daðason, hæstv. félags- og barnamálaráðherra, tilteknar aðgerðir, þar á meðal að setja af stað tilraunaverkefni þar sem áhersla yrði á að greina upplýsingar þvert á kerfi sem benda til óviðunandi aðstæðna barna og markvissar mælingar á velferð barna á ákveðnu svæði. Þessum verkefnum var komið á fót í lok júní 2019,“ sagði Silja Dögg.
Í gær tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, um stofnun miðstöðvar til að halda utan um upplýsingar er varða ofbeldi gegn börnum.
„Miðstöðin mun hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og leggja fram tillögur um mótun stefnu og aðgerðir í þessum efnum. Rekstur miðstöðvarinnar verður í höndum Barnaverndarstofu og stjórnvöld á hverjum tíma munu hafa aðgengi að þessum upplýsingum og faglegri ráðgjöf við stefnumótun í málaflokknum,“ sagði Silja Dögg.
Auk þess hefur hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason ákveðið að fela Barnaverndarstofu að kortleggja og greina þær upplýsingar sem eru til varðandi ofbeldi gegn börnum og leitað til annarra opinberra aðila til að fá sem gleggstar upplýsingar og mynd af stöðu mála svo hægt sé að móta stefnu og aðgerðir með það að markmiði að uppræta ofbeldi gegn börnum á Íslandi.
„Að lokum, herra forseti, langar mig að vekja athygli á þingsályktunartillögu sem ég hef mælt fyrir og hefur verið send til umsagnar sem fjallar um réttindi barna til að þekkja uppruna sinn. Í henni felst að dómsmálaráðherra verði falið að semja löggjöf sem tryggi þeim börnum sem getin eru með kynfrumugjöf sjálfstæðan rétt til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Þetta mál hefur verið til meðferðar hjá, að ég held, hv. velferðarnefnd um nokkurn tíma. Ég hvet nefndina til að taka málið til meðferðar og klára það þannig að hægt sé að afgreiða það hér vegna þess að hin Norðurlöndin eru nú þegar mun framar en við á þessu sviði.“ sagði Silja Dögg.