Meginstefið í öllum baráttumálum Framsóknar fyrir kosningarnar 25. september er fjárfesting í fólki. Það er í samræmi við þau megingildi Framsóknar sem einhvern tímann fyrir löngu voru meitluð í orðunum vinna, vöxtur, velferð. Öflugt velferðarkerfi, öflugt heilbrigðiskerfi grundvallast á öflugu atvinnulífi.
Við höfum á því kjörtímabili sem er að ljúka unnið hörðum höndum í breiðri stjórn að mikilvægum framfaramálum og vil ég sérstaklega nefna byltingu kerfisins í þágu barna, nýjan Menntasjóð námsmanna, 12 mánaða fæðingarorlof, hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og tekjulægri, Loftbrú og þær umfangsmiklu framkvæmdir í samgöngum sem landsmenn hafa orðið varir við á ferðum sínum um landið okkar í sumar.
Hagur einstaklingsins er hagur alls samfélagsins
Í umfangsmikilli vinnu Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, við róttæka endurskoðun á kerfinu sem varðar málefni barna var það reiknað út að það að kerfin tali saman og grípi snemma inn í hefur ekki aðeins í för með sér aukna lífshamingju einstaklingsins heldur er það stórkostlegur þjóðhagslegur ávinningur. Þessi vinna sýndi svo ekki verður um villst að áhersla Framsóknar í gegnum tíðina á velferð er hagur samfélagsins alls.
Okkur líður flestum best heima hjá okkur
Með þessa vinnu sem fyrirmynd viljum við bæta aðstæður eldra fólks. Reynsla margra er að kerfin tali ekki nægilega vel saman. Því verður að breyta og hugmyndafræði Framsóknar um samvinnu ólíkra aðila í barnamálum sýnir svo ekki verður um villst að það er hægt. Við viljum leggja áherslu á þjónustu við eldra fólk utan stofnana. Aukin og samhæfð heimaþjónusta, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukin tæknivæðing og markviss stuðningur miða öll að því að fólk geti svo lengi sem það vill og hefur burði til búið þar sem því líður best: heima hjá sér.
Aldur skiptir ekki máli
Við viljum afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun og hætti störfum við ákveðinn aldur: Þeir sem vilja vinna, mega vinna. Starfskraftar og reynsla þeirra sem safnað hafa árum er samfélaginu mikilvæg og það er gott fyrir þá sem vilja vinna að finna áfram fyrir mikilvægi sínu og fái gleði úr störfum sínum.
Hlutdeildarlán fyrir eldra fólk
Það eldra fólk sem býr við bágust kjör á yfirleitt er oft þjakað af háum húsnæðiskostnaði, hvort sem það er leiga eða háar afborganir af húsnæðislánum. Við viljum að eldra fólki standi til boða sú leið sem farin er í hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága þar sem ríkið veitir lán fyrir allt að 20% kaupverðs. Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni og er lánið endurgreitt þegar eignin er seld eða við lok lánstíma.
Með þessi áherslumál óskum við í Framsókn eftir stuðningi í kosningunum 25. september næstkomandi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2021.