Categories
Fréttir

Loftbrúin bætt enn frekar

Deila grein

22/02/2022

Loftbrúin bætt enn frekar

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti athygli á mjög jákvæðri frétt í störfum þingsins á Alþingi á nýju flugfélagi NICEAIR og áformum þess um reglubundið flug milli Akureyrar og Evrópu. Sagði hún þetta skapa alveg nýjan grundvöll fyrir frekari samvinnu og eflingu ferðaþjónustunnar á Norður- og Austurlandi.

„Meðan millilandaflugið er undirstaða nýrra tækifæra er innanlandsflugið grunnþjónusta og liður í almenningssamgöngum. Loftbrúin, sem hleypt var af stokkunum í september 2020, er einmitt viðurkenning og staðfesting á því,“ sagði Líneik Anna. 

Loftbrúin er til að bæta aðgengi íbúa að miðlægri þjónustu og efla byggðir. Loftbrúin veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi í áætlunarflugi innan lands fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu. Hún er fyrir fólk sem býr á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og að hluta vestra, Austurlandi, Hornafirði og Vestmannaeyjum, en rúmlega 60.000 íbúar geta nýtt sér loftbrúna og hver einstaklingur getur fengið allt að sex flugleggi á ári. 

„Það er fagnaðarefni að nú frá 7. febrúar var Loftbrúin víkkuð út og nú er tryggt að börn sem eiga foreldra sem búsettir eru á svæði sem hún nær til en eiga sjálf lögheimili utan þess, geta nýtt hana í flugferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu til foreldra,“ sagði Líneik Anna.

„Loftbrúna þarf að þróa áfram eins og áður sagði í samvinnu við flugfélögin. Vefir flugfélaganna verða að vinna með. Það er hægt að nota tæknina við að leysa þær áskoranir sem þar eru. Tölvurnar segja aldrei nei ef fólkið sem forritar gerir það ekki,“ sagði Líneik Anna að lokum.