Categories
Greinar

Þakkir til eldra fólks

Deila grein

28/10/2022

Þakkir til eldra fólks

Þau sem á undan okkur hafa gengið hafa lagt grunninn að því góða samfélagi sem við búum í dag. Ef ekki væri fyrir fórnir og vinnandi hendur þeirra sem eldri eru þá er nokkuð víst að samfélagið okkar væri með öðru móti.

Öfugt við okkar kynslóð þá heyrist ekki hátt í eldra fólki. Upp til hópa er eldra fólk nægjusamt enda alið upp við erfiðari aðstæður en mörg hver okkar sem yngri erum. En hvers vegna er ég að velta þessu hér upp?

Jú, það er vegna þess að það gleymist oft að þakka fyrir það sem vel er gert, við tökum lífinu og samfélaginu eins og sjálfsögðum hlut.

Fjölbreyttur hópur

Til þess að sýna þakklæti er það skylda okkar sem samfélags og þeirra sem eru við stjórnvölinn að huga með sem allra besta móti að eldri þegnum þessa lands.

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki endilega að henta öðrum. Við þurfum að varast það að tala um eldra fólk sem einn og sama hópinn þegar rætt er um aðgerðir til að bæta stöðu þess.

Verkefni okkar

Okkar verkefni er að leggja áherslu á að ná saman upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.

Samhliða því þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu fyrir eldra fólk og mikilvægt er að það fái að vera þátttakendur í öllum málum sem það snertir.

Tryggjum áhyggjulaust ævikvöld

Ég vil þakka þeim sem eldri eru fyrir þeirra hlutverk við að skapa það góða samfélag sem við búum við á Ísland í dag.

Verkefni okkar á Alþingi er nú eftir sem áður að vinna að verkefnum í þágu

eldra fólks og tryggja því áhyggjulaust ævikvöld.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Alþingismaður og þingfloksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 28. október 2022.