Categories
Fréttir

Stuðningur við sálfræðiþjónustu SÁÁ

Deila grein

04/01/2023

Stuðningur við sálfræðiþjónustu SÁÁ

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við SÁÁ. Samningnum er ætlað að styðja við starfsemi SÁÁ með eflingu þjónustu við börn eftir mikinn álagstíma vegna heimsfaraldurs COVID-19, bæta þjónustu fyrir börn sem búa við fíknisjúkdóm náinna aðstandenda og stytta bið eftir þjónustunni.

Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda að auka snemmtækan stuðning við börn og barnafjölskyldur í samræmi við lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

„Til að stuðla að farsæld barna nægir ekki að einblína eingöngu á þau sjálf heldur þarf að líta til þess umhverfis sem börn alast upp í. Vandi aðstandenda getur orðið að vanda barna með einum eða öðrum hætti ef ekki er hugað að börnunum og fjölskyldum þeirra í víðara samhengi með skilvirkum og snemmtækum stuðningi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Verkefnin sem styrkt eru samkvæmt samningnum eru:

  • Ráðinn verði sálfræðingur til eins árs til að sinna sálfræðiþjónustu til barna skjólstæðinga SÁÁ.
  • Foreldrar sem leggjast inn á Vog, eða fá göngudeildarþjónustu, fái kynningu á sálfræðiþjónustu barna og þeim sem eiga börn á aldrinum 8-18 ára verði boðið að skrá barn/systkini í þjónustu SÁÁ.
  • Sálfræðiþjónusta til barna verði veitt samhliða áfengis- og vímuefnameðferð foreldra eða samhliða því að fjölskylda er á námskeiði í fjölskyldudeild. Þjónustuþörf skal metin í upphafi en hægt verði að bjóða börnum upp á allt að átta viðtöl hjá sálfræðingi. Börn verði metin í upphafi og lok meðferðar með gagnreyndum mælitækjum með tilliti til andlegrar líðan og sjálfsmyndar til að meta árangur.

Heimild: stjr.is