Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði hefur undanfarin ár verið treyst til að takast á við stórar áskoranir með hagsmuni almennings að leiðarljósi og undir því trausti höfum við staðið. Í síðustu kosningum fékk ríkisstjórnin skýrt endurnýjað umboð og gerði með sér sáttmála um áframhaldandi samstarf. Við höfum verið einhuga um að rísa undir því trausti og þeirri ábyrgð að vinna fyrir fólkið í landinu.
Ríkisstjórnin hefur undanfarið unnið að fjölmörgum verkefnum á grundvelli stjórnarsáttmála og drjúgur meirihluti þeirra er kominn vel á veg eða þeim lokið. Á síðari hluta kjörtímabilsins ætlum við að halda ótrauð áfram. Það eru krefjandi aðstæður uppi um þessar mundir og brýn verkefni fram undan. Verðbólga hefur haft áhrif á allt samfélagið. Fólk og fyrirtæki hafa glímt við hækkandi vexti sem reynist mörgum þungt.
Stærsta verkefni vetrarins er að ná tökum á verðbólgunni. Til að svo megi verða þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum. Á sama tíma ætlum við áfram að veita viðkvæmum hópum skjól fyrir áhrifum hennar. Þrátt fyrir áskoranir er grunnurinn sem lagður hefur verið síðustu ár traustur. Atvinnuleysi er í lágmarki og nýjum tækifærum fjölgar í stöðugt fjölbreyttara atvinnulífi. Afkoma og skuldastaða ríkissjóðs eru langt umfram fyrri væntingar og fara hratt batnandi. Raunhæfar væntingar eru um að verðbólga lækki hratt næstu mánuði og að við náum efnahagslegum stöðugleika á nýju ári. Það er okkar að tryggja að sá ábati skili sér inn á heimilin í landinu.
Það eru hagsmunir allra að farsælir kjarasamningar náist á vinnumarkaði til að skapa forsendur fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir áframhaldandi stuðningi við lífskjör launafólks, traustri umgjörð kjarasamninga, stöðugu framboði og öryggi á húsnæðismarkaði og bættri afkomu barnafjölskyldna. Við munum eiga samtal við forystufólk launafólks og atvinnurekenda og leggja okkar af mörkum til að greiða fyrir farsælum langtímasamningum.
Til að ná sátt og jafnvægi í íslensku samfélagi verður áhersla ríkisstjórnar Íslands næstu mánuði fyrst og fremst á efnahagsmálin og það brýna verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við höfum áður mætt erfiðum aðstæðum. Þeim erfiðleikum höfum við mætt af yfirvegun og öryggi. Það mun ekki breytast. Því getur þjóðin treyst.
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.