Categories
Fréttir

„Íslensk ritmenning verði áfram kröftug og metnaðarfull“

Deila grein

07/10/2024

„Íslensk ritmenning verði áfram kröftug og metnaðarfull“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mælti á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og aðgerðaáætlun.

Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá því í nóvember 2021 er fjallað um áhersluatriði ríkisstjórnarinnar. Þar segir: „Menning og listir eru bæði uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags. Við ætlum áfram að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. … Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar.“

„Framtíðarsýn okkar er sú að íslensk ritmenning verði áfram kröftug og metnaðarfull og byggist á sköpunarkraftinum sem í okkur býr. Við viljum að á Íslandi þrífist fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treystir stoðir íslenskrar tungu og lætur okkur í té bækur og bókmenntir á heimsmælikvarða. Við viljum að starfsumhverfi rithöfunda og myndhöfunda sé hvetjandi og við viljum stuðla að framgangi íslenskra bókmennta á innlendum og erlendum vettvangi. Lykilatriðið fyrir okkur sem bókaþjóð er að lesendur á öllum aldri hafi aðgang að margvíslegu og vönduðu lesefni og að lestur verði hluti af daglegu lífi okkar. Það skiptir svo miklu máli fyrir allt samfélagið að landsmenn séu vel læsir á upplýsingar, stundi gagnrýna hugsun, skilji og virði mikilvægi málfrelsis og sjái í gegnum upplýsingaóreiðuna sem á okkur hefur dunið,“ sagði Lilja Dögg.


Ræða Lilju Daggar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og meðfylgjandi aðgerðaáætlun. Það er ekki ofsögum sagt að við Íslendingar séum bókaþjóð og höfum löngum verið. Við vorum bókaþjóð þegar bækur okkar voru skrifaðar á skinn og við vorum líka bókaþjóð þegar við skiptum bókfellinu út fyrir pappír. Af þessu megum við vera stolt. En nú eru að mörgu leyti breyttir tímar og bókin komin í varnarstöðu. Sótt er að henni úr ýmsum áttum. Hljóðbækur og rafbækur gera það, breyttar lestrarvenjur gera það líka og breytt viðskiptamódel á bókamarkaði er alveg ný áskorun. Við þessum áskorunum ætlum við að bregðast í nýrri bókmenntastefnu. Framtíðarsýn okkar er sú að íslensk ritmenning verði áfram kröftug og metnaðarfull og byggist á sköpunarkraftinum sem í okkur býr. Við viljum að á Íslandi þrífist fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treystir stoðir íslenskrar tungu og lætur okkur í té bækur og bókmenntir á heimsmælikvarða. Við viljum að starfsumhverfi rithöfunda og myndhöfunda sé hvetjandi og við viljum stuðla að framgangi íslenskra bókmennta á innlendum og erlendum vettvangi. Lykilatriðið fyrir okkur sem bókaþjóð er að lesendur á öllum aldri hafi aðgang að margvíslegu og vönduðu lesefni og að lestur verði hluti af daglegu lífi okkar. Það skiptir svo miklu máli fyrir allt samfélagið að landsmenn séu vel læsir á upplýsingar, stundi gagnrýna hugsun, skilji og virði mikilvægi málfrelsis og sjái í gegnum upplýsingaóreiðuna sem á okkur hefur dunið.

Virðulegi forseti. Aðgerðunum sem fylgja bókmenntastefnunni er ætlað að stuðla að þessu og að þessu sinni leggjum við sérstaka áherslu á börn og ungmenni. Hugað verður að verkefnum sem hvetja til lesturs og sköpunar, starfsumhverfi höfunda barna- og ungmennabóka verður styrkt sérstaklega, þýðingar á bókum fyrir börn og ungmenni, jafn mikilvægar og þær eru, verða skoðaðar og hugað verður að tengslum við sagnaarfinn og hvernig við miðlum honum áfram í nútímanum. Í kjölfarið á bókmenntastefnunni verður hafin vinna við heildarendurskoðun á regluverki í kringum bókmenntir.

Lög um bókmenntir eru komin til ára sinna og fyrir liggur að taka þarf lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku til endurskoðunar. Sama gildir um bókasafnslög og fleiri þætti í umhverfi bókanna. Ör tækniþróun og tilkoma gervigreindar inn í þennan geira kallar á að brugðist verði við og vandað til verka. Rétt er að nefna að bókmenntastefnan nær til allra tegunda bókmennta og fræðibækur eru ekki undanskildar. Við þurfum að skoða sérstaklega hvernig hægt er að skjóta tryggum stoðum undir ritun fræðibóka á íslensku, hvort sem það er gert með beinum styrkjum til þeirra sem skrifa bækurnar eða stuðningi við félög sem gefa þær út.

Virðulegi forseti. Bókmenntastefnan sem hér liggur fyrir er afrakstur fjölbreytts samráðs við hagsmunaaðila vítt og breitt í bókmenntalandslaginu. Óskað var eftir sjónarmiðum úr fjölmörgum áttum og eiga margar aðgerðir beinlínis rót að rekja þangað. Sérstakur faglegur rýnihópur var fenginn til að skoða stefnuna gagnrýnum augum og að endingu voru drögin birt í samráðsgátt þangað sem 23 umsagnir bárust. Afrakstur þessarar vinnu liggur nú fyrir í þinginu. Bókmenntastefna var áður lögð fram á síðasta löggjafarþingi vorið 2024 en náði ekki framgangi. Hún er hér lögð fram aftur í óbreyttri mynd.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginþáttum í þingsályktunartillögu um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og legg til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og svo til síðari umræðu.“