Categories
Fréttir Greinar

Framsókn í farsæld

Deila grein

01/11/2024

Framsókn í farsæld

Nú eftir dramatísk stjórnarslit er blásið til kosninga til Alþingis eftir þriggja ára kjörtímabil. Við í Framsókn göngum til kosninga af jákvæðni og bjartsýni. Jákvæð af því að við höfum góða sögu að segja. Bjartsýn því við sjáum að við erum á réttri leið út úr efnahagslægð síðustu missera og áfalla. Við höldum áfram og segjum; „þetta er allt að koma!“ Það er vegna þess að við höfum verkfæri og hæfni til að standa við þau orð.

Það er ánægjulegt að sjá þann fjölda fólks sem vill bjóða sig fram til forystu á Alþingi, fólk alls staðar að með misjafnar skoðanir finnur sér farveg og færri komast að en vilja. Allt tal um minnkandi virðingu og áhrif Alþingis hverfur í húmið. Framsókn leggur af stað í baráttuna nú sem fyrr með reynslumikið fólk í framvarðasveit.

Litið um öxl

Framsókn hefur setið við ríkisstjórnarborðið í sjö ár, sem hafa verið viðburðarík í lífi þjóðarinnar. Heimsfaraldur ríkti um tíma, eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga og stríð braust út í Evrópu. Heimsfaraldur og stríð hafa mikil áhrif á milljóna þjóðir í heiminum, hvað þá okkur, fámennið í norðri.

Auk þess höfum við upplifað að heilt samfélag þurfti að flýja heimkynni sín. Þegar það gerðist fyrir 50 árum í Vestmannaeyjum hafði það mikil áhrif á efnahag landsins, enda voru stoðir efnahagslífsins mun færri og fólkið færra. Þrátt fyrir allt þetta erum við að sjá þjóðarskútuna rétta af og áfram höldum í átt að bata. Lækkandi verðbólga og lækkandi vextir eru staðreynd, og  það er í allra þágu, einstaklinga, fjölskyldna og atvinnulífsins í landinu.

Horft til framtíðar með ungmenni í forgrunni

Framsókn getur réttilega bent á mörg umbótamál sem okkur hefur tekist að hrinda í framkvæmd og byggt verður á í framtíðinni. Ráðherrum okkar hefur tekist að setja mark okkar á mörg framfaramál í þágu almennings.

Málefni ungmenna eru ofarlega á baugi, þar er grunnurinn. Farsældarlög barnamálaráðherra Ásmundar Einars eru óumdeilanleg og innleiðingaferli þeirra er þegar hafið um allt land. Búast má við miklum framförum í þjónustu við börn í kjölfar hennar. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið. Hér er um að ræða hugmyndir um að þjónusta við börn verði sniðin með það í huga að nálgast hvert barn með þarfir þess og réttindi í huga. Samvinna aðila sem koma að farsæld barna á eftir að borga sig fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið sjálft. Til að ná hámarksábata með breytingunni þarf að auka forvarnir og snemmbæran stuðning.

Sem hluti af innleiðingaferlinu var gerður tímamótasamningur um svæðisbundin farsældarráð í öllum sveitarfélögum landsins. Með þeim samningi hafa öll sveitarfélög skuldbundið sig til þess að taka þátt í þessu starfi. Farsældin vinnur í takti við endurreisn þjónustustofnunar menntakerfisins með nýrri Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem starfar í þágu barna og ungmenna. Þetta stóra verkefni er aðeins eitt þeirra verka sem við í Framsókn höfum framkvæmt síðustu ár, og eins og alltaf þá leggjum við okkar verk í dóm kjósenda.

Framsókn mætir á keppnisvöllinn með verkin að vopni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, er alþingismaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 31. október 2024.