Það hefur verið einkennilegt að fylgjast með ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins eftir að stefnuyfirlýsing flokkanna var kynnt. Yfirlýsingin er rýr í roðinu og eftir því sem fleiri viðtöl birtast við fulltrúa þessara flokka því meira hugsi verður maður. Þau eru fá og fátækleg svörin þegar spurt er út í hvert planið sé hjá ríkisstjórninni í ríkisfjármálum, gjaldtöku á atvinnulífið, sjávarútvegi og fleiri málum. Engar útfærslur eða leiðir; ekkert. Það er einkennilegt í því ljósi að þessir flokkar hafa setið á Alþingi undanfarin kjörtímabil í stjórnarandstöðu og töluðu mikið, með óljósum hætti þó, um breytingar fyrir síðustu kosningar. Maður skyldi ætla að það væru fleiri svör á reiðum höndum en raun ber vitni nú þegar flokkarnir þrír fá hin langþráðu lyklavöld að Stjórnarráðinu.
Það vakti til dæmis furðu margra þegar ný ríkisstjórn fór strax að úthýsa hlutverki sínu við stjórn ríkisfjármála og varpa ábyrgð á henni yfir á almenning í landinu með því að óska eftir sparnaðarráðum. Það er sérstaklega einkennilegt í ljósi digurbarkalegra en óljósra útgjaldaloforða, tekjuöflunaráforma sem og sparnaðaraðgerða í ríkisfjármálum sem dundu á landsmönnum í kosningabaráttunni. Má þar nefna yfirlýsingar um sparnað upp á 28 milljarða í opinberum innkaupum, hinar frægu skatta- og skerðingarlausu 450.000 krónur, skatta- og gjaldahækkanir og fleira. Auðvitað á það ekki að vera almennings að skera ríkisstjórnina niður úr þeirri loforðasnöru sem hún setti sig sjálf í. Ríkisstjórnin verður einfaldlega að taka ábyrgð á sjálfri sér í stað þess að gefast strax upp á verkefninu. Því fylgir nefnilega ábyrgð að stjórna landi og til þess voru þessir flokkar kosnir. Það voru því vonbrigði að sjá hversu máttlaus hin stutta stefnuyfirlýsing ríkistjórnarinnar var, sem fær mann til þess að hugsa hvort það hafi verið eitthvert raunverulegt plan eftir allt saman.
Hið rétta er að ný ríkisstjórn tekur við mjög góðu búi á marga mælikvarða. Verðbólga hefur meira en helmingast, vextir hafa lækkað um 75 punkta síðan í október síðastliðnum, atvinnuþátttaka hefur verið mikil, stutt var við langtímakjarasamninga á vinnumarkaði, skuldastaða ríkissjóðs er góð í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir heimsfaraldur, stríðsátök í Evrópu og verðbólguna tengda þeim, og jarðhræringarnar í Grindavík og svo má lengi telja. Þá hefur verið fjárfest af krafti í innviðum um allt land á undanförnum árum og fjölmörgum verkefnum komið til leiðar og mörg verkefni langt komin sem ný ríkisstjórn mun njóta góðs af hvort sem litið er til heilbrigðismála, mennta- og barnamála, íþróttamála, samgöngumála, útlendingamála, menningarmála eða annars.
Ný ríkisstjórn verður fyrst og fremst að passa að taka ekki rangar ákvarðanir og breyta um kúrs í of mörgum málum, enda væri ekki gott að hinar margumtöluðu breytingar stjórnarflokkanna yrðu til hins verra. Að því sögðu vil ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum og mun leggja mín lóð á vogarskálarnar við að halda henni við efnið á komandi misserum.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.