Categories
Greinar

Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóra

Deila grein

14/02/2025

Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóra

Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri hef­ur nú sýnt að hann er flest­um stjórn­mála­mönn­um fremri, sann­fær­ing ræður för. Hann hik­ar ekki við að fórna starfi og stund­ar­frama þegar ekk­ert miðar í þeim áform­um sem hann og flokk­ur hans hétu Reyk­vík­ing­um og þjóðinni í mál­efn­um höfuðborg­ar­inn­ar. Stærst veg­ur þar sú ábyrgð að standa með líf­inu, frammi fyr­ir þeirri lífs­hættu sem flugáhöfn­um og farþegum er bú­inn á Reykja­vík­ur­flug­velli. Þar veg­ur þyngst sjúkra­flug með fólk í lífs­áhættu þar sem ekki mín­út­ur held­ur sek­únd­ur skipta máli. Takið eft­ir, oft er eins og flug­völl­ur­inn í Vatns­mýr­inni sé bara sjúkra­flug­völl­ur lands­byggðarfólks. Reyk­vík­ing­arn­ir og höfuðborg­ar­bú­arn­ir skipta þúsund­um sem eiga flug­vell­in­um líf sitt eða ást­vin­ar síns að launa.

Það er mik­il sorg­ar­saga hvernig stjórn­mála­menn hafa látið leiða sig út í hvert óhæfu­verkið eft­ir annað til að slátra Reykja­vík­ur­flug­velli með heimsku­leg­um aðgerðum. Þrengja mis­kunn­ar­laust að flug­vell­in­um eins og ann­ar flug­völl­ur sé inn­an seil­ing­ar, sem loks­ins er viður­kennt eft­ir ákvörðun Ein­ars og umræðu hans og fleiri um flug­völl­inn að er ekki til staðar og ekki í sjón­máli.

Nú ligg­ur fyr­ir að í Hvassa­hrauni eru glóru­laus áform um vara- og neyðarflug­völl, sem samt er haldið áfram með. Íþrótta­fé­lagið Val­ur hef­ur með mis­kunn­ar­laus­um ásetn­ingi haldið áfram að sækja leyfi til að byggja blokk­ir til að eyðileggja flug­völl­inn, og bygg­ing­arn­ar eru farn­ar að ögra með svipti­vind­um flugi á flug­braut­inni þeirri einu sem opin er. Svo stend­ur til að þrengja svo um mun­ar að flug­vell­in­um með risa­blokk­um í Skerjaf­irði, borg­in með ráðherra­leyfi sem ber að aft­ur­kalla.

Loks­ins tókst þér Ein­ar Þor­steins­son, á neyðar­stundu þegar aðflugi að flug­vell­in­um, neyðarbraut­inni, er lokað, að fá liðið í borg­ar­stjórn­inni til að skipta um skoðun, já eða þora ekki annað en að taka sjúk­linga fram yfir tré. Skóg­ar­höggið er hafið og öll þessi tré eiga að fara og byggja úti­vist­ar­svæði með göngu­braut­um, birki­trjám og blóm­um.

For­sæt­is-, um­hverf­is- og orku­málaráðherra eru geng­in í lið með Ein­ari og krefjast aðgerða. Eyj­ólf­ur Ármanns­son sam­gönguráðherra hef­ur talað skýr­ast allra ráðherra fyrr og síðar, burt með trén. Marg­ir eru söku­dólg­ar í máli flug­vall­ar­ins en einn mann ber þar hæst, hann ætti að spyrja í dags­birtu hvaða skoðun hann hafi á hinni miklu neyðaraðgerð að höggva skóg­inn við þær aðstæður sem nú blasa við, eða lok­un neyðarbraut­ar­inn­ar? Og ann­arri enn mik­il­væg­ari neyðarbraut var áður fórnað og lokað.

Til ham­ingju Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri, það er stál­vilji og virðing­ar­vert að hverfa frá völd­um og neita að bera ábyrgð þar sem harm­leik­ur get­ur átt sér stað á hverri stundu á skert­um ör­ygg­is­flug­velli Íslands í Reykja­vík. Ég vildi ekki bera ábyrgð á þeirri stöðu. En þú les­andi minn? Lesið svo sög­una á Vísi af Birni Sig­urði Jóns­syni sauðfjár­bónda þar sem lækn­ir hans sagði að tvær mín­út­ur hefðu skilið á milli lífs og dauða. Hjart­anu í Vatns­mýr­inni blæðir nú.

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. febrúar 2025.