Lýðræði og gagnsæi eru grunnstoðir lýðveldisins og eiga að vera tryggð í öllum stjórnsýslueiningum landsins, þar á meðal á sveitarstjórnarstiginu. Síðustu breytingar sem urðu á stjórnskipulagi Suðurnesjabæjar voru þegar nýr meirihluti tók við sumarið 2024 þar sem meirihlutinn tók yfir öll lykilhlutverk í bæjaráði. Minnihlutinn hefur því ekki aðkomu að áhrifamiklum ákvörðunum í sveitarfélaginu og ég verð að viðurkenna að það vekur alvarlegar áhyggjur um framtíð lýðræðisins í sveitarfélaginu.
Bæjarráð einungis skipað fulltrúum meirihlutans – brot á lýðræðislegum venjum?
Eftir meirihlutaskiptin sumarið 2024, þar sem Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Bæjarlistinn tóku við stjórnartaumunum, var tekin ákvörðun um að bæjarráð Suðurnesjabæjar yrði eingöngu skipað fulltrúum meirihlutans. Minnihlutanum, sem samanstendur af tveimur bæjarfulltrúum Framsóknarflokksins og einum óháðum bæjarfulltrúa sem áður var í Sjálfstæðisflokknum, var aðeins úthlutað einum áheyrnarfulltrúa í bæjarráði, án atkvæðisréttar.
Hlutverk bæjarráðs er eitt það mikilvægasta innan sveitarstjórnar, þar sem það hefur eftirlit með fjármálum sveitarfélagsins, semur drög að fjárhagsáætlun, leggur fram tillögur um viðauka við hana og hefur fullnaðarákvörðunarvald í málum sem ekki varða verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins. Þetta þýðir að allar þessar ákvarðanir eru nú teknar af meirihlutanum einum, án þess að minnihlutinn hafi nokkurt raunverulegt aðhald eða aðkomu að málum.
Það þekkist ekki á byggðu bóli á Íslandi að minnihlutinn hafi ekki aðgang að bæjarráði með atkvæðisrétti. Þessi breyting er því einsdæmi og grefur undan lýðræðislegu eftirliti með ákvarðanatöku bæjarráðs.
Fækkun bæjarfulltrúa: Skref aftur á bak í lýðræðislegri þróun?
Annað umdeilt skref sem meirihlutinn hefur tekið er að fækka bæjarfulltrúum í Suðurnesjabæ úr níu í sjö í næstu sveitarstjórnarkosningum. Á 160. fundi bæjarráðs lögðu fulltrúar meirihlutans, Sigursveinn Bjarni Jónsson (Samfylkingu), Laufey Erlendsdóttir (Bæjarlistanum) og Einar Jón Pálsson (Sjálfstæðisflokki), fram tillögu um fækkun bæjarfulltrúa. Þar sem minnihlutinn hafði ekki atkvæðisrétt í bæjarráði var tillagan samþykkt samhljóða, án mótatkvæða eða tækifæris til rökstuðnings gegn henni.
Samkvæmt 11. gr. sveitarstjórnarlaga skal fjöldi bæjarfulltrúa í sveitarfélagi með 2.000-9.999 íbúa vera á bilinu 7-11. Með 4.284 íbúa fellur Suðurnesjabær um miðbik þessa bils og ætti samkvæmt eðlilegri stjórnsýslu að halda í níu fulltrúa, þar sem það tryggir víðari sjónarmið og meiri fjölbreytni í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku sveitarfélagsins, sem er ört stækkandi.
Samanburður við önnur sveitarfélög
Sé litið til sambærilegra sveitarfélaga er ljóst að níu fulltrúar er algengasta fyrirkomulagið í sveitarfélögum af svipaðri stærð:
Vestmannaeyjar (4.703 íbúar) – níu bæjarfulltrúar
Skagafjörður (4.428 íbúar) –
níu bæjarfulltrúar
Ísafjarðarbær (3.965 íbúar) –
níu bæjarfulltrúar
Borgarbyggð (4.363 íbúar) –
níu bæjarfulltrúar
Norðurþing (3.226 íbúar) –
níu bæjarfulltrúar
Þessi gögn sýna að fækkun bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ er ekki í samræmi við venjur annarra sveitarfélaga af svipaðri stærð. Með því að fækka fulltrúum minnkar lýðræðislegt aðhald og dregur úr fjölbreytni sjónarmiða í umræðum og ákvarðanatöku.
Er Suðurnesjabær í frjálsu falli lýðræðisins?
Þessar tvær stóru breytingar, einræðislegt bæjarráð og fækkun bæjarfulltrúa, leiða til meiri samþjöppunar valds í höndum færri aðila og veita minnihlutanum lítil sem engin áhrif á ákvarðanatöku í sveitarfélaginu. Með því að útiloka minnihlutann frá áhrifum er búið til umhverfi þar sem stjórnmálaumræða og gagnrýni á ákvarðanir meirihlutans verður veikburða.
Spurningin sem blasir við er: Er Suðurnesjabær í frjálsu falli lýðræðisins? Ef bæjarstjórn ætlar að viðhalda trausti almennings og tryggja lýðræðislega stjórnarhætti verður hún að staldra við og endurskoða ákvarðanir sínar. Íbúar sveitarfélagsins eiga skilið stjórnsýslu sem tryggir lýðræðislegt aðhald og fjölbreytt sjónarmið í ákvarðanatöku.
Alexis de Tocqueville, franskur stjórnmálaheimspekingur, sagnfræðingur og rithöfundur, þekktur fyrir greiningu sína á lýðræði og samfélagslegri þróun, bendir á að lýðræði sé ekki sjálfgefið heldur byggist á virku aðhaldi og þátttöku borgaranna. Á sama hátt lagði Platón, grískur heimspekingur og einn áhrifamesti hugsuður sögunnar, áherslu á að jafnvægi í stjórnkerfi væri forsenda stöðugleika. Það er því undir bæjarstjórn Suðurnesjabæjar komið að hlúa að þessum grunngildum og tryggja að lýðræðið haldist sterkt í verki.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. mars 2025.