Categories
Fréttir Greinar

Hugum að sameiginlegum gildum

Deila grein

06/03/2025

Hugum að sameiginlegum gildum

Alþjóðamál hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ára­tugi. Það er brýnt að tryggja hags­muni Íslands með skyn­sam­legri og mark­vissri stefnu. Í sí­breyti­legu alþjóðlegu um­hverfi, þar sem efna­hags­leg, póli­tísk og ör­yggis­tengd mál þró­ast hratt, skipt­ir sköp­um að ís­lensk stjórn­völd og fyr­ir­tæki séu vel und­ir­bú­in til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir. Staða Íslands á alþjóðavett­vangi er sterk vegna þess að stjórn­völd frá lýðveld­is­stofn­un hafa valið far­sæla veg­ferð. Til að mynda var Ísland stofnaðili að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum, Alþjóðabank­an­um, Atlants­hafs­banda­lag­inu og Norður­landaráði. Seinna meir var ákveðið að ger­ast stofnaðili að Efna­hags- og fram­fara­stof­un­inni og Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Þátt­taka Íslands hef­ur reynst vera giftu­rík og það er afar mik­il­vægt fyr­ir lítið opið hag­kerfi að vera virk­ur þátt­tak­andi á alþjóðavett­vangi. Það rík­ir í dag nokkuð góð sátt um þátt­töku í of­an­greind­um alþjóðastofn­un­um. Mest­ur styr stóð um aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu og seinna meir svo gerð tví­hliða varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in árið 1951. Þegar ákv­arðanir voru tekn­ar á sín­um tíma, þá vildu stjórn­völd vera í banda­lagi með lýðræðisþjóðum og þeim sem deildu sams­kon­ar heims­sýn. Þessi saga þjóðar­inn­ar á upp­hafs­ár­um lýðveld­is­ins eld­ist vel.

Ýmsir meta stöðuna í heims­mál­um á þann veg að brýnt sé að flýta skoðun á kost­um og göll­um þess að Ísland ger­ist aðili að Evr­ópu­sam­band­inu og að þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald viðræðna fari fram sem allra fyrst. Þetta séu hrein­lega þjóðar­hags­mun­ir! Mér finnst afar brýnt að öll stærri hags­muna­mál Íslands fari í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Var­ast skal þó að flýta þessu máli, áður en heild­ar­hags­muna­mat hef­ur verið gert. Skömmu eft­ir efna­hags­hrunið ákvað rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þegar Ísland og öll þjóðin var í mikl­um sár­um. Ekki var hugað að því, því nota átti ferðina til að koma land­inu í Evr­ópu­sam­bandið. Öll sú veg­ferð var mis­lukkuð, þar sem þjóðin var ekki spurð og ekki ríkti ein­ing um málið í rík­is­stjórn­inni. Allt eitt bjölluat. Ég vara ein­dregið við því að hefja nýja ESB-veg­ferð, þegar mik­il óvissa rík­ir í alþjóðastjórn­mál­um. Íslandi hef­ur farn­ast vel að velja trausta banda­menn og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram, ef við höf­um þjóðar­hags­muni að leiðarljósi. Evr­ópu­sam­bandið er ekki varn­ar­banda­lag og hef­ur ekki sam­eig­in­leg­an her. Fram­kvæmda­stjóri banda­lags­ins hef­ur vissu­lega til­kynnt um stór­auk­in fram­lög til ör­ygg­is- og varn­ar­mála vegna þeirr­ar stöðu sem uppi er í Evr­ópu. Hins veg­ar rík­ir enn mik­il óvissa og við verðum að sjá hvernig mál­in þró­ast. Að þessu sögðu er afar mik­il­vægt að móta þver­póli­tíska ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu. Þeirri vinnu ber að flýta og einnig meta hin þjóðhags­legu áhrif af breyttri stöðu. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn, og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“ Þetta voru ráð Njáls til Gunn­ars á Hlíðar­enda um mik­il­vægi þess að rjúfa ekki traust og trúnað við ætt Ot­kels. Auðvitað eru breytt­ir tím­ar í dag á Íslandi en það sem er sam­eig­in­legt er að það ber ekki að efna til ófriðar um Evr­ópu­mál­in á þess­um óvissu­tím­um. Mik­il­væg­ast fyr­ir stjórn­mál líðandi stund­ar er að for­gangsraða rétt í þágu þjóðar­inn­ar og að breið sátt ná­ist um þá stefnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.