Alþjóðamál hafa ekki verið jafn þýðingarmikil í áratugi. Það er brýnt að tryggja hagsmuni Íslands með skynsamlegri og markvissri stefnu. Í síbreytilegu alþjóðlegu umhverfi, þar sem efnahagsleg, pólitísk og öryggistengd mál þróast hratt, skiptir sköpum að íslensk stjórnvöld og fyrirtæki séu vel undirbúin til að takast á við nýjar áskoranir. Staða Íslands á alþjóðavettvangi er sterk vegna þess að stjórnvöld frá lýðveldisstofnun hafa valið farsæla vegferð. Til að mynda var Ísland stofnaðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum, Atlantshafsbandalaginu og Norðurlandaráði. Seinna meir var ákveðið að gerast stofnaðili að Efnahags- og framfarastofuninni og Evrópska efnahagssvæðinu. Þátttaka Íslands hefur reynst vera gifturík og það er afar mikilvægt fyrir lítið opið hagkerfi að vera virkur þátttakandi á alþjóðavettvangi. Það ríkir í dag nokkuð góð sátt um þátttöku í ofangreindum alþjóðastofnunum. Mestur styr stóð um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og seinna meir svo gerð tvíhliða varnarsamningsins við Bandaríkin árið 1951. Þegar ákvarðanir voru teknar á sínum tíma, þá vildu stjórnvöld vera í bandalagi með lýðræðisþjóðum og þeim sem deildu samskonar heimssýn. Þessi saga þjóðarinnar á upphafsárum lýðveldisins eldist vel.
Ýmsir meta stöðuna í heimsmálum á þann veg að brýnt sé að flýta skoðun á kostum og göllum þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna fari fram sem allra fyrst. Þetta séu hreinlega þjóðarhagsmunir! Mér finnst afar brýnt að öll stærri hagsmunamál Íslands fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Varast skal þó að flýta þessu máli, áður en heildarhagsmunamat hefur verið gert. Skömmu eftir efnahagshrunið ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þegar Ísland og öll þjóðin var í miklum sárum. Ekki var hugað að því, því nota átti ferðina til að koma landinu í Evrópusambandið. Öll sú vegferð var mislukkuð, þar sem þjóðin var ekki spurð og ekki ríkti eining um málið í ríkisstjórninni. Allt eitt bjölluat. Ég vara eindregið við því að hefja nýja ESB-vegferð, þegar mikil óvissa ríkir í alþjóðastjórnmálum. Íslandi hefur farnast vel að velja trausta bandamenn og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram, ef við höfum þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Evrópusambandið er ekki varnarbandalag og hefur ekki sameiginlegan her. Framkvæmdastjóri bandalagsins hefur vissulega tilkynnt um stóraukin framlög til öryggis- og varnarmála vegna þeirrar stöðu sem uppi er í Evrópu. Hins vegar ríkir enn mikil óvissa og við verðum að sjá hvernig málin þróast. Að þessu sögðu er afar mikilvægt að móta þverpólitíska öryggis- og varnarstefnu. Þeirri vinnu ber að flýta og einnig meta hin þjóðhagslegu áhrif af breyttri stöðu. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn, og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“ Þetta voru ráð Njáls til Gunnars á Hlíðarenda um mikilvægi þess að rjúfa ekki traust og trúnað við ætt Otkels. Auðvitað eru breyttir tímar í dag á Íslandi en það sem er sameiginlegt er að það ber ekki að efna til ófriðar um Evrópumálin á þessum óvissutímum. Mikilvægast fyrir stjórnmál líðandi stundar er að forgangsraða rétt í þágu þjóðarinnar og að breið sátt náist um þá stefnu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.