Uppbygging hjúkrunarheimila hefur verið eitt brýnasta verkefnið í íslensku velferðarkerfi undanfarin ár. Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar vex þörfin fyrir hjúkrunarrými hratt, en framkvæmdin hefur því miður reynst hæg. Framkvæmdaáætlun til ársins 2028 var lögð fram af fyrri ríkisstjórn með það að markmiði að bæta úr skorti á hjúkrunarrýmum, strax á þessu ári. Nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við vaknar spurningin hvort þau muni fylgja þeirri stefnu og tryggja framgang verkefnisins eða gera breytingar á fyrirkomulaginu.
Í síðustu viku lagði ég fram fyrirspurn til félags- og vinnumarkaðsráðherra um hvernig ný stjórnvöld hygðust tryggja raunhæfa og tímanlega uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ég benti á mikilvægi pólitísks vilja svo fjármagn fylgdi settum markmiðum. Því var mikilvægt að fá skýr svör um hvort ný ríkisstjórn hygðist fylgja áætluninni eða hvort stefnubreyting væri fyrirhuguð.
Hver er staðan nú?
Samkvæmt nýlegri skýrslu um framkvæmdaáætlun hjúkrunarheimila er ljóst að á næstu árum þarf að byggja og bæta yfir 900 hjúkrunarrými, þar af fjölgun um 724 rými. Á þessu ári er gert ráð fyrir um 250 nýjum hjúkrunarrýmum, þar á meðal á Boðaþingi og Nesvöllum sem verða opnuð með vorinu og búið er að leigja aðstöðu í Urðarhvarfi.
Ný verkefni eins og hjúkrunarheimili á Akureyri, í Húsavík, Patreksfirði og á höfuðborgarsvæðinu voru á dagskrá fyrri ríkisstjórnar þar sem fara átti svokallaða leiguleið til að flýta fyrir framkvæmdum.
Framkvæmdir og framtíðarsýn
Ein af lykilspurningum sem ég beindi til ráðherra var hvort ríkisstjórnin ætlaði að fylgja þeirri stefnu fyrri ríkisstjórnar að nota leiguleiðina til að hraða uppbyggingu. Þessi aðferð felur í sér að ríkið auglýsir eftir fasteignafélögum eða byggingaraðilum til að reisa og reka hjúkrunarheimilin, en ríkið tekur þau síðan á langtímaleigu. Þetta hefur reynst skila skjótari árangri en hefðbundin framkvæmdaleið.
Svar ráðherra var óljóst, sagði þau vera að vinna verkið og framkvæma en svaraði engu til með leiguleiðina. Þetta loforð um framkvæmd er án efa jákvætt, en það þarf að tryggja að skýrar fjárveitingar og samningar fylgi með. Án fjármagns og samstöðu ríkis og sveitarfélaga geta framkvæmdir tafist óþarflega, eins og dæmin sanna. Ég mun áfram fylgjast náið með hvernig þessar framkvæmdir þróast, því það skiptir máli að eldri borgarar okkar fái þann stuðning og þá umönnun sem þeir eiga skilið.
Á næstu árum mun eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum aðeins aukast. Fyrirspurn mín til ráðherra var því ekki bara spurning um framkvæmdaáætlanir, heldur um samfélagslega ábyrgð. Nú er það verkefni ríkisstjórnarinnar að láta verkin tala og munu næstu mánuðir leiða í ljós hvort hún ætlar að standa við loforð og tryggja að uppbygging hjúkrunarheimila verði ekki aðeins orð á blaði heldur áþreifanlegur veruleiki.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2025.