Categories
Fréttir Greinar

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Deila grein

27/03/2025

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Ein helsta frétt síðustu viku á Íslandi var sú að frjó­semi hef­ur aldrei verið lægri frá upp­hafi mæl­inga árið 1853. Yf­ir­leitt er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mann­fjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjó­semi kvenna bú­settra á Íslandi kom­in niður í 1,56.

Svipaða þróun má sjá víða á Norður­lönd­um. Árið 2023 var fjöldi lif­andi fæddra barna á hverja konu rúm­lega 1,4 í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, en í Finn­landi fór tal­an niður í 1,26. Enn verri er staðan í Suður-Kór­eu, þar sem frjó­semi mæld­ist 0,75 – þó með ör­lít­illi hækk­un árið 2024.

Lækk­andi fæðing­artíðni er mikið áhyggju­efni og veld­ur marg­vís­leg­um áskor­un­um fyr­ir sam­fé­lagið. Færri eru á vinnu­markaðnum og það dreg­ur úr hag­vexti og ný­sköp­un. Að sama skapi eykst hlut­fall eldri borg­ara, sem býr til þrýst­ing á vel­ferðar­kerfið. Inn­lend eft­ir­spurn minnk­ar, sér­stak­lega í þjón­ustu­geir­an­um og á fast­eigna­markaði. Staðan er sú að ef ekki tekst að mæta þess­ari þróun, þá get­ur skap­ast nei­kvæð hringrás sem leiðir til lak­ari lífs­gæða.

Ísland hef­ur lengi haft stefnu sem styður við barneign­ir, t.d. með öfl­ugu leik­skóla­kerfi, fæðing­ar­or­lofi fyr­ir báða for­eldra og barna­bót­um. En sam­kvæmt nýj­ustu lýðfræðigögn­um duga þessi úrræði ekki leng­ur til. Leik­skóla­kerfið ræður ekki leng­ur við eft­ir­spurn­ina og önn­ur úrræði hafa dreg­ist sam­an. Þetta er al­var­legt og brýnt er að finna nýj­ar leiðir til að bregðast við.

Í áhuga­verðum grein­ing­um mann­fjölda­fræðings­ins Lym­ans Stones kem­ur fram að hús­næðismál skipta sköp­um þegar kem­ur að lækk­andi fæðing­artíðni í Banda­ríkj­un­um. Hús­næði veit­ir ákveðinn stöðug­leika og er oft for­senda fjöl­skyldu­mynd­un­ar. Ef ungt fólk á erfitt með að kom­ast inn á hús­næðismarkað – eða ef láns­kjör eru óhag­stæð – minnka lík­urn­ar á því að fólk stofni fjöl­skyld­ur. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi.

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni okk­ar til framtíðar er að stíga ákveðnari skref í að gera Ísland að fjöl­skyldu­vænu sam­fé­lagi. Stjórn­völd og at­vinnu­líf þurfa að vinna sam­an að því mark­miði, því framtíð lífs­kjara þjóðar­inn­ar er í húfi.

Svarið við spurn­ing­unni hér að ofan er ein­falt: Já!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars 2025.