Categories
Greinar

Íslenskan – lífæð þjóðarinnar

Deila grein

02/05/2025

Íslenskan – lífæð þjóðarinnar

Íslensk­an er æðaslátt­ur þjóðar­inn­ar. Í gegn­um ald­irn­ar hafa mæðurn­ar kennt börn­um sín­um fyrstu orðin, þau orð sem verða und­ir­staða allr­ar hugs­un­ar, allr­ar menn­ing­ar og allra fram­fara. Í móður­mál­inu býr sá kraft­ur sem held­ur þjóð í heilu lagi, bind­ur sam­an fortíð, samtíð og framtíð.

Nú, á þess­um tím­um örra breyt­inga, þegar er­lend mál ryðja sér til rúms í huga og máli ungu kyn­slóðar­inn­ar, ber okk­ur skylda – já, heil­ög skylda – til að standa vörð um tungu okk­ar. Sótt er að ís­lensk­unni bæði úr menn­ingu og tækni, með er­lend­um áhrif­um sem smám sam­an vinna á þol­in­móðri, en þraut­seigri, tungu okk­ar.

Það verður ekki nægi­legt að mæla fag­ur­gala um gildi ís­lensk­unn­ar – við verðum að bretta upp erm­arn­ar og grípa til aðgerða. Efl­um ís­lensku­kennslu í skól­um lands­ins. Gef­um kenn­ur­um okk­ar betri aðbúnað og öfl­ugri verk­færi til að efla mál­vit­und barna og ung­menna.

En ekki aðeins það: við verðum að horf­ast í augu við að framtíð ís­lensk­unn­ar ræðst einnig á vett­vangi tækni og ný­sköp­un­ar. Við verðum að styðja dyggi­lega við ís­lenska tungu í sta­f­ræn­um heimi; fjár­festa í þróun mál­tækni, sjálf­virkr­ar þýðing­ar, tal­grein­ing­ar og annarra lausna sem tryggja að ís­lensk­an verði lif­andi og aðgengi­leg á öll­um sviðum nú­tíma­sam­fé­lags.

Þá ber okk­ur einnig að gæta þess, að með til­komu er­lends vinnu­afls hingað til lands verðum við sem þjóð að sýna festu og rækt­ar­semi. Við verðum að tala ís­lensku við þá sem hingað koma, svo þeir læri tungu þjóðar­inn­ar og verði virk­ir þátt­tak­end­ur í ís­lensku sam­fé­lagi. Mál þeirra og menn­ing á virðingu skilið – en hér á landi skal ís­lensk­an vera sam­ein­ing­ar­táknið sem all­ir stefna að.

Ef við van­rækj­um þetta, ef við sofn­um á verðinum, glöt­um við ekki aðeins tung­unni held­ur sjálf­um okk­ur. Því án móður­máls­ins verður þjóðin rót­laus og upp­runa­lít­il, eins og tré sem miss­ir sín­ar dýpstu ræt­ur.

Meg­um við öll, ung sem göm­ul, axla þá ábyrgð að varðveita ís­lensk­una sem dýr­mæt­asta arf þjóðar­inn­ar – og skila henni áfram, sterk­ari og rík­ari, til þeirra sem á eft­ir okk­ur koma.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 2. maí 2025.