Íslenskan er æðasláttur þjóðarinnar. Í gegnum aldirnar hafa mæðurnar kennt börnum sínum fyrstu orðin, þau orð sem verða undirstaða allrar hugsunar, allrar menningar og allra framfara. Í móðurmálinu býr sá kraftur sem heldur þjóð í heilu lagi, bindur saman fortíð, samtíð og framtíð.
Nú, á þessum tímum örra breytinga, þegar erlend mál ryðja sér til rúms í huga og máli ungu kynslóðarinnar, ber okkur skylda – já, heilög skylda – til að standa vörð um tungu okkar. Sótt er að íslenskunni bæði úr menningu og tækni, með erlendum áhrifum sem smám saman vinna á þolinmóðri, en þrautseigri, tungu okkar.
Það verður ekki nægilegt að mæla fagurgala um gildi íslenskunnar – við verðum að bretta upp ermarnar og grípa til aðgerða. Eflum íslenskukennslu í skólum landsins. Gefum kennurum okkar betri aðbúnað og öflugri verkfæri til að efla málvitund barna og ungmenna.
En ekki aðeins það: við verðum að horfast í augu við að framtíð íslenskunnar ræðst einnig á vettvangi tækni og nýsköpunar. Við verðum að styðja dyggilega við íslenska tungu í stafrænum heimi; fjárfesta í þróun máltækni, sjálfvirkrar þýðingar, talgreiningar og annarra lausna sem tryggja að íslenskan verði lifandi og aðgengileg á öllum sviðum nútímasamfélags.
Þá ber okkur einnig að gæta þess, að með tilkomu erlends vinnuafls hingað til lands verðum við sem þjóð að sýna festu og ræktarsemi. Við verðum að tala íslensku við þá sem hingað koma, svo þeir læri tungu þjóðarinnar og verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Mál þeirra og menning á virðingu skilið – en hér á landi skal íslenskan vera sameiningartáknið sem allir stefna að.
Ef við vanrækjum þetta, ef við sofnum á verðinum, glötum við ekki aðeins tungunni heldur sjálfum okkur. Því án móðurmálsins verður þjóðin rótlaus og upprunalítil, eins og tré sem missir sínar dýpstu rætur.
Megum við öll, ung sem gömul, axla þá ábyrgð að varðveita íslenskuna sem dýrmætasta arf þjóðarinnar – og skila henni áfram, sterkari og ríkari, til þeirra sem á eftir okkur koma.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 2. maí 2025.