Categories
Fréttir Greinar

Öflugt at­vinnulíf í Hafnar­firði

Deila grein

02/09/2025

Öflugt at­vinnulíf í Hafnar­firði

Við sjáum daglega hér í Hafnarfirði hversu mikilvægt öflugt atvinnulíf er fyrir samfélagið okkar. Sveitarfélagið hefur á undanförum árum lagt ríka áherslu á að skapa aðlaðandi starfsumhverfi fyrir hafnfirsk fyrirtæki. Þetta gerum við bæði fyrir þau rótgrónu og traustu sem og nýju fyrirtækin.

Álagning fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði hefur til að mynda verið lækkað úr 1,57% í 1,387% frá árinu 2018. Með því er markvisst verið að létta undir með atvinnulífinu og styðja við áframhaldandi vöxt. Þessi stefna hefur þegar skilað árangri: Fyrirtækjum hefur fjölgað og iðnaðarhverfi Hafnarfjarðar hafa verið að byggjast upp af miklum krafti.

Hellnahraun 4 – nýtt athafnasvæði

Nú er unnið að nýju deiliskipulagi fyrir athafnasvæði í Kapelluhrauni; Hellnahraun 4. Mikil eftirspurn er eftir lóðum í sveitarfélaginu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og er þessu svæði ætlað m.a. ætlað að mæta þeirri þörf. Svæðið er því skilgreint sem athafnarsvæði í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013–2025.

Staðsetningin er ákjósanleg, nálægt öðrum athafna- og iðnaðarsvæðum. Þar verður einkum gert ráð fyrir léttum iðnaði sem ekki veldur mengun, ásamt þjónustustarfsemi samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar.

Stöndum með kröftugu atvinnulífi

Við erum afar stolt af því hvernig til hefur tekist þessi síðustu ár og munum áfram standa með öflugu atvinnulífi í Hafnarfirði. Ný fyrirtæki auka umsvif, þau fjölga bæði störfum og íbúum. Þau styrkja verslun og þjónustu á svæðinu og efla þannig þá atvinnustarfsemi sem fyrir er.

Öflugt atvinnulíf, hvort sem er hér í Hafnarfirði eða á landinu öllu, er forsenda velferðar samfélagsins – góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnana og blómlegs menningarlífs. Þar viljum við standa sterk og gerum okkar svo hafnfirsk fyrirtæki geri einmitt það.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2025.