Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi í störfum þingsins ný áform mennta- og barnamálaráðherra um að setja á laggirnar fjórar til sex svæðisskrifstofur sem taki yfir rekstrartengd verkefni framhaldsskóla. Þessi áform ganga gegn frumvarpi ráðherrans sjálfs sem veiti skólum víðtækar heimildir til samstarfssamninga um stoðþjónustu og rekstur.
Svæðisskrifstofurnar eiga að yfirtaka verkefni á borð við rekstur, mannauðsmál og stoðþjónustu. Á vef ráðuneytisins sé jafnframt rökstutt að sameining stjórnsýslu tryggi „betri þjónustu og markvissari stjórnsýslu“ á sama tíma og skólarnir haldi sérstöðu sinni og nafni.
„Þetta þýðir með öðrum orðum að stjórnendur framhaldsskóla missa umboð sitt til að taka ákvarðanir og gera samninga,“ sagði Ingibjörg og bætti við að slíkt jafngilti því að „leggja til nýtt stjórnsýslustig“.
Ráðherrann hefur mælt fyrir frumvarpi sem veitti framhaldsskólum víðtækar heimildir til að gera samstarfssamninga um rekstrartengd mál og stoðþjónustu, svo sem fjármál, bókhald, laun, mannauð, upplýsingakerfi, innkaup, húsnæði og stjórnsýslu.
„Hér er verið að leggja til að skólar fái frekari heimildir til að gera samninga og bæta rekstur sinn á sama tíma og verið er að taka hlutverkið af þeim annars staðar.“
Ingibjörg segir að svör ráðherrans í gær hafa komið á óvart, þar sem hann hefði fullyrt að engin tengsl væru á milli frumvarpsins um samstarfssamninga og áforma um svæðisskrifstofur.
„Á sama tíma og ráðherra vill auka sjálfstæði framhaldsskóla … eru í gangi áform um að færa einmitt þau málefni … undir svæðisskrifstofur,“ sagði Ingibjörg og vísaði til þess að þetta kæmi fram í gögnum ráðuneytisins sjálfs. „Þrátt fyrir þetta fullyrti ráðherra í gær að það ætti ekki að færa rekstur framhaldsskóla yfir til svæðisskrifstofa, þrátt fyrir að það standi skýrum stöfum á vef Stjórnarráðsins.“
Ingibjörg sagði eðlilegt að Alþingi gerði athugasemdir þegar „boðuð stefnumótun stjórnvalda er hvorki samrýmd né skiljanleg“ og spurði hver væri framtíðarsýnin í málaflokknum.