„Ég held að við getum öll verið sammála því að menntakerfið sé einn af hornsteinum samfélagsins og lykillinn að farsæld komandi kynslóða, en í dag stöndum við á krossgötum,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, í sérstakri umræðu á Alþingi um menntamál þar sem mennta- og barnamálaráðherra var til andsvara.
Ingibjörg lagði áherslu á í ræðu sinni að skólakerfið hefði ekki fylgt nægilega hröðum samfélagsbreytingum og sagði þörf á „nýrri hugsun, nýrri nálgun, samstöðu og hugrekki“ til að ráðast í raunverulegar umbætur.
Ingibjörg nefndi fjórar megináskoranir í leik- og grunnskólum: versnandi íslenskukunnáttu barna, skort á fagmenntuðum kennurum, skort á stoðþjónustu og viðeigandi námsefni fyrir börn með fjölbreyttar þarfir.
„Umfram allt verðum við að tryggja að allir sem búa hér læri íslensku,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að læsi væri lykillinn að framförum í námi.
Krefst markvissari íslenskukennslu og skýrari krafna
Ingibjörg sagði að sífellt stærri hópur barna hefði annað móðurmál en íslensku. Það væri bæði tækifæri og áskorun. Hún hvatti til þess að efla kennslu í íslensku sem öðru máli og tryggja aðgengi að námsefni og stuðningi, jafnvel með því að gera kröfur um tiltekna grunnþekkingu áður en börn væru sett í almennan bekk. „Ef börnin skilja ekki kennarann sinn og bekkjarfélaga þá ná þau litlum sem engum árangri.“
Kennaraskortur og starfsumhverfi undir pressu
Ingibjörg vísaði til þess að um 20% kennara í íslenskum skólum væru án fullrar fagmenntunar og að stór hluti kenndi fög sem væru ekki hluti af eigin menntun. Yngri kennarar teldu sig verr undirbúna en áður, samkvæmt alþjóðlegri TALIS-könnun. „Við þurfum að gera kennarastarfið aðlaðandi aftur,“ sagði hún og nefndi skýrari starfsþróun, betra starfsumhverfi og raunhæft svigrúm kennara til að „sinna barninu sjálfu“ svo starfsævin yrði löng og farsæl.
„Skóli án aðgreiningar“ þarf raunhæfan stuðning
Ingibjörg vék að hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar og spurði hvort hún stæðist í framkvæmd. Fjöldi barna er ekki að fá þann stuðning sem þau þyrftu og kennara bera of mikla ábyrgð á verkefnum sem féllu jafnvel utan verksviðs þeirra. Samkvæmt nýrri skýrslu ráðuneytisins þyrftu yfir 120 börn á sérhæfðum úrræðum að halda á hverjum tíma og um 30% nemenda fengju einhverja sérkennslu. Ingibjörg benti einnig á að sum börn hefðu ekki fengið pláss í sérdeildum á síðasta ári og að dæmi séu um börn sem hefðu verið án skóla í allt að tvö ár. „Þetta er staða sem er algerlega óásættanleg,“ sagði Ingibjörg og undirstrikaði að skólaskylda legði ríkar skyldur á yfirvöld um að útvega úrræði og pláss „svo allir geti fengið nám við hæfi“.
Kallar eftir gagnsæju námsmati
Að lokum sagði Ingibjörg að foreldrar vildu skýrari mynd af námsstöðu barna sinna. Hún vísaði til könnunar Maskínu þar sem 81% landsmanna vildu að tölueinkunnir héldu áfram að vera hluti námsmats. „Þetta kallar á gagnsæi og aukinn skýrleika,“ sagði Ingibjörg og spurði hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að gera einkunnagjöf skýrari samhliða vandaðri endurgjöf.
Ingibjörg beindi þremur spurningum beint til mennta- og barnamálaráðherra:
1. hvort endurskoða ætti samsetningu kennaranáms miðað við stöðuna,
2. hvort ráðist yrði í aukið fjármagn til íslensku- og lestrarkennslu og
3. hver væru næstu skref stjórnvalda í umbótum menntakerfisins.