Categories
Fréttir Greinar

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Deila grein

14/10/2025

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Heimshagkerfið er á ákveðnum krossgötum vegna mikilla tækniframfara og átaka. Þjóðartekjur á mann hafa þrátt fyrir það aukist á heimsvísu síðustu þrjá áratugi. Margt fólk upplifir þó að það sé skilið eftir og þetta á sérstaklega við um ungt fólk. Frá Reykjavík til Naíróbí hefur gremja aukist vegna skorts á tækifærum til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegu verði. Heimsbúskapurinn hefur engu að síður sýnt óvænta seiglu. Í upphafi árs var spáð efnahagslægð á alþjóðavísu en það hefur ekki ræst. Meginskýringarnar má rekja til þess að viðskiptahindranir urðu minni en óttast var, atvinnulífið hefur náð að aðlagast betur en búist var við og alþjóðavextir hafa lækkað. Heimsmyndin er þó brothætt, svo sem sjá má af vaxandi eftirspurn eftir gulli, óvissu í tollamálum og yfirverðlögðum eignamörkuðum.

Í þessu umhverfi alþjóðlegrar óvissu og óstöðugleika þurfa íslensk stjórnvöld að beina sjónum að þremur markmiðum: Ná tökum á verðbólgu, styrkja opinber fjármál og tryggja langtímahagvöxt. Ráðast verður í meira afgerandi aðgerðir til að ná verðbólgunni niður. Verðbólgan mælist nú á breiðum grunni og hefur verið þrálát um 4%. Engu að síður er hagkerfið að kólna hratt, þrátt fyrir að launahækkanir hafi mælst miklar og að verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði. Ríkisstjórnin tók ekki þessa þrálátu verðbólgu föstum tökum og leiddi sjálf launahækkanir sem voru yfir almenna markaðnum. Að sama skapi er raunútgjaldaaukning í fjárlagafrumvarpinu en ekki það aðhald sem fjármála- og efnahagsráðherra var búinn að boða. Tekjuaukinn í ár nemur 80 mö.kr. og ef aðhalds hefði verið gætt, þá hefði verið hægt að skila afgangi á fjárlögum strax árið 2025. Hefði ríkisstjórnin sýnt slíka væntingakænsku, þá hefði það haft mjög jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar og lækkað ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Skuldir hins opinbera hafa lækkað umtalsvert á Íslandi síðustu tíu ár. Brýnt er að halda áfram á þeirri vegferð til að vaxtagjöldin lækki hraðar. Jákvæður hagvöxtur er einnig mikilvægur fyrir samfélagið, þar sem hann heldur uppi atvinnu og velsæld. Flest ríki í Evrópu eru að leita að hagvexti til að efla samfélögin sín og lífskjör. Afar erfitt er að átta sig á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á síðustu árum hefur hátæknigeirinn og ferðaþjónusta skapað þjóðarbúinu miklar tekjur og framtíðarhorfur eru bjartar, að því gefnu að ríkið fari ekki að setja þannig byrðar á atvinnugreinarnar að þær nái ekki að fjárfesta í framtíðinni.

Á þessum óvissutíma hefur styrk hagstjórn aldrei verið mikilvægari. Ég var sannfærð um að ný ríkisstjórn myndi leggja allt sitt undir í því að ná tökum á verðbólgunni, ríkisfjármálum og efla íslenskt efnahagslíf. Það plan hefur enn ekki litið dagsins ljóst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.