Nýlegur dómur Hæstaréttar Íslands hefur blásið nýju lífi í umræðuna um lánakjör heimilanna. Í svokölluðu vaxtamáli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að óverðtryggð lán yrðu að miðast við stýrivexti Seðlabankans. Þessi tímamótaniðurstaða afhjúpar galla í núverandi fyrirkomulagi og kallar á heildarendurskoðun.
Hollt er að rifja upp uppruna verðtryggingar í þessu samhengi. Verðtrygging var lögleidd með Ólafslögum árið 1979, þegar efnahagslegt ófremdarástand réð ríkjum. Á þeim tíma geisaði óðaverðbólga, raunvextir voru neikvæðir og sparifé í lágmarki. Innstæður voru komnar í sögulegt lágmark og lánsfé þraut. Því var gripið til róttækra ráðstafana: vísitölubinding lána og innlána var tekin upp til að verja sparnað og lán gegn verðbólgu og koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.
Nú, nærri hálfri öld síðar, eru efnahagsaðstæður gjörbreyttar. Verðbólgan er vissulega enn til staðar en stöðugleiki er miklu meiri. Skyldusparnaður í gegnum lífeyrissjóði tryggir að fjármagn safnist fyrir framtíðina, og almenningur hefur fleiri leiðir til ávöxtunar sparnaðar en að geyma fé á bankareikningum. Í stuttu máli: neyðarráðstafanirnar frá 1979 eiga ekki lengur við.
Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður sitjum við enn uppi með úrelt lánakerfi. Ísland er meðal auðugustu landa veraldar. Lífeyrissjóðirnir geyma mikið fjármagn og ríkissjóður er tiltölulega skuldalítill. Samt eru lánakjör þannig að venjulegar fjölskyldur þurfa að skuldbinda sig til 40 ára í mikilli óvissu. Í samfélagi sem býr svo vel ættu landsmenn að geta fengið sanngjarnari og traustari lán til húsnæðiskaupa. Lausnin felst í heildarendurskoðun lánakerfisins. Boða þarf alla hagaðila að borðinu með það eina markmið að bjóða upp á fasteignalán sem endurspegla betur góða stöðu þjóðarbúsins. Hvernig mætti bæta kerfið? Í fyrsta lagi, endurskoða þarf lífeyrissjóðakerfið með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélaginu okkar. Í öðru lagi, auka þarf valkosti lántakenda. Fastvaxtalán til 10 eða 20 ára ættu að vera raunhæfur kostur hérlendis líkt og í nágrannalöndum. Lífeyrissjóðir gætu stutt slíkar lánveitingar þannig að bankar bjóði fasta vexti á samkeppnishæfum kjörum, án þess að taka á sig óbærilega áhættu. Í þriðja lagi, markvisst þarf að draga úr vægi verðtryggingarinnar en það verður ekki hægt að gera nema að aðrir raunhæfir kostir fyrir heimilin séu í boði. Umbætur á þessu kerfi eru eitt mesta hagsmunamál samfélagsins og tilvalið samvinnuverkefni. Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins óskaði nýlega eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að ræða alvarlega stöðu lánamarkaðarins. Vonandi næst pólitísk samstaða um nauðsynlegar kerfisbreytingar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2025.
