Categories
Fréttir Greinar

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Deila grein

04/11/2025

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Upptaka evru sem gjaldmiðils þýðir ekki að sömu húsnæðisvextir séu á öllu evrusvæðinu. Þrátt fyrir meira en tuttugu ára myntbandalag standa íbúðakaupendur á evrusvæðinu enn frammi fyrir mjög mismunandi íbúðalánsvöxtum.

Seðlabanki Evrópu (e. ECB) setur stýrivexti fyrir allt evrusvæðið, sem ákvarða vaxtakjör lána hjá ECB. Hins vegar þegar kemur að íbúðalánum, þá eru það viðskiptabankarnir, ekki ECB, sem ákveða raunverulega vexti sem heimilin greiða. Bankarnir taka mið af sínum eigin fjármögnunarkostnaði, samkeppni á heimamarkaði, mati sínu á áhættu í viðkomandi landi og síðast en ekki síst langtímavöxtum ríkisskuldabréfa viðkomandi ríkis.

Efnahagskerfi evrusvæðisins eru gjörólík. Banki í Þýskalandi býr oft við lægri fjármagnskostnað og stöðugra umhverfi en banki í Grikklandi. Þess vegna þurfa lántakendur í Suður-Evrópu oft að greiða hærri vexti, ekki vegna þess að evran sé öðruvísi þar, heldur vegna þess að bankarnir starfa við erfiðari skilyrði og meiri áhættu. Síðan er það húsnæðismarkaðurinn sjálfur. Eftirspurn og fasteignaverð eru afar ólík eftir löndum. Ofhitnaður spænskur markaður í kringum 2005 var allt annar markaður en hinn varfærni og stöðugi þýski markaður. Þegar eftirspurn eykst eða hætta á vanskilum vex, bregðast bankar við með því að hækka vexti.

Evran er vissulega sameiginlegur gjaldmiðill, en hún býr ekki til sameiginlegan húsnæðismarkað. Jafnvel með sömu stýrivexti frá ECB geta íbúðalánsvextir verið afar mismunandi. Allar líkur eru á því að fjölskylda sem kaupir heimili í München fái betri kjör en sú sem kaupir í Aþenu.

Sá mikli galli er á málflutningi þeirra sem vilja að Ísland taki upp evruna að ekki er rætt um ókostina og heildaráhrifin á hagstjórn. Þetta minnir á grísku goðsögnina um Mídas konung en hann óskaði sér þess að hann gæti breytt öllu í gull sem hann snerti. Guðinn Díonýsos uppfyllti ósk Mídasar og allt varð að gulli sem hann snerti. Hann faðmaði dóttur og hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heilla. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur. Mídas grátbað því Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Það sama á við um íslenska evrusinna, þeir átta sig ekki á því að það eru líka ókostir sem fylgja því að afnema sjálfstæða og sveigjanlega peningastefnu, eins og aukið atvinnuleysi.

Er ég að segja að húsnæðislánakerfið á Íslandi sé í lagi? Nei. Við þurfum að fara í kerfisbreytingar á því sem hafa það að markmiði að lækka langtímahúsnæðisvexti heimilanna og að þeir endurspegli betur sterkan efnahag og langtímahorfur Íslands. Þetta er hægt! Vilji er allt sem þarf!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. nóvember 2025.