Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.