Categories
Fréttir

„Hvert er planið?“ – kallar eftir tryggingu á grunnþjónustu fyrir alla landsmenn

Deila grein

17/11/2025

„Hvert er planið?“ – kallar eftir tryggingu á grunnþjónustu fyrir alla landsmenn

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, skoraði á ríkisstjórnina á Alþingi að skýra hvernig tryggja eigi jafna grunnþjónustu fyrir alla íbúa landsins, óháð búsetu. Í óundirbúinni fyrirspurn til forsætisráðherra gagnrýndi hann að stjórnvöld væru markvisst að færa þjónustu og yfirstjórn í átt að meiri miðstýringu með sameiningum og stærri stjórnsýslueiningum.

„Hvert er planið?“ spurði hann og vísaði jafnframt til draga að nýrri atvinnustefnu þar sem talað er um „þróun kjölfestuverkefna á landsbyggðinni“.

Spyr hvernig tryggja eigi grunnþjónustu um land allt

Sigurður Ingi benti á að þetta væri ekki séríslenskt viðfangsefni heldur viðfangsefni allra þjóða. „Öll samfélög glíma við það að veita öllum íbúum sinna landa grunnþjónustu með einhverju jafnræði… Hvernig á að tryggja grunnþjónustu til allra íbúa landsins?“ sagði hann.

Hann rifjaði upp að í mörgum ríkjum væri stuðst við þrjú stjórnsýslustig, ríki, fylki eða ömt til að tryggja jafna yfirstjórn og þjónustu. Á Íslandi hefðu menn hins vegar ákveðið að hafa tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög, en ofan á það hefði verið byggt „millistjórnsýslustig“ með landshlutasamtökum og margvíslegri svæðaskipan ríkisstofnana.

„Við á litla Íslandi, sem er reyndar landfræðilega stórt og talsvert stærra en mörg önnur lönd sem eru með fylki og ömt, höfum sannfært okkur um að tvö stjórnsýslustig séu ákjósanlegust en við höfum búið til svona millistjórnsýslustig, landshlutasamtök og við höfum búið til mismunandi svæði fyrir stærri ríkisstofnanir,“ sagði hann.

Að mati Sigurðar Inga ætti ríkið fremur að tryggja jafna grunnþjónustu með því að veita sambærilega þjónustu á föstum fjölda svæða, hvort sem þau væru fjögur, sex eða átta.

Bendir á miðstýringaráform stjórnvalda

Sigurður Ingi rakti í framhaldinu nokkur mál sem nú eru í vinnslu hjá ríkisstjórninni og að hans mati draga í átt að miðstýringu:

Sýslumannsembætti: Dómsmálaráðherra hefur lagt til að sameina níu sýslumannsembætti í eitt embætti.

Framhaldsskólar: Mennta- og barnamálaráðherra hefur kynnt áform um nýtt stjórnsýslustig fyrir framhaldsskólastigið, með fjórum til sex svæðisskrifstofum sem heyri undir ríkið.

Heilbrigðismál: Í dag eru sjö heilbrigðisumdæmi og hefur verið kynnt hugmynd um að fækka færni- og heilsumatsnefndum í eina landsnefnd.

Dómstólar: Undanfarin ár hefur verið til umfjöllunar að sameina átta héraðsdómstóla í einn dómstól með starfsstöðvum víða um land.

Að mati Sigurðar Inga blasir við heildarstefna um fækkun svæða og aukna miðstýringu í yfirstjórn ríkisins, jafnvel þótt málaflokkarnir séu formlega óskyldir.

Eru „kjölfestuverkefni“ mögulega mótvægi við niðurlagningu þjónustu?

Sigurður Ingi vísaði til draga að nýrri atvinnustefnu ríkisins, þar sem sérstaklega er talað um að þróa „kjölfestuverkefni á landsbyggðinni“ til að styrkja byggðir og skapa fleiri störf utan höfuðborgarsvæðisins.

Sigurður Ingi spurði hvort þessi áhersla á kjölfestuverkefni væri hugsuð sem mótvægi við það sem hann kallar niðurlagningu dreifðrar yfirstjórnar, eða jafnvel viðbragð við því að hefðbundnar stoðir ríkisþjónustu verði veiktar í héraði með sameiningum og miðstýringu.

Sigurður Ingi sagði brýnt að áður en lengra væri haldið yrði spurningunni um grunnþjónustuna svarað með skýrum hætti: Hvernig á að tryggja að allir íbúar landsins hafi raunhæfan og sambærilegan aðgang að grunnþjónustu, óháð því hvar þeir búa?