Categories
Fréttir

Vill hækka aldurstakmark á samfélagsmiðlum og herða reglur um markaðssetningu á börn

Deila grein

17/11/2025

Vill hækka aldurstakmark á samfélagsmiðlum og herða reglur um markaðssetningu á börn

Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um samfélagsmiðla, börn og ungmenni á Alþingi, sem jafnframt var jómfrúarræða þingmannsins. Skúli Bragi sagði íslensk stjórnvöld vera að bregðast skyldu sinni til að verja börn gegn skaðlegu efni á netinu og samfélagsmiðlum. Hann benti á að í lögum væri að finna ítarleg ákvæði um vernd barna í hefðbundnum fjölmiðlum, meðal annars gegn klámi og tilefnislausu ofbeldi, en á samfélagsmiðlum væri í raun „svo til frítt spil gefið“. Boðaði Skúli Bragi tvíþætta þingsályktunartillögu um hertar reglur.

Skúli Bragi vísaði til rannsókna sem sýna að meirihluti stúlkna á unglingastigi hafi séð efni um hættulegar aðferðir til að grenna sig með lystarstoli og búlemíu og að um þriðjungur barna á unglingastigi hafi rekist á umræður um sjálfsskaða. Þá nefndi hann vaxandi umfang hatursorðræðu, neteineltis og versnandi geðheilsu ungmenna.

„Ógn steðjar að lýðheilsu barna og ungmenna og það er okkar að bregðast við,“ sagði hann og minnti á að á sama tíma og fréttir berast af ungri íslenskri stúlku í klóm alþjóðlegs glæpahóps, sem hvatti til sjálfsskaða og ofbeldis, hafi ábendingarlína fyrir börn legið niðri vegna fjárskorts. Áður hafi þar borist árlega 200-300 ábendingar, þar af hátt hlutfall sem varðaði staðfest kynferðisofbeldi gegn börnum. Slíkt úrræðaleysi væri „óviðunandi“.

„Börn okkar eru ekki söluvara“

Skúli Bragi sagði að það væri ekki nóg að setja traust sitt á vitundarvakningu og fræðslu, þótt það hefði borið árangur meðal yngstu barnanna. Hlutfall 9-12 ára barna á TikTok og Snapchat hefði lækkað verulega frá árinu 2021, en sama þróun sæist ekki hjá 14-16 ára unglingum.

Hann benti á að lágmarksaldur á samfélagsmiðlum væri almennt 13 ár og byggði á persónuverndarlögum, á meðan kvikmyndir, sjónvarpsefni og tölvuleikir væru aldursmerktir í sjö flokka upp í 18 ára út frá mögulegri skaðsemi og áhrifum á hegðun og þroska. Í þessu fælist „óþolandi og hrópandi ósamræmi“.

Að hans mati skapa rangar aldursviðmiðanir samfélagsmiðla mikinn félagslegan þrýsting á foreldra sem vilji standa sig. „Þegar 13 ára aldri hefur verið náð er hætta á að vel meinandi og ábyrgir foreldrar missi tökin út af óbærilegum félagsþrýstingi,“ sagði hann og bætti við að stjórnvöld ættu að standa með foreldrum „frekar en fyrirtækjum sem líta á börnin okkar sem söluvöru“.

Tvíþætt tillaga: aldurstakmark og strangari auglýsingareglur

Skúli Bragi upplýsti að hann hygðist leggja fram þingsályktunartillögu sem væri tvíþætt. Annars vegar snúi hún að hækkun lágmarksaldurs barna á samfélagsmiðlum og hins vegar að hertum reglum um markaðssetningu og auglýsingar sem beint er að börnum á samfélagsmiðlum og öðrum stafrænum vettvangi.

Sérstök áhersla verði lögð á að takmarka markvissa markaðssetningu sem byggir á persónuupplýsingum barna. Að hans mati eigi sendingar og beiðnir um nektarmyndir og kynferðislega áreitni aldrei að teljast „eðlilegur hluti af barnæsku“.

Spyr um innleiðingu reglugerðar ESB

Í ræðu sinni vakti Skúli Bragi einnig athygli á því að Ísland standi utan reglugerðar Evrópusambandsins um stafræna þjónustu (Digital Services Act), sem setur stórum samfélagsmiðlafyrirtækjum strangari leikreglur. Hann sagði það gera fámennum eftirlitsaðilum hér á landi erfitt fyrir þar sem þeir stæðu vanmáttugir gagnvart alþjóðlegum tæknirisum sem „leggja sjálf leikreglurnar eftir eigin hentisemi“.

Skúli Bragi beindi nokkrum spurningum til mennta- og barnamálaráðherra:

  • Hver væri staðan á innleiðingu Digital Services Act á Íslandi?
  • Hvernig væri verið að tryggja börnum og ungmennum fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi til að þau geti notað netið, samfélagsmiðla og gervigreind á ábyrgan hátt?
  • Og hvort ekki væri kominn tími til að Alþingi setti skýrari leikreglur og „rétt og raunverulegt aldurstakmark á samfélagsmiðla“ með hagsmuni og vernd barna að leiðarljósi?