„Við búum svo vel á Íslandi að flest börn hafa það gott,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi á Alþjóðadegi barnsins. Hún sagði þó alvarleg mein leynast undir yfirborðinu og nefndi sérstaklega vímuefnanotkun ungmenna, slæma stöðu drengja í námi, kynbundið ofbeldi og áhrif símanotkunar og samfélagsmiðla á börn.
Halla Hrund vísaði í nýlegt dæmi af tveimur 14 ára drengjum sem fóru í meðferð til Suður-Afríku vegna alvarlegs vímuefnavanda. Mæður drengjanna hafi lýst úrræðaleysi hér á landi og þurft að leita lausna erlendis á miklum kostnaði. Sagði hún óásættanlegt að foreldrar í slíkri stöðu standi ein uppi með reikninginn.
„Við verðum að láta fjármagn fylgja barni óháð því hvar meðferð fer fram. Við myndum ekki mismuna í öðrum veikindum,“ sagði hún og spurði mennta- og barnamálaráðherra hvort hann væri sammála því að tryggja að fjármunir fylgi börnum í meðferð vegna fíknivanda, líkt og í öðrum alvarlegum veikindum.
Alvarleg staða drengja í námi
Halla Hrund lagði mikla áherslu á stöðu drengja í skólakerfinu. Hún benti á að samkvæmt PISA-rannsókninni 2022 geti um 47% drengja ekki lesið sér til gagns við lok 10. bekkjar og að þriðjungur nái ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum.
Hún spurði hvort bakgrunnur og félagslegar aðstæður nemenda hefðu verið greindar nægilega í tengslum við þessa þróun, meðal annars í ljósi aukins fjölda innflytjenda í skólakerfinu.
„Hér verðum við að kafa á dýptina svo við getum tekið góðar ákvarðanir og skilið hver er rót vandans.“
Halla Hrund spurði jafnframt hvort gripið hefði verið til sértækra aðgerða í kennaranámi og kennslu, í ljósi stöðunnar. Hún minnti á að brottfall drengja úr framhaldsskólum væri mest á Íslandi í Evrópu og að einungis um þriðjungur nýnema í háskóla væru drengir.
„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar.“
Kynbundið ofbeldi gegn börnum
Þriðji málaflokkurinn sem Halla Hrund nefndi var ofbeldi, einkum kynbundið ofbeldi gegn börnum og ungmennum. Hún vísaði í gögn Barnaheilla og niðurstöður íslenskrar æskulýðsrannsóknar frá 2024 sem sýna alvarlega stöðu.
Samkvæmt þeim gögnum segja um 700 börn í 8.-10. bekk að annar unglingur hafi átt við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra og um 250 börn að fullorðinn hafi haft við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra. Samt sem áður komi aðeins hluti málanna til kasta lögreglu, þó hátt í tvö mál á viku séu tilkynnt.
Halla Hrund sagði þessar tölur sláandi og óskaði eftir því að ráðherra skýrði hvaða aðgerðir væru í gangi til að bregðast við kynbundnu ofbeldi gegn börnum.
Símanotkun, samfélagsmiðlar og markaðssetning að börnum
Halla Hrund sagði óhjákvæmilegt að ræða áhrif snjallsíma og samfélagsmiðla á degi barnsins, enda hafi áhrif þeirra á líðan og nám barna verið mikið til umræðu undanfarið. Of mikil notkun tengist m.a. kvíða, félagslegri einangrun og slakari námsárangri.
Hún sagði að lögð hefði verið fram þingsályktunartillögu um hækkun lágmarksaldurs fyrir samfélagsmiðla og skýrari skorður á markaðssetningu og auglýsingar sem beinast að börnum. Þá þyrfti að huga sérstaklega að ramma utan skólakerfisins, hvernig samfélagið í heild sinni passi upp á börn og ungmenni í stafrænu umhverfi.
Kallar eftir aðgerðum fyrir fötluð börn og börn með einhverfu
Halla Hrund minnti á að staða fatlaðra barna og barna með einhverfu þyrfti einnig að vera í forgangi. Hún sagði ekki nóg að ræða þessi mál ítrekað, koma yrði raunverulegum aðgerðum í framkvæmd og sameinast um þá forgangsröðun á Alþingi.
Hún lagði jafnframt áherslu á mikilvægi fyrstu áranna í lífi barna. Rannsóknir bendi til þess að meðganga og fyrstu 1.000 dagarnir hafi mikið að segja um það hvernig börnum vegni síðar á lífsleiðinni.
„Hverri krónu sem við fjárfestum í þessum málaflokki er vel varið,“ sagði Halla Hrund að lokum.
