Categories
Fréttir Greinar

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Deila grein

24/11/2025

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Íslenska þjóðin stendur á hátíðardegi sínum, 1. desember, og minnist þess að árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Þótt rúm heil öld sé liðin frá þeim tímamótum er nauðsynlegt að rifja upp þessi sögulegu tímamót og við gerum okkur grein fyrir því sem þjóð að fullveldi verður aldrei tekið sem gefnu. Þjóð sem gleymir uppruna sínum og því hvernig hún vann rétt sinn getur misst sjónar á því sem mestu skiptir.

Aðdragandi fullveldisins var afrakstur áratuga ósveigjanlegrar baráttu fyrir því að stjórn landsins væri á íslenskum forsendum. Stjórnarskráin 1874 markaði fyrstu stóru breytinguna, þótt hún væri sett af danska þinginu án samþykkis Íslendinga. Þjóðin fékk fjárstjórnarvald og mótaði þannig eigin stöðu innan ríkjasambandsins. Þjóðfundurinn 1851 hafði áður sýnt að Íslendingar ætluðu ekki að láta af hendi rétt sinn til sjálfstæðrar tilveru. Þar var grunnurinn lagður að þeirri samstöðu sem síðar varð lykillinn að sjálfstæðismálunum.

Árin fyrir aldamótin 1900 jukust kröfurnar um skýrari aðgreiningu Íslands og Danmerkur. Heimastjórnin 1904 var loks staðfesting á því að Íslendingar gætu og vildu stjórna eigin málum. Íslenskur ráðherra í Reykjavík var ekki bara táknrænn sigur heldur raunverulegt valdaskref sem færði þjóðina nær markinu.

Stjórnarskrárbreytingarnar 1915 styrktu grundvöll lýðræðis enn frekar, þingræðið varð skýrara. Alþingi var orðið miðja íslenskrar valdsmyndunar – þar var þjóðin stödd þegar sambandslögin voru samþykkt árið 1918.

Sambandslögin voru í senn niðurstaða og upphaf. Þar var Ísland viðurkennt sem fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Íslendingar fengu fulla stjórn í eigin málum, sjálfstæða stöðu í þjóðarétti og rétt til að ráða framtíð sinni. Í kjölfarið tók ný stjórnarskrá gildi árið 1920, og hún varð burðarás íslenskrar stjórnskipunar fram til lýðveldisstofnunar 1944.

Ákvæði sambandslaganna um mögulega endurskoðun eftir 1940 var lykilatriði. Þegar heimsstyrjöld skók Evrópu ákvað Alþingi árið 1941 að leið þjóðarinnar skyldi ekki liggja aftur í sameiginlegar samningaviðræður við Dani. Íslendingar ætluðu sér að verða sjálfstætt fullvalda lýðveldi – og svo varð árið 1944 á Lögbergi við Öxará.

Þetta er sagan sem 1. desember á að minna okkur á. Saga um þjóð sem stóð saman, treysti á eigið afl og vann frelsi sitt með einhug og þrautseigju. Það er því óskynsamlegt að láta þann dag líða hjá án þess að gera honum hærra undir höfði. Fullveldið er hornsteinn íslenskrar tilveru – og slíka hornsteina á ekki að veikja með afsali á fullveldis til valdstofnunar í Evrópu.

Í samtímanum, þar sem ákveðin stjórnmálaöfl færast sífellt nær fjölþjóðlegum stofnunum og landamæri valds verða óljós, skiptir íslenskt fullveldi meira máli en oft áður. Við ráðum okkar auðlindum, okkar löggjöf, okkar menningu og okkar landi sjálf. Það er réttur sem forfeður okkar börðust fyrir – og ábyrgð sem við verðum að axla.

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt. Það er verkefni sem kallar á samstöðu, sjálfsvirðingu og þjóðlega stefnu sem hvílir á íslenskum forsendum.

Kæru Íslendingar – til hamingju með fullveldisdaginn.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember 2025.