Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi harðri gagnrýni að ríkisstjórninni, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, vegna stöðu mála í húsnæðismálum. Hann rifjaði upp að fyrir um mánuði síðan hefði verið kynntur svokallaður fyrsti húsnæðispakki þar sem hæstv. forsætisráðherra hefði lýst því yfir að ríkisstjórnin „bæði þyrði og framkvæmdi“ og að nú væri loksins verið að grípa til aðgerða sem „hefði verið talað um svo árum skiptir“. Þá hefði forsætisráðherra jafnframt sagt að ef þyrfti að gera meira hraðar, þá yrði einfaldlega gert meira hraðar.
Sigurður Ingi sagði lítið hafa sést til þessara fyrirheita í framkvæmd. Í fyrirspurn til félags- og húsnæðismálaráðherra vakti hann sérstaklega athygli á hlutdeildarlánunum sem kynnt var að breyta ætti. Þar á meðal að hækka framlög úr 4 milljörðum í 5,5 milljarða, úthluta slíku fé mánaðarlega, gera samninga við byggingaraðila um hagkvæmar íbúðir og rýmka lántökuskilyrði þannig að fleiri ættu kost á að nýta úrræðið.
Sigurður Ingi sagði hins vegar engar slíkar breytingar hafa birst á Alþingi og ekkert borið á þeim aðgerðum sem boðaðar hefðu verið með tilheyrandi „flugeldasýningu“ um meira og hraðar aðgerðir. „Við höfum ekki séð neinar breytingar á því, engar aðgerðir, engar framkvæmdir, ekki meira og ekki hraðar,“ sagði hann og spurði hreint út hvort ekkert væri að frétta af húsnæðispakkanum.
Sigurður Ingi velti því jafnframt upp hvort ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar stæði í vegi fyrir því að ljúka málinu með þeim hætti sem kynntur var, eða hvort vandræði við að ná fram hallalausum fjárlögum árið 2027 kæmu nú niður á húsnæðismarkaðnum. Ítrekaði hann að það væri brýnt að koma byggingu hagkvæmra íbúða af stað, lækka húsnæðiskostnað og standa við gefin loforð um að gera meira – og gera það hraðar.
„Mig langar líka að spyrja, það voru fleiri tillögur um tiltekt í stjórnsýslu: Hvernig styrkir það HMS að taka tugmilljarða af eignum Húsnæðissjóðs og selja? Ég skil það, það er verið að lækka skuldir ríkissjóðs, það getur verið skynsamlegt, en hvernig styrkir það HMS til að mynda að standa við Tryggða byggð sem hefur verið gríðarlega jákvætt verkefni hringinn í kringum landið og komið mörgum húsnæðisuppbyggingarverkefnum af stað?
Svo langar mig að lokum að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hraðaspurningar: Stórfelld einföldun á regluverki byggingarreglugerðar — hvaða ákvæði nákvæmlega í nýrri byggingarreglugerð munu lækka byggingarkostnað?“
