Categories
Fréttir Greinar

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Deila grein

25/11/2025

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Íslenska menntakerfið stendur á ákveðnum krossgötum. Margt hefur áunnist að undanförnu en ráðist hefur verið í fjölmargar mikilvægar aðgerðir: Heildstæð menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi, átakinu „Fjölgum kennurum“ var hrint í framkvæmd með góðum árangri, Menntafléttan og sérstakur sjóður fyrir menntarannsóknir voru sett á laggirnar og unnið var að skýrari matsviðmiðum í íslensku og stærðfræði, brotthvarf á framhaldsskólastiginu minnkaði, hálftómar verknámsstofur urðu yfirfullar í kjölfar róttækra breytinga, matsferill þróaður til að meta betur árangur barna í menntakerfinu ásamt ýmsum öðrum aðgerðum. Samt blasir við að betur má ef duga skal. Alþjóðlega PISA-menntarannsóknin sýnir svart á hvítu að ungmennin okkar eru að halda áfram að dragast aftur úr jafnöldrum sínum og árangurinn því nú orðinn lakari en meðaltal OECD-ríkja.

En hvers vegna er staðan þessi? Eitt af því sem við vitum er að fagorðaforði barnanna er lakari en í samanburðarríkjum – en hvers vegna? Við vitum að í löndum eins og Svíþjóð og Eistlandi fá nemendur á miðstigi fleiri kennslustundir í móðurmáli og náttúruvísindum. Hins vegar þurfum við frekari menntarannsóknir til þess að skýra þessa þróun betur og vera í stakk búin til þess að bæta stefnuna. Næsta rökrétta skref er því ítarleg, óháð samanburðarrannsókn á íslenska menntakerfinu og þeim kerfum í Evrópu sem ná góðum árangri. Slík rannsókn þarf að fara ofan í saumana á helstu lykilþáttum menntakerfa eins og fjölda kennslutíma í grunnfögum, námsefni, námsgagnagerð, námsmati, umfangi snemmtækrar íhlutunar, kennaramenntun, starfsumhverfi kennara og skólastjórnenda, forgangsröðun fjármuna og hlutverki ríkis og sveitarfélaga.

Til að þessi vegferð verði trúverðug þurfum við þjóðarsátt um mikilvægi menntunar. Menntun þarf í auknum mæli að verða forgangsmál þvert á flokka í samstarfi við kennara, skólastjórnendur, atvinnulíf og verkalýðshreyfinguna. Menntastefnan til 2030 getur veitt skýra sýn um vegferðina, en samanburðarrannsóknin og mælanleg markmið verða að vera til að tryggja að breytingarnar sjáist inni í kennslustofunni, ekki aðeins í skýrslum. Framtíðarsókn í menntamálum snýst um að öll börn á Íslandi fái raunveruleg tækifæri til að láta ljós sitt skína í skólanum. Öflugt menntakerfi er ekki aukaatriði heldur forsenda velferðar og verðmætasköpunar. Framtíð Íslands ræðst af því hvort okkur takist að fylgja þessari sýn eftir. Um leið verðum við að tryggja að hvert barn finni nám við hæfi. Við höfum alla burði til að sækja fram í menntamálum; kennararnir eru öflugir en til að styrkja menntakerfið okkur þurfum við betri samanburð og vera tilbúin að ráðast í róttækari breytingar í þágu samfélags.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2025.