Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði mikla áherslu á að Fjarðarheiðargöng yrðu næsta jarðgangaframkvæmd ríkisins í ræðu í störfum þingsins. Sagði hann „óábyrgt hjal“ að tala um aðrar gangaleiðir á meðan Fjarðarheiðargöng væru einu göngin sem raunverulega væru tilbúin til útboðs.
Þórarinn Ingi vitnaði til opins bréfs er Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, skrifaði á Vísi í gær og beint er til forsætisráðherra. Í bréfinu veltir hún fyrir sér ummælum innviðaráðherra um jarðgangaframkvæmdir næstu ára og því að verið sé að ræða aðrar gangaleiðir en Fjarðarheiðargöng.
Tók hann undir áhyggjur Jónínu og taldi umræðuna um önnur göng einfaldlega ekki standast ábyrgðarkröfur.
„Vissulega eru Fjarðarheiðargöng dýr framkvæmd,“ sagði Þórarinn Ingi, „en það að vera að velta upp öðrum gangamöguleikum sem ekki hafa verið rannsakaðir eða eru tilbúnir til útboðs er að mínu viti frekar óábyrgt hjal.“
Hann minnti á að Fjarðarheiðargöng væru eina jarðgangaverkefnið sem væri fullbúið undir útboð og því eðlilegt að það yrði sett í forgang.
„Fjarðarheiðargöng eru þau einu sem eru tilbúin til útboðs. Ég stend hér með Seyðfirðingum hvað það varðar og Fjarðarheiðargöng eru þau göng sem við eigum að horfa til næst,“ sagði Þórarinn Ingi og skoraði á aðra þingmenn að gera slíkt hið sama.
Þingmaðurinn hvatti jafnframt almenning til að kynna sér opna bréfið sem Jónína skrifaði forsætisráðherra og birt var á Vísi, þar sem hún fari ítarlega yfir stöðuna og mikilvægi þess að standa við gefin loforð gagnvart íbúum svæðisins.
Að lokum beindi Þórarinn Ingi skýrum skilaboðum til þingheims:
„Byrjum nú á því, þingheimur, og stöndum saman að því að fara að hefja hér almennilega jarðgangavinnu og þá förum við í það að byrja á þeim göngum sem eru tilbúin til útboðs.“
