Categories
Fréttir Greinar

Austurland: Sterk stoð íslensks hagkerfis

Deila grein

01/12/2025

Austurland: Sterk stoð íslensks hagkerfis

Árið 2022 fékk Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) ráðgjafafyrirtækið Analytica til að gera skýrslu og greiningu á efnahagsumsvifum Austurlands. Síðan þá hefur skýrslan verið þungavigtarplagg á fundum okkar við ráðamenn þjóðarinnar, enda sýnir hún án nokkurs vafa að Austurland skapar gríðarleg verðmæti og skilar inn umtalsverðum tekjum í ríkiskassann.

Sú uppfærða skýrsla sem lögð var fram á dögunum tekur til áranna 2022–2024 og þrátt fyrir loðnubrest skilar Austurland tæpum fjórðungi allra vöruútflutningstekna Íslands, þó að hér búi aðeins 2,9% landsmanna.

Árið 2024 nam virði útflutningsvara frá Austurlandi um 219 milljörðum króna, sem jafngildir 23% af heildarvöruútflutningi Íslands. Ef vöruútflutningi er deilt á íbúafjölda má sjá að hver Austfirðingur framleiddi að meðaltali 19,6 milljónir króna til vöruútflutnings, en íbúar annarra landshluta framleiddu tífalt minna, eða um 1,97 milljónir króna.

Hlutdeild Fjarðaáls af útfluttu áli árið 2024 var 42,6%, eða 133 milljarðar króna. Auk þess sýna niðurstöður Analytica að að minnsta kosti fjórðung tekna Landsvirkjunar síðustu þrjú ár megi rekja til raforkusölu til Alcoa á Austurlandi.

Á Austurlandi starfa einnig gríðarlega öflug útgerðarfyrirtæki ásamt laxeldisfyrirtæki, en útfluttar sjávarafurðir héðan árið 2024 voru að verðmæti 85,8 milljarða, sem er 21,4% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða.

Þrátt fyrir þessa miklu verðmætasköpun fáum við ekki það pláss sem við eigum skilið. Hér er mikil innviðaskuld, sérstaklega þegar horft er til samgangna. Víða erum við skilgreind sem svæði utan vaxtarsvæða eða jaðarsvæði; því hafna ég og krefst þess að við fáum að vera með og taka þátt — við erum löngu búin að vinna okkur inn fyrir því.

Austurland getur verið í lykilhlutverki þegar horft er til verðmætasköpunar, nýsköpunar og framtíðar. Hér er mikil atvinna, húsnæðisuppbygging og drifkraftur í fyrirtækjum og íbúum, en til þess að Austurland geti haldið áfram að vaxa þarf að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum. Það mun borga sig að fjárfesta í Austurlandi.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 1. desember 2025.