Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur á Alþingi, flutt í störfum þingsins 15. október sl.:
„Herra forseti. Ég fagna því að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 sé gert ráð fyrir því að fjármagn vegna úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis verði gert varanlegt, en fram til þessa hefur fjárframlagið verið tímabundið og þannig heft skipulagt starf Barnahúss til lengri tíma. Ég tel að með ráðningu tveggja sérfræðinga í Barnahús, sem tillaga samráðshóps um samhæfða framkvæmd stjórnvalda til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi hljóðar upp á, fái þolendur kynferðisofbeldis þá aðstoð sem nauðsynleg er til að þeir geti unnið úr málum sínum.
Eins og við vitum öll er atburðurinn ekki tekinn til baka heldur þurfa þeir sem fyrir ofbeldinu verða að læra að lifa með því um ókomna tíð. Það er staðreynd að þeir sem lenda í áföllum af mannavöldum eru í mikilli hættu á að þjást af áfallaröskun. Fyrir þá sem ekki vita er áfallaröskun einkenni um andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar áfalls og skaða sem lýsir sér í endurupplifun atburða, vantrausti á öðrum, hræðslu við umhverfi, skömm, sektarkennd, sjálfsásökunum og lágu sjálfsmati. Slík röskun getur því, ef ekki er gripið til aðgerða strax, haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar seinna á lífsleiðinni með tilheyrandi auknum heilbrigðiskostnaði.
Í skýrslu Barnaverndarstofu þar sem bornir eru saman fyrstu sex mánuðir ársins 2013 og 2014 kemur fram að þrátt fyrir fækkun rannsóknarviðtala á árinu 2014 um 40% hefur greiningar- og meðferðarviðtölum fjölgað um 15%. Erfitt er þó að leggja mat á þessar tölur þar sem fjölgun rannsóknarviðtala á árinu 2013 var slík að ekki var hægt að veita viðeigandi úrræði til allra sem eftir þjónustunni leituðu.“
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
Categories
Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur
16/10/2014
Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur