Categories
Fréttir

Framlag til jafnréttis kynjanna heima og heiman

Deila grein

28/10/2014

Framlag til jafnréttis kynjanna heima og heiman

photo 1 (1)Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti ávarp á kvennafrídeginum og degi Sameinuðu þjóðanna, við árlegt málþing Jafnréttissjóðs. Afhenti af því tilefni fjóra styrki til rannsóknarverkefna á sviði jafnréttismála samtals að upphæð kr. 8.600.000.
Sigmundur Davíð sagði í ávarpi sínu að við stofnun Jafnréttissjóðs, á þrjátíu ára afmæli kvennafrídagsins 2005, hafi sjóðurinn verið kynntur sem gjöf til jafnréttis- og kvennahreyfingarinnar í landinu og þakklætisvottur fyrir það afl, frumkvæði og nýsköpun sem í henni hefur falist til framfara, mannréttinda og almennrar velsældar í samfélagi okkar.
„Í fimm ár í röð hefur Ísland skipað efsta sætið á lista Alþjóða efnahagsráðsins yfir stöðu jafnréttis kynjanna í heiminum, en það mat byggir á sextán mælikvörðum á sviði vinnumarkaðar, menntunar, heilbrigðismála og stjórnmálaþátttöku.
Um margra ára skeið hafa erlendir blaðamenn, fræðimenn og áhugafólk líka, leitað hingað og spurt: Hvernig getur það verið að hér á landi er atvinnuþátttaka kvenna mest miðað við OECD löndin, vinnutíminn einna lengstur, fæðingartíðnin hæst og konur hafa náð svo langt sem raun ber vitni í forystusætum?“
photo 2 (1)Forsætisráðherra vék m.a. einnig að fyrirhugaðri karlaráðstefnu sem Ísland og Surinam hyggjast standa fyrir í New York á næsta ári og kvað hann tíðindin sem felast í þeirri ráðstefnu fyrst og fremst vera þau að þar verða karlar kallaðir til umræðu um kynbundið ofbeldi.
Styrkina til rannsóknarverkefna á sviði jafnréttismála samtals að upphæð kr. 8.600.000 hlutu:

  • Björg Hjartardóttir, doktorsnemi við University of British Columbia í Kanada til rannsóknar á Vestur-íslenska kvenréttindablaðinu Freyja, 
  • Guðný Björk Eydal prófessor og Ingólfur V. Gíslason dósent við Háskóla Íslands til rannsóknarinnar Jafn réttur til fæðingarorlofs: Hvernig haga pólskir og íslenskir foreldrar atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna?
  • Guðný Gústafsdóttir doktorsnemi við Háskóla Íslands til rannsóknar á mótsögnum kvenleikans, kyngervi og þegnrétti á Íslandi,
  • Marta Einarsdóttir sérfræðingur við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri til rannsóknar á íslensku ofurfjölskyldunni – samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. 

Í mörgum tilvikum vinna nemar og aðrir samstarfsmenn að rannsóknum með styrkþegum.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.