„Hæstv. forseti. Fyrsta vikan hér í upphafi þings hefur að mestu farið í umræður um fjárlög, eðli máls samkvæmt, en í gær komust svo að mörg athygliverð þingmannamál. Mér finnst starfið fara vel af stað og er nokkuð bjartsýnn á þann tón sem gefinn er hér í upphafi þings. Tilefni er til bjartsýni á að þingstörfin geti gengið vel fyrir sig ef við fylgjum þessari byrjun eftir, enda eru mörg aðkallandi verkefni. Ég nefni húsnæðismálin, kjör eldri borgara og öryrkja og svo stuðning og móttöku flóttamanna. Ég gæti nefnt fleiri aðkallandi verkefni, en þegar ég tala um jákvæðan tón sem sleginn er hér í upphafi þings finnst mér hann markast af jákvæðum fjárlögum, þeim afgangi sem boðaður er og batahorfum í íslensku efnahagslífi, því jafnvægi sem komið er á í rekstri hins opinbera og þeirri staðreynd að hæstv. ríkisstjórn hefur nú lagt fram fjárlagafrumvarp með afgangi í þriðja sinn. Rekstur hins opinbera er að ná jafnvægi eftir viðvarandi hallarekstur og skuldasöfnun árin þar á undan.
Virðulegi forseti. Samhliða hefur náðst að stórbæta kjör á vinnumarkaði og verðlag hefur á þeim tíma haldist stöðugt og því hefur kaupmáttur aukist til muna. Þá hefur hæstv. ríkisstjórn klárað mörg af þeim stóru málum sem lagt var upp með og staðfest í stjórnarsáttmála. Þar vil ég nefna skuldaleiðréttingu fyrir heimilin og trúverðuga áætlun um losun hafta. Stór, viðamikil og flókin úrlausnarefni sem tekist hefur að koma í góðan farveg.
Virðulegi forseti. Vissulega er bjart yfir en stjórn ríkisfjármála getur verið vandasöm í uppsveiflu og stóra verkefnið fram undan er að greiða niður skuldir og nýta þá fjármuni sem ellegar fara í að greiða vexti og skapa þannig færi til að nýta þá í frekari uppbyggingu.“
Willum Þór Þórsson – í störfum þingsins 15. september 2015.
Categories
Willum: „Nokkuð bjartsýnn á þann tón sem gefinn er hér í upphafi þings“
16/09/2015
Willum: „Nokkuð bjartsýnn á þann tón sem gefinn er hér í upphafi þings“