Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 fagnar því hve vel gengur að efla hag fólksins í landinu eftir erfið ár í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þingið fagnar einu lengsta skeiði verðstöðugleika sem þekkst hefur á síðari tímum, þökk sé styrkri efnahagsstjórn ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þingið bendir á að öll skilyrði fyrir áframhaldandi verðstöðugleika eru fyrir hendi. Til að styrkur krónunnar haldi aftur af verðbólguþróun ber þó nauðsyn til að verslunarfyrirtæki skili styrkingu krónunnar út í verðlag líkt og nokkur fyrirtæki s.s IKEA og Bónus hafa gert. Kjördæmisþingið fagnar frumkvæði þingmanna flokksins í neytendamálum.
Eitt alvarlegasta efnahagsvandamál sem Íslendingar eiga við að glíma nú um stundir er það taumlausa vaxtaokur sem bankarnir stunda í skjóli stýrivaxta Seðlabanka Íslands sem eru úr öllu samhengi við þróun efnahagsmála á Íslandi. Kjördæmisþingið hvetur ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að nýta tækifæri það sem nú er til að endurskipuleggja bankakerfið með hagsmuni almennings að leiðarljósi.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 fagnar þeim áföngum sem náðst hafa með efndum loforða flokksins frá í síðustu kosningum og varða leiðréttingu á neytendalánum heimilanna í landinu og því risaskrefi sem stigið hefur verið í afléttingu fjármagnshafta. Kjördæmisþingið hvetur til þess að strax verði tekið á afnámi verðtryggingar neytendalána í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins og loforð í því efni. Kjördæmisþingið lýsir eindregnum stuðningi við forystu flokksins og þingflokk í þessu mikilvæga máli.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 lýsir yfir fullum stuðningi við nýtt húsnæðiskerfi sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur kynnt. Það byggir m. a. á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí síðastliðnum þar sem ríkisstjórnin skuldbindur sig til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði í samvinnu við sveitafélög og aðila vinnumarkaðarins. Í þessu felst bæði bygging hagkvæmra leiguíbúða og hækkun húsnæðisbóta.
Þá ber að fagna því sameiginlega átaki sem nú er hafið um lausnir til að lækka byggingarkostnað og auka framboð af ódýru húsnæði m.a. með endurskoðun byggingareglugerðar og skipulagslaga.
Með bættum efnahag og aukinni eftirspurn eftir húsnæði er jafnframt mikilvægt að sveitarfélögin, sem fara með skipulagsvald, sjái til þess að nægt framboð verið af lóðum á hagstæðu verði svo aukin eftirspurn leiði ekki til óhóflegrar hækkunar á húsnæðisverði líkt og varð á árunum 2006 og 2007. Öruggt húsnæði er ein af grundvallarþörfum fólksins í landinu. Þingið skorar á alla stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi að sameinast um að ná fram nýju húsnæðiskerfi á yfirstandandi þingi.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 fagnar stöðugleikasamkomulagi við föllnu bankanna sem náðist fram undir forystu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hér er um eina stærstu efnahagsaðgerð Íslandssögunnar að ræða.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög standi þétt að baki þeim flóttamönnum sem hér fá hæli. Mikilvægt er að þeir fái þann stuðning sem nauðsynlegur er svo þeir finni sig heima í íslensku samfélagi.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) á Seltjarnarnesi 12. nóvember 2015 fagnar þingsályktunartillögu Willums Þórs Þórssonar, alþingismanns, þar sem lagt er til bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum. Óréttlætanlegt er að nota heilsuspillandi efni á svæðum sem m.a. eru ætluð til íþróttaiðkunar barna og unglinga.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 fagnar einnig því landssamráði sem hafið er af frumkvæði þriggja ráðherra um að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.Orðið hefur tímabær vitundarvakning í því að fólk komi skömminni þangað sem hún á heima hvað varðar einelti, kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 telur að fjölga þurfi lögreglumönnum eins og fram kemur í nýlegri skýrslu og tekur undir að leiðarljósið í því átaki verður niðurstaða nefndar um löggæslumál sem skilað hefur tillögum um forgangsröðun verkefna á næstu árum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 telur mikilvægt að stefnumótun í málefnum ferðaþjónustunnar verði efld í ljósi stóraukinnar komu ferðamanna til landsins. Þingið leggur áherslu á að Alþingi komi sér saman um leiðir til gjaldtöku af ferðamönnum í því skyni að standa straum af uppbyggingu innviða og grunnstoða í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er orðin ein mikilvægasta tekjulind landsins,en stefnumótun innan hennar er í engu samræmi við þann veruleika.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 fagnar þeirri nýlegu og sögulegu sátt sem náðst hefur um breytta löggjöf í náttúruvernd á Alþingi. Þingið telur rétt að næstu stóru skrefin í náttúruverndarmálum verði friðun heildstæðra svæða á miðhálendinu sem fari fram að loknu vönduðu undirbúningsferli.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 væntir mikils af störfum nefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins, sem starfar í umboði Félags- og húsnæðismálaráðherra. Greina þarf vanda þeirra hópa aldraðra og öryrkja sem verst standa og leita lausna sem tryggi bætta afkomu þeirra.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið á Seltjarnarnesi þann 12. nóvember 2015 fagnar sérstaklega nýframkominni þingsályktunartillögu um stefnumótun í geðheilbrigðismálum til næstu fjögurra ára.
Categories
Stjórnmálaályktunum kjördæmisþings framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi
24/11/2015
Stjórnmálaályktunum kjördæmisþings framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi