Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Steingrímur Hermannsson var brúarsmiður íslenskra stjórnmála

Deila grein

30/06/2025

Steingrímur Hermannsson var brúarsmiður íslenskra stjórnmála

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblaðið í dag:

,,Íslenska sum­arið birt­ist okk­ur í öllu sínu veldi þessa dag­ana. Lang­ar og bjart­ar sum­ar­næt­ur, iðandi fugla­líf og ís­lensk nátt­úra í full­um skrúða. Á fimmtu­dag­inn 3. júlí á Þing­völl­um mun­um við minn­ast eins af okk­ar ást­sæl­ustu stjórn­mála­mönn­um, Stein­gríms Her­manns­son­ar, fv. for­sæt­is­ráðherra og for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins. Það er vel við hæfi að minn­ast nátt­úru­unn­and­ans Stein­gríms Her­manns­son­ar á Þing­völl­um um há­sum­ar.

Stein­grím­ur Her­manns­son er einn af ris­um ís­lenskr­ar stjórn­mála­sögu á 20. öld­inni. Hann lagði áherslu á frjáls­lynda um­bóta­stefnu og staðsetti flokk­inn á miðju stjórn­mál­anna. Hann sótti fersk sjón­ar­mið og nýj­ar hug­mynd­ir að utan, þar sem hann lærði í Banda­ríkj­un­um sem ung­ur maður. Á sama tíma var hann mik­ill sjálf­stæðis- og full­valdasinni.

Bein af­skipti Stein­gríms af stjórn­mál­um hóf­ust er hann varð formaður Fé­lags ungra fram­sókn­ar­manna í Reykja­vík 1962. Hann var kjör­inn alþing­ismaður fyr­ir Vest­fjarðakjör­dæmi í kosn­ing­un­um 1971 og var þingmaður Vest­f­irðinga í 16 ár, allt þar til hann fór í fram­boð í heima­kjör­dæmi sínu á Reykja­nesi. Sama árið og Stein­grím­ur varð alþing­ismaður, árið 1971, var hann kos­inn rit­ari Fram­sókn­ar­flokks­ins, og skömmu eft­ir að hann varð ráðherra var hann kos­inn formaður flokks­ins, vorið 1979, og gegndi því embætti til 1994.

Stein­grím­ur Her­manns­son var for­sæt­is­ráðherra á mikl­um um­brota­tím­um. Með yf­ir­veg­un og lausnamiðaðri hugs­un leiddi hann flokk sinn í gegn­um átök og breyt­ing­ar. Með góðri mennt­un, alþjóðlegri reynslu og per­sónu­legri nálg­un bjó hann til traust, bæði inn­an flokks og utan. Í tíð hans sat flokk­ur­inn í rík­is­stjórn nær sam­fleytt í ell­efu ár.

Eitt mesta póli­tíska af­rek rík­is­stjórn­ar hans var svo­kölluð þjóðarsátt árið 1990. Þar náði hann að byggja brýr milli launa­fólks, at­vinnu­lífs og stjórn­valda og stemma stigu við langvar­andi verðbólgu. Þjóðars­átt­in skilaði raun­veru­leg­um stöðug­leika og markaði tíma­mót í efna­hags­stjórn lands­ins. Stein­grím­ur lagði einnig grunn að nýj­um áhersl­um í stjórn­sýslu með stofn­un um­hverf­is­ráðuneyt­is­ins og embætt­is Umboðsmanns Alþing­is. Þar var hann langt á und­an sinni samtíð. Þá sýndi hann skýra póli­tíska sýn í ut­an­rík­is­mál­um. Hann kom Íslandi á kortið á alþjóðavett­vangi með gest­gjafa­hlut­verki í Höfðafund­in­um 1986 og með því að viður­kenna sjálf­stæði Eystra­salts­ríkj­anna fyrst allra ríkja árið 1991.

Ég hvet alla áhuga­sama um ís­lenska stjórn­mála­sögu til að mæta á Þing­velli við Hakið á fimmtu­dag­inn, klukk­an 20:00. Guðni Ágústs­son, fv. ráðherra, stýr­ir hátíðinni og munu gest­ir hans flytja er­indi til heiðurs Stein­grími Her­manns­syni. Karla­kór­inn Fóst­bræður mun syngja af sinni al­kunnu snilli. Hlakka til að sjá ykk­ur sem flest.”

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Hver borgar brúsann?

Deila grein

28/06/2025

Hver borgar brúsann?

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður, skrifar á Vísi:

,,Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Efni frumvarpsins varðar svokallaða víxlverkun. Verði frumvarpið að lögum verður lífeyrissjóðum óheimilt að taka tillit til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins við útreikning örorkulífeyris. Í reynd þýðir það að tvö aðskilin kerfi, þ.e. almannatryggingar annars vegar og lífeyrissjóðir hins vegar, greiða út bætur án samræmis eða gagnkvæmrar aðlögunar.

Markmiðið virðist í fyrstu bæði réttlátt og mannúðlegt: að bæta stöðu örorkulífeyrisþega. En undir yfirborðinu krauma alvarlegar afleiðingar sem varða réttindi annarra lífeyrisþega, sjálfbærni kerfisins og jafnvel stjórnarskrárvarin eignarréttindi.

Frá eldri borgurum til örorkulífeyrisþega

Eins og Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur bent á felur frumvarpið í sér beina tilfærslu fjármuna frá ellilífeyrisþegum yfir til örorkulífeyrisþega. Í umsögn hans til Alþingis segir meðal annars: „Augljóst er að þyngri örorkubyrði hlýtur að skerða annan lífeyri. Þannig felur frumvarpið í sér tilfærslu frá ellilífeyrisþegum til örorkulífeyrisþega og í raun eignaupptöku. Þetta er þeim mun alvarlegra vegna þess að verið að færa stórum hluta örorkulífeyrisþega meiri greiðslur en þeir fengu áður en þeir urðu fyrir orkutapi.“

Þetta brýtur jafnframt gegn meginreglu skaðabótaréttar: að enginn skuli verða fjárhagslega betur settur eftir tjón en fyrir það. Frumvarpið býður hins vegar upp á að stór hluti örorkulífeyrisþega fái hærri greiðslur en fyrri laun þeirra voru.

Ekki má svo gleyma því að Tryggingastofnun mun áfram taka tillit til tekna úr lífeyrissjóðum til skerðingar á bótum.

Ólík áhrif milli sjóða

Áhrifin verða einkum á sjóðum sem þegar bera þunga örorkubyrði, svo sem Festa, Gildi, Stapi, Lífeyrissjóður Rangæinga og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Samkvæmt mati Benedikts Jóhannessonar (Talnakönnun) gæti tryggingafræðileg staða þessara sjóða versnað um 5–7%, sem leiddi til skerðingar á greiðslum til annarra sjóðfélaga og ekki síst eldri borgara.

Það er hvorki sanngjarnt né sjálfbært að auka réttindi eins hóps með því að rýra réttindi annars. Lífeyriskerfið byggir á samtryggingu og forsendum um jafnræði. Ef sjóðir missa möguleikann á að samræma greiðslur við almannatryggingar brotnar sú grunnforsenda.

Ellilífeyrir er stjórnarskrárvarin eign

Ellilífeyrir telst stjórnarskrárvarin eign samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verði réttindum ellilífeyrisþega raskað með þessum hætti, án nægilegrar jöfnunar eða lagastoðar, getur ríkið bakað sér skaðabótaskyldu. Þetta er lagalegt álitaefni sem vert er að taka alvarlega

Veikt traust og veikari hvatar

Frumvarpið hefur einnig áhrif á hegðun einstaklinga og kerfishvata. Ef greiðslur til örorkulífeyrisþega verða óháðar fyrri tekjum og öðrum stuðningi, dregur það úr hvatningu til endurhæfingar og þátttöku á vinnumarkaði. Samhliða því rýrnar traust almennings til kerfisins, sérstaklega þegar í ljós kemur að sambærileg iðgjöld leiða til ósambærilegra réttinda.

Engin jöfnun og engin lausn

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2026–2030 kemur skýrt fram að ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi til jöfnunar örorkubyrði árið 2026. Þó er rétt að nefna að nú stendur yfir vinna við endurskoðun jöfnunarframlaga, þótt ekkert liggi fyrir um niðurstöðu. Ekki er því ljóst hver áhrifin verða á afkomumarkmið ríkissjóðs (um milljarða króna er að ræða), sem þegar virðast vera í hættu.

Það má vilja gott en framkvæma það vel

Það er sjálfsagt og eðlilegt að bæta kjör örorkulífeyrisþega en það verður að gera með ábyrgum hætti, með sanngjarnri skiptingu byrða og í sátt við aðra þætti kerfisins. Annars verður góð hugsun að vondri niðurstöðu.

Við getum ekki byggt upp traust lífeyriskerfi á ósamræmi og óskýrleika. Slíkt mun ekki aðeins grafa undan réttindum ellilífeyrisþega heldur veikja kerfið í heild sinni.

Við hljótum að geta gert betur

Til lengri tíma litið hefur þessi tilfærsla neikvæð áhrif á bæði almannatryggingar og lífeyrissjóði. Hún getur stuðlað að aukinni örorku, veikara trausti og lægri greiðslum til framtíðarlífeyrisþega. Enn fremur virðist frumvarpið hafa verið samið án fullnægjandi greininga eða vandaðs samráðsferlis. Slíkt verklag, sem virðist eiga sér stað ítrekað í frumvörpum vorþingsins 2025, vekur ugg.

Verstu áhrif frumvarpsins eru þó þau að verið er að etja saman eldri borgurum og öryrkjum sem er í raun skammarlegt.

Við hljótum að geta gert betur.”

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Ísland er fjarri vígaslóðum

Deila grein

23/06/2025

Ísland er fjarri vígaslóðum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblað dagsins um stöðuna í Mið-Austurlöndum:

„Friðsemd hef­ur ekki ein­kennt stöðuna í Mið-Aust­ur­lönd­um svo ára­tug­um skipt­ir. Ófriður­inn hef­ur komið í veg fyr­ir að vel­sæld og hag­sæld nái fót­festu. Líkt og dæmi eru um í mörg­um ríkj­um í Asíu, sem hafa kosið lýðræði sem sitt stjórn­ar­far.

Hörku­stríð hef­ur geisað í Mið-Aust­ur­lönd­um í að verða tvö ár og mann­fallið er gríðarlegt. Stig­mögn­un hef­ur átt sér stað og átök­in hafa breiðst út til Írans, þar sem Ísra­el gerði árás á kjarn­orku­rann­sókn­ar­miðstöðvar með það að mark­miði að koma í veg fyr­ir þróun kjarn­orku­vopna hjá klerka­stjórn­inni. Banda­rík­in hafa fylgt í kjöl­farið og varpað svo­kölluðum byrg­is­bresta-sprengj­um á þrjár kjarn­orku­rann­sókn­ar­miðstöðvar í Íran. Sér­fræðing­ar telja að meiri lík­ur en minni séu á að búið sé að stöðva þróun kjarn­orku­vopna í Íran að sinni. Tím­inn mun leiða í ljós hvort aðgerð Banda­ríkj­anna hafi heppn­ast og leiði til þess að það molni und­an klerka­stjórn­inni. Sag­an kenn­ir okk­ur hins veg­ar að breyt­ing­ar þurfi að koma að inn­an, þ.e. fólkið í land­inu þarf að vilja breyt­ing­ar og hafa aðstöðu til þess að knýja þær fram.

Saga þess svæðis sem til­heyr­ir Íran í dag er afar merk og var það miðpunkt­ur menn­ing­ar, trú­ar og heimsvelda í meira en 2.500 ár. Mik­ill menn­ing­ar­auður hef­ur orðið til á þessu svæði og mennt­un hef­ur verið í há­veg­um höfð. Frá valda­töku klerka­stjórn­ar­inn­ar hafa millj­ón­ir Írana hins veg­ar yf­ir­gefið landið sitt í leit að betra lífi. Spekilek­inn er mæld­ur í tonn­um. Far­sæl­ast væri ef fólkið í Íran bæri gæfu til þess að stuðla að lýðræðis­leg­um um­bót­um og væri í aðstöðu til að berj­ast fyr­ir slíku.

For­seti Banda­ríkj­anna tek­ur áhættu með þess­ari aðgerð gagn­vart helsta stuðnings­fólki sínu, sem er upp til hópa and­snúið hernaðaraðgerðum Banda­ríkj­anna á er­lendri grundu. Maga-hóp­ur­inn með Steven Bannon, fyrr­ver­andi ráðgjafa Trumps, fremst­an í flokki hef­ur lýst því yfir að Trump eigi ekki að fylgja Ísra­el að mál­um í ut­an­rík­is­stefnu. Ljóst er að Trump hef­ur ákveðið að verða ekki við þess­ari ósk og hef­ur tekið af­ger­andi ákvörðun með því að reyna að koma í veg fyr­ir þróun kjarn­orku­vopna í Íran. Ten­ing­un­um er kastað. Sagt er að Júlí­us Ses­ar hafi mælt þessi orð við her­menn sína þegar hann hélt suður yfir fljótið Rúbí­kon í átt­ina til Róm­ar árið 49 f.Kr. Áhætt­an sem Ses­ar tók var mik­il en aðgerðin heppnaðist. Óvissa rík­ir sann­ar­lega í Mið-Aust­ur­lönd­um og óljóst er á þessu stigi hvort áhætt­an sé þess virði fyr­ir for­seta Banda­ríkj­anna.

Spenn­an í heims­mál­un­um hef­ur sjald­an verið jafn­mik­il. Ísland er fjarri víga­slóðum og við eig­um að ein­beita okk­ur að því að halda okk­ur frá ófriði eins og þjóð okk­ar er frek­ast unnt. Við erum herlaus þjóð og staða okk­ar grund­vall­ast á því.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Brýrnar brenndar

Deila grein

19/06/2025

Brýrnar brenndar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og þingmaður í suðurkjördæmi ritaði grein í Morgunblaðið sem var birt 19. júní 2025:

,,Alla mína stjórnmálatíð hef ég í mínum störfum lagt gríðarlega áherslu á að hugsa Ísland sem eina heild. Það hefur verið mín byggðastefna að byggja brýr milli höfuðborgarsvæðisins þar sem flestir búa og byggða landsins, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Þess vegna þykir mér sárt að horfa upp á Kristrúnarstjórnina ráðast að grundvallaratvinnuvegi landsbyggðarinnar, sjávarútvegi, og í allri umræðu brenna niður þær brýr sem höfðu verið byggðar á síðustu árum og áratugum.

Undirstaða byggðar er atvinna. Það hélt ég að við vissum öll. Stærstu átakamál síðustu áratuga hafa jafnan snúið að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Er þar nærtækast að nefna Kárahnjúkavirkjun sem var algjör lykilforsenda fyrir því að álver var reist við Reyðarfjörð. Þau sár sem voru rist í þeirri umræðu voru djúp en voru orðin nokkuð gróin í tíð síðustu ríkisstjórnar. Því hvað sem fólk vill halda um þá ríkisstjórn þá var hún í vinnu fyrir allt landið, alla þjóðina.

Sjávarútvegur er umdeild grein á Íslandi. Því miður – því þessi grein hefur verið kjölfestan í þeim lífsgæðum sem við höfum byggt upp hér á landi. Kvótakerfinu var komið á vegna þess að samfélög um allt land voru að veikjast vegna óheftra veiða, veikjast vegna stöðugra áfalla í rekstri fyrirtækja sem áttu að vera burðarásar samfélaganna. Kvótakerfið og framsal veiðiheimilda voru nauðsynleg tæki til að skapa raunverulegan, stöðugan rekstrargrundvöll fyrir sjávarútvegsfyrirtæki um allt land. Greinin náði styrk og gerði það meðal annars með sameiningum. Hér hafa risið öflug fyrirtæki í grein sem allar aðrar þjóðir öfunda okkur Íslendinga af. Þetta ferli var ekki sársaukalaust frekar en önnur hagræðing. Ákveðin svæði og ákveðin fyrirtæki urðu sterk en önnur síður. Það er þó ljóst að án þessarar hagræðingar hefði þjóðarbúið sjálft aldrei náð þeim styrk sem hefur haldið lífsgæðum á Íslandi uppi.

Ég heyrði einn stjórnarþingmann svara því til í útvarpsviðtali að ef ákvarðanir ríkisstjórnarinnar myndu valda áföllum í einstaka byggðarlögum á landsbyggðinni yrði gripið til byggðaaðgerða. Hann hnýtti síðan við þeirri möntru sem stjórnarliðar virðast hafa skrifað á handarbak sitt: Og svo munum við byggja vegi fyrir ágóðann af tvöföldun veiðigjaldanna.

Það er gott að byggja vegi. Í ráðherratíð minni tvöfölduðust framlög til vegamála þannig að ég er fyrsti maðurinn til að samþykkja aukin framlög til samgangna. Það er hins vegar sérstakt að heyra stjórnarþingmenn aftur og aftur tengja tvöföldun veiðigjalda við aukningu fjármagns til vegaframkvæmda því þegar litið er á þá fjármálaáætlun sem nýja ríkisstjórnin – sem með mikilli sjálfumgleði kallar sig verkstjórnina – hefur lagt fram þá er ekki einu sinni að sjá að þeir miklu fjármunir sem renna til ríkisins með nýju kílómetragjaldi muni allir skila sér til samgöngumála. Reyndar munar allt að 20 milljörðum þegar horft er til tímabils áætlunarinnar.

Það er enginn of góður til að greiða til samfélagsins. Og þeir sem halda því fram að sjávarútvegurinn geri það ekki eru á villigötum. Veiðigjöld eru einungis lítill hluti af því sem greinin greiðir til ríkisins í formi skatta og gjalda. Það sem er einna sárast að horfa upp á, í þessari framgöngu hinnar nýju ríkisstjórnar er að hún virðir að vettugi varúðarorð sveitarfélaganna sem reiða sig að miklu leyti á útsvarstekjur frá sjávarútvegi, útgerð og vinnslu. Höggið sem sveitarfélögin óttast að útsvartekjur þeirra gætu orðið fyrir eru heldur ekki prívat vandi sjávarútvegssveitarfélaganna. Ef útsvarstekjur þeirra lækka, þá lækka framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna sem síðan hefur áhrif á öll sveitarfélög á landinu.

Ég vona að Kristrúnarstjórnin átti sig á því að stjórnvöld verða að hugsa um landið í heild, þjóðina í heild. Ég vona að hún hætti að brenna brýr með orðum sínum og gjörðum.”

Categories
Greinar

Gaslýsing Guðlaugs Þórs

Deila grein

18/06/2025

Gaslýsing Guðlaugs Þórs

Það vakti athygli mína að Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi umhverfisráðherra, lét í það skína í viðtali á Vísi þann 17. júní að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) mistúlkaði regluverk sem umhverfisráðuneytið hans stóð fyrir að innleiða síðasta sumar. Regluverk sem hefur leitt til aukins flækjustigs í umsóknarferli nýrra veitingastaða.

Í regluverkinu er skýrt kveðið á um að nýir veitingastaðir þurfi að fara í gegnum fjögurra vikna umsagnar- og auglýsingarferli áður en starfsleyfi er veitt. Þetta hefur gert opnun nýrra veitingastaða erfiðara og tímafrekari.

Sem fyrrverandi formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ), staðfesti ég að bæði HER og SHÍ gerðu ítarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á sínum tíma og bentu á mögulegar afleiðingar þessarar nýju nálgunar. Þær ábendingar voru skýrar og rökstuddar, en engu að síður var regluverkið innleitt óbreytt.

Það er eðlilegt og nauðsynlegt að umræða eigi sér stað um hvernig megi einfalda og bæta starfsleyfisferlið og hefur umræða um umsóknarferlið verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Sjálfur er ég þeirra skoðunar að margt er hægt að bæta til að gera starfsleyfis umsóknarferlið skilvirkara fyrir fyrirtæki t.d. með þvi að sameina heilbrigðiseftirlitssvæðin á höfuðborgarsvæðinu undir eitt eftirlitsvæði.

Hins vegar tel ég það ekki réttlátt að varpa ábyrgð á túlkun eða framkvæmd niður á fagfólk eftirlitsaðila, sérstaklega þegar skýrar reglur voru settar af hálfu stjórnvalda sjálfra. Slík framsetning dregur úr trausti á kerfinu og þeim sem sinna mikilvægu eftirlitshlutverki í þágu almennings.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík, formaður SHÍ og fyrrum formaður Heilbrigðisnefndar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar

Fögnum sjálfstæði Íslands

Deila grein

16/06/2025

Fögnum sjálfstæði Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra ritaði grein í Morgunblaðið 16. júní 2025.

„Þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga er á morgun, 17. júní. Á þessum degi minnumst við þess þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi árið 1944 – eftir nær 700 ára erlend yfirráð. Setjum okkur í spor forfeðra og formæðra okkar á þessum sögulega degi fyrir rúmum 80 árum. Þið getið ímyndað ykkur andrúmsloftið í þjóðfélaginu: fögnuður og bjartsýni ríktu, því loks var sjálfstæði þjóðarinnar komið í höfn eftir langvarandi og erfiða baráttu. Öllu var tjaldað til á Þingvöllum, 1.500 tjaldstæðum úthlutað og 6.000 manns fluttir með leigu bílum og fullt af fánum pantað! Kvikmyndasafn Íslands á mikilvægt efni frá þessum merka degi.

Það er ekki tilviljun að 17. júní, afmælisdagur Jóns Sigurðssonar, leiðtoga þjóðfrelsisbaráttunnar, var valinn sem þjóðhátíðardagur. Jón var tákn um þrautseigju, rökhugsun og trú á mátt lýðræðis og sjálfstæðis. Þjóðin hafði gengið í gegnum margvíslegar þrautir á umliðnum öldum: Litlu-ísöld, Svarta dauða, erfið siðaskipti, einokunarverslun, einveldi Dana, móðuharðindi og fjöldaflutninga fólks vestur um haf. Samt varð baráttan fyrir sjálfstæði að veruleika og þegar þjóðin kaus sögðu 97% já við sambandsslitunum við Danmörk og stofnun lýðveldis. Kosningaþátttakan var 98%, sem sýnir hve mikið Íslendingar þráðu að ráða sér sjálfir.

Ísland hefur síðan þá tekið stórstígum framförum. Árið 2024 var Ísland í efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Það er erfitt að trúa öðru en að þessi þróun hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra sem börðust fyrir sjálfstæðinu. Árangurinn sýnir hverju smá þjóð með skýra sýn og sterka sjálfsmynd getur áorkað. Lykilatriði í áframhaldandi sjálfstæði þjóðarinnar er full yfirráð yfir auðlindum Íslands til að tryggja velsæld á Íslandi. Frá lýðveldisstofnun hefur verið mikil áhersla á þennan þátt og að gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins standi undir innflutningi.

Þrátt fyrir árangurinn eru blikur á lofti. Núverandi ríkisstjórn undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur sett Evrópusambandsaðild aftur á dagskrá. Verja á tugi milljóna króna í verkefnið. Slík ákvörðun í þeirri alþjóðlegri óvissu sem ríkir um þessar mundir vekur upp áleitnar spurningar.

Ísland hefur á lýðveldistímanum tryggt sér trausta stöðu í alþjóðakerfinu með EES-samningnum, stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Staða Íslands er sterk í alþjóðlegu samhengi ásamt því að full yfirráð yfir auðlindum okkar eru tryggð. Í þeirri óvissu sem ríkir er brýnt að stjórnvöld sýni stjórnkænsku, þrautseigju og hyggindi. Sjálfstæði þjóðarinnar skiptir öllu máli til að tryggja góð lífskjör; höfnum Evrópusambandsvegferð ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Fögnum sjálfstæði þjóðarinnar á þjóðhátíðardeginum 17. júní!“

Categories
Fréttir

Þjóðarsjóður

Deila grein

12/06/2025

Þjóðarsjóður

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, kallar eftir þjóðarsjóði: „Kominn tími til að ræða þetta af alvöru“

Í ræðu á Alþingi vakti Halla Hrund Logadóttir máls á nauðsyn þess að stofna þjóðarsjóð sem safnar arði af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, einkum þeim sem finnast innan þjóðlendna.

Arður af ólíkum auðlindum

„Nýlega lagði forsætisráðherra fram skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna. Sú ágæta skýrsla vekur upp mikilvægar spurningar um hvernig við nýtum auðlindir okkar. Þjóðlendur þekja um 40% landsins en þetta eru svæði sem ekki eru háð einkaeignarrétti og því eru þetta sameiginlegar auðlindir okkar Íslendinga. Gegnsæi um samninga og gjaldtöku á þjóðlendum skiptir því miklu máli eins og í auðlindamálum almennt. Ég vil því í þessu samhengi vekja máls á stofnun þjóðarsjóðs sem í rynni arður af ólíkum auðlindum okkar Íslendinga, m.a. innan þjóðlendna. Það er kominn tími til að ræða stofnun slíks sjóðs af alvöru, ekki síst vegna þess að við erum að sjá aukna ásókn í nýtingu frá innlendum og erlendum aðilum. Hér er ég að tala um orkuvinnsluna, ég er að tala um jarðefnin, vatnið o.s.frv. Sem fyrirmynd getum við horft til olíusjóðs Norðmanna sem hefur tekist vel að ávaxta pundið fyrir framtíðarkynslóðir.

Þurfum að stofna þjóðarsjóð

Í nýlegri skýrslu fjármálaráðherra um langtímahorfur í efnahagsmálum er lítil umfjöllun um stórar fjármálaáskoranir, svo sem öldrun þjóðarinnar, fjárfestingu í innviðum fyrir landsbyggðina og líka óvissu í alþjóðamálum. Það eru einmitt þessar áskoranir sem munu hvíla þungt á okkur til lengri tíma og krefjast þess að við hugsum hlutina dálítið upp á nýtt þegar kemur að efnahagsmálunum. Brátt erum við síðan að horfa hér í þinginu á síðari umræðu um fjármálaáætlun þar sem við erum að ræða fjármálin opinberu til næstu ára. Mér fannst því vera rétti tímapunkturinn nú að vekja máls á stofnun þjóðarsjóðs. Það hefur verið lagt fram frumvarp sem nær að ákveðnu leyti utan um þessa hugsun sem hefur ekki náð fram að ganga en ég óska eftir nýju samtali um stofnun þjóðarsjóðs og samvinnu við framlagningu nýs frumvarps á haustþingi.“