Categories
Fréttir Greinar

Þegar líf liggur við

Deila grein

11/12/2025

Þegar líf liggur við

Á undanförnum vikum hefur umræðan um fjárlög næsta árs leitt í ljós grafalvarlega stöðu í fjármögnun krabbameinslyfja. Þessi staða hefur ekki aðeins komið fram í umsögnum helstu fagstofnana, heldur einnig í beinum ábendingum Landspítala, Krabbameinsfélags Íslands og fjárlaganefndar Alþingis. Öll þessi gögn benda til sömu niðurstöðu um að líf fólks og lífsgæði ráðast af ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi næstu daga.

Fjárþörf langt umfram áætlanir

Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 700 milljóna króna aukningu til lyfjakaupa vegna fjölgunar krabbameinstilfella og raunvaxtar í lyfjakostnaði. Þrátt fyrir það liggur fyrir að þörf er á mun meira fjármagni. Lyfjanefnd Landspítala hefur bent á að tíu nýjar og mikilvægar meðferðir, sem fyrst og fremst varða ný krabbameinslyf sem þegar eru innleidd á hinum Norðurlöndunum, bíða innleiðingar hér á landi. Þetta eru lyf sem geta skipt sköpum en þau lengja líf, bæta lífsgæði og umfram allt auka líkur á bata.

Engu að síður er ljóst að samkvæmt núverandi fjárheimildum er hvorki svigrúm til að taka upp ný lyf né samþykkja nýjar ábendingar fyrir núverandi lyf. Í umsögn forstjóra Landspítala kom fram að rúman milljarð króna vanti til að tryggja eðlilega og nauðsynlega þjónustu á árinu 2026. Sú niðurstaða ein og sér ætti að kveikja rauð ljós.

Íslendingar dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum

Fjárveitingar til nýrra krabbameinslyfja hafa staðið í stað. Á þessu ári hefur ekkert nýtt lyf verið tekið upp og ekkert verður bætt við á næsta ári nema fjárheimildir verði hækkaðar. Afleiðingin er sú að Íslendingar eru að dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum í innleiðingu nýrra meðferða og það þýðir lakari lífshorfur, lakari lífsgæði og ósamræmi við yfirlýst markmið stjórnvalda um heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

Hér er ekki aðeins um fjárhagslegt sjónarmið að ræða, heldur spurningu um hvort íslenskir sjúklingar geti fengið meðferð sem stenst samanburð við það besta sem gerist á Norðurlöndum. Í dag er svarið því miður neikvætt. Veikustu sjúklingar okkar fá ekki aðgang að þeim krabbameinslyfjum sem bjarga lífi og bæta lífsgæði í nágrannalöndum okkar.

Vaxandi þrýstingur á heilbrigðiskerfið

Samkvæmt Krabbameinsfélagi Íslands greinast um 2.000 manns árlega með krabbamein á Íslandi. Spár sýna 63% fjölgun greininga fram til ársins 2045. Sú þróun mun auka stórlega álag á heilbrigðiskerfið og krefjast markvissrar uppbyggingar.

Þá blasir einnig við umtalsverð endurnýjunarþörf lækningatækja, bæði á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Flutningur starfsemi í nýtt húsnæði á Landspítala kallar á endurnýjun fjölmargra tækja. Jafnframt er uppbygging geislameðferðar engan veginn tryggð til framtíðar, þótt kerfið velti nú á yfirvinnu starfsfólks og útvistun meðferða á sjúklingum til útlanda. Ábyrgð stjórnvalda er mikil og margþætt.

700 milljóna króna aukning sem samþykkt var í 2. umræðu fjárlaga dugar ekki þó vissulega sé það jákvætt skref. Minnihluti fjárlaganefndar hefur ekki fengið nákvæmar upplýsingar um raunverulega fjárþörf, en við vitum að hún er umtalsvert meiri ef tryggja á aðgang að bestu krabbameinslyfjunum.

Sjálf hef ég ítrekað óskað eftir upplýsingum um stöðu lyfjakaupa í velferðarnefnd, síðast í síðustu viku. Þrátt fyrir að málið snerti líf og heilsu þúsunda hafa svör ekki borist sem er með öllu óásættanlegt.

En ábyrgð stjórnvalda felst fyrst og fremst í því að tryggja aðgengi að bestu mögulegu meðferð hverju sinni. Þegar fjárlög tryggja ekki fjármagn til að innleiða lífsnauðsynleg lyf eða byggja upp geislameðferðarkerfi sem stenst einfaldar kröfur nútímans þá bregst ríkisvaldið skyldum sínum.

Það er því afar mikilvægt að heilbrigðisráðuneytið og ríkisstjórnin fari yfir framkomin gögn og leggi þegar í stað mat á nauðsyn frekari fjárheimilda.

Líf og lífsgæði ráðast af ákvörðunum næstu daga

Á Alþingi eigum við nú tækifæri til að bregðast við og taka ábyrgðarfullar ákvarðanir. Tryggjum að fjárlög ársins 2026 innihaldi raunhæfar fjárveitingar til lyfjakaupa, til geislameðferðar og til brýnna tækjakaupa. Líf og lífsgæði íslenskra krabbameinssjúklinga ráðast af þeim ákvörðunum sem teknar verða á næstu dögum. Við getum tryggt að þeir njóti sömu meðferðar og lífshorfna og veikustu sjúklingar á hinum Norðurlöndunum, einmitt á þeim tímum þegar mest reynir á í lífi þeirra.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Erum við að gleyma fólkinu?

Deila grein

11/12/2025

Erum við að gleyma fólkinu?

Fjárlögin segja meira en mörg orð. Þau sýna í verki hvar ríkisstjórn hvers tíma hyggst forgangsraða og hverjir sitja eftir. Fjárlög ársins 2026 benda því miður til þess að fólk í landinu, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins, sé ekki í forgangi. Þvert á móti er verið að leggja auknar byrðar á heimilin með skattahækkunum, þjónustuskerðingu og útgjaldaaukningu sem standast ekki grunngildi um varúð og ábyrgð.

Loforð um skatta stóðust ekki

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins lofaði því hátíðlega að skattar á almenning yrðu ekki hækkaðir. En loforðin stóðust ekki. Samsköttun hjóna er afnumin, kílómetragjald kemur til framkvæmda og vörugjöld hækka. Þar að auki eru lagðar 90 milljónir króna í auknar álögur á akstursíþróttir og lyfjakostnaður einstaklinga hækkar.

Allar þessar skattahækkanir lenda á almenningi.

Grundvallarforsendur fjárlaga næsta árs byggjast á afar veikum grunni. Tekjuforsendur fela í sér verulega bjartsýni og jafnvel óskhyggju. Atburðir síðustu mánaða hafa breytt efnahagshorfum verulega til hins verra. Jafnframt má leiða að því líkum að markmið gildandi fjármálastefnu, sem byggjast á forsendum um þróttmikinn hagvöxt, mikla innlenda eftirspurn og stöðugan útflutning, standist ekki lengur.

Útlit er fyrir að hagvöxtur verði mun minni árið 2025 en spáð var, og einnig árið 2026. Í ljósi þess er brýnt að efla verðmætasköpun og styðja við atvinnulífið með raunverulegum aðgerðum sem styðja við nýsköpun, frumkvöðla, matvælaframleiðendur og hugverkaiðnað. Fjárlögin 2026 tryggja ekki nægilegan stuðning eða metnað á þessum sviðum.

Útgjöld ríkisins aukast um 143 milljarða á milli áranna 2025 og 2026, sem er 9% hækkun í 4% verðbólgu. Þetta er mesta hækkun fjárlaga að nafnvirði frá árinu 2007. Við vitum hvernig það endaði en tveimur árum síðar varð efnahagshrun. Með þessu er ekki átt við að hrun sé í vændum nú, en þessi staða minnir okkur á að samhliða auknum útgjöldum verður að huga vel að stöðugleika, verðmætasköpun atvinnulífsins og stuðningi við það.

Fjárlögin fela einnig í sér að hætt er við að fjármagna varasjóði ráðuneyta annað árið í röð. Varasjóðir málaflokka eru til að auka sveigjanleika og draga úr notkun fjáraukalaga. Slíkur niðurskurður takmarkar verulega svigrúm ráðherra til að bregðast við óvæntum aðstæðum.

Heilbrigðisþjónusta vanfjármögnuð

Mikilvægar stoðir samfélagsins fá ekki það fjármagn sem þær þurfa. Meðferðarstofnanir eins og Ljósið, Reykjalundur og Náttúrulækningahælið fá samtals 700 milljónir króna, sem dugar skammt miðað við fyrirliggjandi þörf.

Lyfjamál eru einnig í ólestri. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir undirritaðrar í velferðarnefnd hafa engar haldbærar upplýsingar fengist frá ráðuneyti heilbrigðismála um lyfjakostnað. Ekki er nægilegt fjármagn sett í lyfjamál til að tryggja Íslendingum sem veikastir eru aðgang að bestu fáanlegu krabbameinslyfjum. Þeir sem greinast með krabbamein á Íslandi búa því miður ekki við sömu tækifæri til lækningar og sjúklingar annars staðar á Norðurlöndum. Það er óásættanlegt.

Menntamál vanfjármögnuð

Í menntamálum blasir enn fremur við skortur á faglærðum kennurum, íslenskukennslu og aðgengi að nútímalegum námsgögnum. Í minnihlutaáliti okkar í Framsókn lögðum við til aukin framlög og skýrari markmið um gæði menntunar til að snúa þeirri þróun við og styrkja íslenska menntun til framtíðar. Þeim var hafnað af stjórnarmeirihlutanum.

Margt er jákvætt í fjárlögum ársins 2026 og mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim framförum sem þar birtast. En við verðum jafnframt að gera betur. Á Alþingi höfum við tækifæri til að bæta úr og tryggja að fjárlög næsta árs leggi raunhæfan grunn að framtíðinni. Það þýðir meiri varúð í áætlanagerð ríkisins, stuðning við verðmætasköpun og skýra forgangsröðun þar sem velferð fólks er í fyrsta sæti. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Deila grein

21/11/2025

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ferðaþjónustan á Norðurlandi stendur á tímamótum. Aldrei áður hafa tækifærin verið jafn augljós og raunhæf. Ný hótel rísa, fjölbreytt afþreying vex, og heilsársferðaþjónusta er orðin að veruleika. Staðan er gjörbreytt frá því fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur þegar opnað dyr að nýjum tækifærum og auknum lífsgæðum fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi þróun haldi áfram og nái einnig til Egilsstaða.

Það er brýnt að stjórnvöld tryggi að beint flug til Akureyrar verði sjálfbært og Egilsstaðir fylgi hratt á eftir. Flugþróunarsjóður, sem hefur styrkt flugfélög og ferðaþjónustuaðila til að taka áhættu og hefja beint flug til Norðurlands, hefur sýnt gildi sitt. En sjóðurinn þarf að fá aukinn slagkraft til að fylgja þessu flugi eftir og fjármagna aukna markaðssetningu á Egilsstöðum sem áfangastað.

Beint flug – beint í betri lífsgæði

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur breytt miklu fyrir svæðið. Nú er hægt að ferðast án þess að leggja í langan og kostnaðarsaman legg til Keflavíkur. Með millilandafluginu er svæðið orðið aðgengilegra fyrir ferðamenn, en ekki síður hefur það aukið lífsgæði heimamanna. Það sparar tíma, eykur öryggi, og styrkir fyrirtæki á öllum sviðum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja áframhaldandi stuðning við millilandaflug til Akureyrar því slík fjárfesting eru fjárfesting í framtíðinni.

Þúsundir starfa

Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum orðið einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs. Hún hefur skapað þúsundir starfa, aukið tekjur heimila og veitt landsbyggðinni ný og öflugri tækifæri.

Árið 2023 námu gjaldeyristekjur greinarinnar um 600 milljörðum króna og skatttekjur ríkis og sveitarfélaga námu 200 milljörðum króna. Þetta eru tölur sem skipta máli fyrir alla landsmenn því velgengni ferðaþjónustunnar er velgengni samfélagsins í heild.

Sem þingmaður Norðausturkjördæmis sé ég daglega hve jákvæð áhrif öflug ferðaþjónusta hefur á líf fólks. Hún gefur ungu fólki tækifæri til að byggja framtíð sína heima, styrkir atvinnulífið og heldur samfélögum lifandi.

Fjárfestum í innviðum

Ný flugstöð á Akureyri, stærra flughlað og nýr aðflugsbúnaður eru dæmi um fjárfestingar sem efla ekki aðeins ferðaþjónustu heldur allt samfélagið.

Svo er rétt að hafa í huga niðurstöður áhugaverðrar skýrslu Jóns Þorvalds Heiðarssonar hagfræðings um áhrif beins millilandaflugs til Akureyrar. Skýrslan sýnir svart á hvítu að flug EasyJet til Akureyrar frá bæði London og nú Manchester var ekki fjarlægur draumur heldur arðbært fyrir samfélagið allt. Það sýnir hversu mikill kraftur býr í landsbyggðinni ef tækifærin eru nýtt.

Kraftur landsbyggðarinnar

Fyrir stuttu síðan fór fram VestNorden sýningin á Akureyri, þar sem um 550 aðilar úr ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum komu saman til að skapa ný tækifæri og tengsl.

Þar sýndi Norðurland að landsbyggðin getur verið miðpunktur alþjóðlegrar ferðaþjónustu og uppbyggingar. Með góðri skipulagningu, sterkum innviðum og samstilltu átaki fjölda fólks er allt hægt. VestNorden var ekki eingöngu ráðstefna. Hún fól í sér tákn um bjartsýni og mikilvægi samstarfs til að bæta hag landsbyggðarinnar og kom okkur þingmönnunum sem mættum skemmtilega á óvart.

Ferðaþjónustan er auka egg í körfu landsbyggðanna

Ferðaþjónustan er ekki bara atvinnugrein. Hún er lífæð margra samfélaga og lykillinn að framtíð landsbyggðarinnar. Þegar ferðamenn dreifast um landið skapast meira jafnvægi: ný störf, fjölbreytt atvinnulíf og tækifæri fyrir ungt fólk til að setjast að í heimabyggð.

Til þess þarf að huga að innviðum s.s. vegum, flugvöllum, orkuframboði, stafrænni þjónustu og menntun með framtíðarsýn að leiðarljósi. Þannig byggjum við upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem eykur lífsgæði og dregur úr ósjálfbærri miðstýringu.

Fyrir framtíðina

Framsókn hefur ávallt staðið vörð um jafnvægi og jöfn tækifæri um land allt.

Öflug ferðaþjónusta á landsbyggðinni er ekki aðeins stefnumál heldur er hún grundvallarmál fyrir fólkið í landinu bæði með tilliti til atvinnu, lífsgæða og öryggis.

Þó blikur séu á lofti í pólitísku andrúmslofti þessa dagana, munum við í Framsókn standa vörð um þá framtíðarsýn. Við viljum land þar sem lífsgæði, tækifæri og von dreifast jafnt, þar er ferðaþjónustan brú milli fólks, byggða og framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Deila grein

15/11/2025

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Bestu ákvarðanirnar eru teknar þegar við sjáum heildarmyndina. Til að sjá heildarmyndina verðum við að horfa út fyrir nærumhverfi okkar og sjá landið allt, fólkið allt. Núverandi ríkisstjórn virðist þó ekki vera alveg sammála þessu sjónarmiði. Hún sér landið okkar í gegnum þröngan glugga höfuðborgarinnar. 

Þetta hefur þær afleiðingar að dregið er sífellt úr þjónustu á landsbyggðinni, fjármunum er frekar beint að þéttbýlinu og reglur settar án þess að spurt sé hvernig þær snerta fólk sem býr og starfar utan höfuðborgarsvæðisins.

Landsbyggðarmat 

Af þessari ástæðu lagði þingflokkur Framsóknar fram tillögu á Alþingi í liðinni viku um að innleiða svokallað landsbyggðarmat í íslenska stjórnsýslu og lagasetningarferli (e. rural proofing). Hugmyndin er einföld og gengur út á að slíkt mat verði lögbundin og skyldubundin leið við undirbúning frumvarpa, reglugerða og stærri stefnumótunar- og fjárfestingaráætlana ríkisins. Ef áhrif ákvarðana eða verkefna eru neikvæð, þá þarf að huga að því hvernig hægt er að milda þau eða koma með mótvægisaðgerðir. Ef tækifæri felast í breytingunni er spurt hvernig þau verði nýtt. 

Það gleymist oft að aðstæður á Íslandi eru afar ólíkar milli landshluta og byggðarlaga. Ákvarðanir stjórnvalda verða ávallt að taka mið af því. Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp landsbyggðarmat. 

Aðför að landsbyggðinni í boði ríkisstjórnarinnar

Ákvarðanir stjórnvalda sem bitna á landsbyggðinni birtast á ótal sviðum. Við sjáum það t.d. þegar starfsemi heilbrigðisþjónustu er sameinuð með þeim afleiðingum að lengri tíma en áður tekur að fá læknisaðstoð. Við sjáum sambærileg dæmi almennt þegar nýjar reglur eða aðrar kröfur eru skrifaðar út frá forsendum höfuðborgarinnar án þess að tillit sé tekið til raunverulegra aðstæðna í dreifbýli. 

Ákvarðanir stjórnvalda snerta lífsviðurværi, öryggi og framtíð fólks um allt land. Og þegar þær eru teknar án þess að áhrif á landsbyggðina séu metin, verður niðurstaðan oftar en ekki sú sama: verri þjónusta á landsbyggðinni og færri tækifæri. 

Skortur á skilningi á ólíkum aðstæðum úti á landi er ekki aðeins kæruleysi heldur felur í sér aðför að landsbyggðinni. Það getur aldrei talist eðlilegt að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir sem kunna að veikja lífsgæði fólks utan höfuðborgarinnar án þess að greinargott mat á áhrifum slíkra ákvarðana hafi farið fram. 

Þetta er ekki ósk um forgang eða sérmeðferð landsbyggðarinnar. Þetta er einfaldlega krafa um ábyrgð og gæði í stjórnsýslu og við lagasetningu. Landsbyggðarmat er eins konar gæðalinsa í opinberri stefnumótun, leið til að sjá heildina og forðast að góð áform hafi óheppilegar aukaverkanir. 

Fjöldi ríkja hefur tekið slíkt ferli upp með góðum árangri. Í Bretlandi, Finnlandi og Kanada hefur það leitt til betri ákvarðanatöku, aukins jafnræðis og skilvirkari nýtingar fjármuna. Það sama gæti átt við hér ef viljinn er fyrir hendi. 

Sameiginleg ábyrgð

Við eigum ekki að draga línu milli höfuðborgar og landsbyggðar. Við eigum að horfa á okkur sem eina heild, þjóð sem byggir á fjölbreytileika, samstöðu og ótal tækifærum til verðmætasköpunar þvert á landshluta. 

Þegar landsbyggðin styrkist, styrkist landið allt. Þegar þjónusta og tækifæri eru tryggð á landsbyggðinni, þá vex samfélagið í heild. Við eigum ekki að horfa á byggðir landsins sem keppinauta, heldur sem samstarfsnet sem heldur þjóðinni saman. 

Þetta snýst ekki um forréttindi heldur jafnræði. Ekki um aukinn kostnað heldur um skynsamari ákvarðanir. Það er miklu dýrara að bæta fyrir skaðann eftir á en að hugsa hlutina vel í upphafi og þess vegna er landsbyggðarmat mikilvægt. 

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 15. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar veikindi mæta van­trú

Deila grein

05/11/2025

Þegar veikindi mæta van­trú

Það er fátt sem reynir meira á mann en að verða veikur, nema kannski að upplifa að manni sé ekki trúað. Þegar líkaminn bregst, en samfélagið virðist efast. Þegar fólk sem stendur í daglegu stríði við orkulítið líf og stöðug hjartsláttarónot finnur að kerfið sér það ekki.

Undanfarin misseri höfum við heyrt af einstaklingum glíma við langvinn veikindi í kjölfar COVID-19, veikindi sem reyna bæði á líkama og sál. Sjúkdómar á borð við POTS, ME og langvinn einkenni eftir COVID hafa sýnt okkur að líkaminn bregst á margbreytilegan hátt við veiru sem við þekktum ekki fyrir fáum árum. Þrátt fyrir að þekkingin hafi aukist verulega er enn margt óljóst og vísindin eiga langt í land með að skýra allar orsakir eða finna viðurkenndar meðferðir.

Í slíkri stöðu er það ekki aðeins erfitt að vera veikur heldur einnig að finna fyrir vantrú.

Margir sjúklingar hafa lýst því að hafa fundið meðferð sem bætir líðan þeirra, eins og vökvagjöf í æð, sem hefur dregið úr einkennum og gert þeim kleift að lifa eðlilegra lífi.

Þegar ákveðið var að hætta niðurgreiðslu þeirrar meðferðar án þess að önnur úrræði kæmu í staðinn, upplifðu mörg vonleysi. Að lífsgæðin sem þeir höfðu endurheimt væru tekin af þeim á ný.

Hvers vegna núna?

Sjúkratryggingar Íslands hafa vísað til þess að meðferðin sé ekki gagnreynd og því ekki réttlætanlegt að niðurgreiða hana. Slíkt sjónarmið er skiljanlegt þar sem kerfið verður að byggjast á áreiðanlegum grunni og gagnreyndri þekkingu.

En það sem vekur spurningar er tímasetningin.

Vökvagjöf í æð hefur verið niðurgreidd um árabil, á meðan full vitneskja var um að meðferðin væri ekki formlega gagnreynd fyrir þessa sjúkdóma og heilkenni. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að slík breyting sé rökstudd og að tryggt sé að aðrir valkostir standi til boða áður en niðurgreiðsla fellur niður þar sem sjúklingar eiga ávallt rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þá hafna Sjúkratryggingar Íslands greiðsluþátttöku á ýmsum gagnlegum hjálpartækjum og lyfjum fyrir þennan sárþjáða hóp. Þess ber að geta að margir sjúklingar innan þessa hóps eiga erfitt fjárhagslega eftir að vera lengi frá vinnu vegna veikinda. Auk þess vekur það spurningar þegar ráðherra styður ákvörðun SÍ um stöðvun niðurgreiðslu en felur landlækni á sama tíma að setja á fót og leiða vinnuhóp til að fjalla um heilbrigðisþjónustu við sjúklinga með sjúkdómsheilkenni sem á ensku kallast post-acute infection syndromes, skammstafað PAIS. Undir þetta falla meðal annars langvinnt COVID, ME-sjúkdómur og POTS en talsverð skörun getur verið þarna á milli og einkenni geta verið afar fjölbreytt og mismunandi.

Lærdómur úr sögu læknavísindanna

Við megum ekki gleyma að saga læknavísindanna er löng og oft illskiljanleg í upphafi. Það er ekki óalgengt að meðferðir sem síðar reyndust gagnlegar hafi verið notaðar löngu áður en vísindin gátu skýrt af hverju þær virkuðu. Við höfum áður séð að sjúkdómar sem voru áður taldir geðrænir eða ímyndaðir fengu síðar líffræðilega útskýringu og meðferð sem var upphaflega byggð á reynslu lækna og sjúklinga varð síðar staðfest með rannsóknum. Við verðum að gefa þessu ferli svigrúm, sérstaklega þegar lífsgæði fólks eru í húfi.

Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra hef ég óskað eftir svörum um hvernig tryggt hafi verið að málið væri unnið í samræmi við stjórnsýslulög, andmælarétt og rannsóknarskyldu stjórnvalda.

Var samráð haft við sjúklinga, sérfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk?

Var metið hvaða áhrif ákvörðunin hefði á lífsgæði og atvinnuþátttöku fólks?

Og var tekið tillit til réttmætra væntinga þeirra sem höfðu notið meðferðarinnar?

Heilbrigðiskerfi með hjarta

Heilbrigðiskerfið okkar á að byggjast á vísindalegri þekkingu og faglegum grunni.

En það þarf einnig að byggjast á samtali, trausti og virðingu fyrir reynslu sjúklinga.

Breytingar á meðferð eða þjónustu verða að vera yfirvegaðar og byggðar á raunhæfum lausnum áður en fyrri úrræði eru felld niður. Slíkt verklag er forsenda ábyrgra og farsælla ákvarðana og þjónustu.

Við stöndum nú frammi fyrir nýjum áskorunum í heilbrigðismálum. Faraldurinn hefur haft í för með sér fjölbreytt og langvinn einkenni sem kalla á opnari umræðu, fleirirannsóknir og nánara samstarf.

Til að mæta þessum áskorunum þurfum við að tryggja samvinnu stjórnvalda, heilbrigðisstarfsfólks, vísindasamfélagsins og sjúklinga.

Ég hvet hæstvirtan heilbrigðisráðherra til að endurskoða afstöðu sína í málinu og tryggja að enginn verði skilinn eftir.

Við verðum að sýna að íslenskt heilbrigðiskerfi byggir ekki aðeins á þekkingu og fagmennsku heldur einnig á hlustun, samkennd og mannúð.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­vinningur fyrri ára í hættu

Deila grein

15/10/2025

Á­vinningur fyrri ára í hættu

Heilbrigðiskerfið okkar er ein af grunnstoðum samfélagsins. Á síðasta kjörtímabili náðust mikilvægir áfangar í að bæta þjónustu en nú horfum við hins vegar upp á fjölmörg merki um afturför, þar sem nýjar ákvarðanir stjórnvalda virðast grafa undan þeim árangri sem náðst hefur. Sérstaklega blasir þetta við á landsbyggðinni, þar sem íbúar utan höfuðborgarsvæðisins eins og á Akureyri og nágrenni finna nú fyrir skerðingu þjónustu og aukinni byrði.

Árangur síðasta kjörtímabils, bætt þjónusta og lægri kostnaður

Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór skref til framfara í heilbrigðismálum. Markvisst var unnið að því að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og draga úr biðlistum.

Samningar náðust við nær allar stéttir heilbrigðisgeirans, frá sérfræðilæknum og sjúkraþjálfurum til hjúkrunarfræðinga og tannlækna eftir margra ára óvissu og óánægju. Þessir mikilvægu samningar skiluðu betri starfsanda, stöðugleika í þjónustunni og auknu trausti milli heilbrigðisstarfsfólks og ríkisins.

Með samningum við sjálfstætt starfandi aðila tókst að bæta nýtingu fjármagns, fjöldi liðskiptaaðgerða jókst verulega og aðgerðir til að vinna á biðlistum vegna hinna ýmsu aðgerða báru árangur.

Á Akureyri og víðar var ráðist í uppbyggingu. Ný heilsugæsla reis í Sunnuhlíð, samningar voru gerðir um nýtt hjúkrunarheimili og fjármagn til endurhæfingar aukið. Heilbrigðisþjónusta utan höfuðborgarsvæðisins styrktist, og fólk fann raunverulega fyrir breytingu til batnaðar.

Nú blasa við merki um afturför

Því miður má nú sjá víða að þróunin hefur snúist við. Ný ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir og lagt fram lagafrumvörp sem grafa undan þeim framförum sem náðst hafa. nefna nokkur dæmi um hvernig verið er að vega að heilbrigðisþjónustunni á landsvísu.

  • Skert samningsfrelsi og óvissa í þjónustu: Nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem gerir ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands geti „einhliða ákveðið greiðslur og skilmála fyrir þjónustu án samninga“ og jafnframt bannað þjónustuaðilum að innheimta gjöld af sjúklingum á meðan greitt er samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Hér er unnið gegn stefnu síðustu ríkisstjórnar og heilbrigðisstefnu til 2030 um jafnt aðgengi óháð efnahag. Ljóst er að ef þetta hefur þau áhrif að samningar við lækna losna munu einhverjir einstaklingar hreinlega neita sér um heilbrigðisþjónustu. Frumvarpið hefur mætt harðri andstöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks sem benda á að þetta væri fordæmalaust inngrip ríkisins í samningsfrelsi þessara stétta og framsal valds til Sjúkratrygginga. Fulltrúar sérfræðilækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og fleiri hafa varað við að þetta geti haft bein neikvæð áhrif á þjónustuna sem í boði verður.
  • Sérfræðilæknaþjónusta á Akureyri í uppnámi: Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) var um árabil hægt að tryggja ákveðna sérfræðilæknaþjónustu í gegnum svokallaða ferliverkasamninga við sjálfstætt starfandi lækna. Nú hefur forstjóri SAk, að tilmælum ráðuneytisins, sagt upp þessum samningum. Í kjölfarið óttast íbúar og sérfræðilæknar á svæðinu verulega skerðingu á þjónustu. Ljóst er að draga verður mjög úr þjónustunni á SAk ef ekki tekst að finna lausnir til að halda sérfræðilæknunum norðan heiða.
  • Skerðing endurhæfingar á Kristnesi: Á Kristnesi er rekin mikilvæg endurhæfingardeild sem þjónustar bæði fólk í kjölfar veikinda og eldri einstaklinga. Nú hefur verið ákveðið að breyta endurhæfingardeild Kristnesspítala í svokallaða 5 daga deild frá áramótum, þ.e. leggja af hefðbundna 7 daga legudeild og hafa einungis dagdeildarþjónustu og virka daga innlagnir.
  • Loforð um nýja stöð svikið: Fyrir lá áætlun um að byggja aðra heilsugæslustöð á Akureyri til að bæta aðgengi íbúa bæjarins að grunnþjónustu. Þeirri framkvæmd hefur nú verið frestað um a.m.k. fimm ár. Þess í stað er ætlunin að reyna að fleyta núverandi kerfi með því að stækka lítillega þá stöð sem þegar er til staðar í Sunnuhlíð. Þrátt fyrir að ánægja sé með þjónustuna þar sem hún er, þá er þessi stefnubreyting mikil vonbrigði. Akureyri er ört stækkandi samfélag og þörfin fyrir öfluga heilsugæslu eykst ár frá ári.
  • Hækkandi lyfjakostnaður sjúklinga: Á sama tíma og þjónusta dregst saman á vissum sviðum, eru sjúklingar farnir að greiða meira úr eigin vasa fyrir lyf. Frá næstu áramótum tekur gildi ný þrepaskipting í greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum. Hún felur í sér að einstaklingar greiða fyrst allan kostnað sjálfir, síðan 40% af verði lyfja eftir að ákveðnu þrepi er náð. Þetta er hluti af svokallaðri hagræðingaraðgerð sem á að spara ríkinu um 450 milljónir króna, fjárhæð sem leggst beint á sjúklinga og fjölskyldur um allt land. Hækkunin felur í sér raunverulega hækkun á útgjöldum þeirra sem nota mörg lyf, einkum langveikra einstaklinga og aldraðra. Þetta markar viðsnúning frá þeirri stefnu sem fylgt var á síðasta kjörtímabili þegar markvisst var unnið að því að draga úr kostnaði sjúklinga og bæta aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu um land allt

Árangurinn sem náðst hefur á síðustu árum eins og lægri greiðslubyrði sjúklinga, styttri biðlistar, bætt aðgengi og uppbygging nýrra innviða er nú í hættu.

Sem þingmaður utan höfuðborgarsvæðisins finnst mér sérstaklega mikilvægt að árétta að heilbrigðisþjónusta þarf að standa jafnfætis fyrir alla landsmenn. Afturförin sem hefur orðið í málaflokknum bitnar þó einna harðast á landsbyggðinni þar sem hver einasta skerðing þýðir að fólk þarf annaðhvort að ferðast lengra eða bíða lengur eftir nauðsynlegri þjónustu.

Stjórnvöld verða að endurskoða forgangsröðun sína í heilbrigðismálum.

Það er tímabært að endurvekja þá hugsjón sem byggði upp heilbrigðiskerfið: að það sé fyrir fólkið, ekki kerfið sjálft.

Að annars vegar læknirinn, sjúkraþjálfarinn og hjúkrunarfræðingurinn hafi svigrúm til að sinna starfi sínu og hins vegar að sjúklingurinn viti að hann fái þá þjónustu sem hann þarf, án þess að þurfa að greiða sífellt meira úr eigin vasa.

Það er mikilvægt að eiga gott samtal og samvinnu, fjárfesta í mannauði, semja við fagstéttirnar af virðingu, lækka kostnað sjúklinga og bæta aðgengi að þjónustu, sama hvar á landinu fólk býr. Heilbrigðiskerfið á ekki að vera vettvangur niðurskurðar eða valdabaráttu, heldur sameiginlegt verkefni okkar allra í þágu landsmanna. Öflug og aðgengileg heilbrigðisþjónusta er grundvallaratriði fyrir velferð þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót í sjálfs­vígs­for­vörnum

Deila grein

29/09/2025

Tíma­mót í sjálfs­vígs­for­vörnum

Gulur september er helgaður geðrækt og sjálfsvígsforvörnum, samvinnuverkefni fjölmargra stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að forvörnum. Ástæðan er einfaldlega sú að málefnið snertir okkur öll sem samfélag. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana (s.s. lyfja- eða fíkniefnaofskammta) eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á aðstandendur, fjölskyldur og samfélagið í heild. Reynsla og rannsóknir sýna að hver einstaklingur sem sviptir sig lífi skilur eftir sig stóran hóp syrgjenda og ástvina.

Áhrif á samfélagið

Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar verða að meðaltali 135 manns fyrir áfalli eða sambærilegum áhrifum í kjölfar eins sjálfsvígs. Talið er að um sex þúsund Íslendingar verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári en tíðni sjálfsvíga hér á landi hefur staðið í stað um langt skeið.

Þetta gerist þrátt fyrir ýmis fyrirbyggjandi úrræði og vinnu sem þegar eru til staðar. Við verðum því að gera betur og leita nýrra leiða til að fækka sjálfsvígum. Einn mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni er að afla betri þekkingar á orsakaferlinu sem leiðir til sjálfsvíga og óhappaeitrunar, þannig að hægt sé að grípa fyrr inn í og bjarga mannslífum.

Rannsókn á orsakaferli

Af þessari ástæðu lagði ég upphaflega fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Nú hefur þessi tillaga verið lögð fram í þriðja sinn, uppfærð í hvert skipti í takt við þróun mála.

Þingsályktunartillaga sama efnis var fyrst flutt á Alþingi árið 2023endurflutt 2024 með nokkrum breytingum og er nú lögð fram að nýju haustið 2025. Í millitíðinni hefur starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hafið einmitt þá vinnu sem tillagan fjallaði um.

Markmið tillögunnar

Tillagan gengur því nú út á að styðja þetta mikilvæga rannsóknarverkefni, tryggja að það hafi nauðsynlegt fjármagn og stuðning til að vinna úr þeim gögnum sem safnað hefur verið svo rannsóknin skili sem bestum árangri. Markmiðið er að fá áreiðanlegar niðurstöður um hvaða áhættuþættir og atburðir eru til staðar í aðdraganda sjálfsvíga og banvænna ofskammta, og hvernig megi nýta þá vitneskju til að móta markvissar forvarnir.

Breið pólitísk samstaða

Það er óhætt að segja að málið hafi hlotið óvenju breiða samstöðu. Þingheimur hefur nánast allur sameinast á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýnir fram á mikilvægi hennar. Slíkur stuðningur allra þingflokka og þingmanna er fáheyrður og fyrir það er ég innilega þakklát.

Frá orðum til aðgerða

Ég fagna því sérstaklega að finna hljómgrunn hjá framkvæmdavaldinu fyrir þessu mikilvæga máli. Þegar tillagan var rædd í þinginu tók heilbrigðisráðherra jákvætt í málið, og nýlega lýsti hún því yfir að ráðist verði í að rannsaka sjálfsvíg á Íslandi betur, fyrst um sinn afturvirkt til ársins 2020.

Nánar tiltekið vonast ráðherra til að í framtíðinni verði einnig hægt að kanna hvert einstakt tilfelli í þaula, til að sjá hvort eitthvað hefði mátt fara öðruvísi og draga af því lærdóm. Þessi yfirlýsing heilbrigðisráðherra þýðir að vilji stjórnvalda stendur nú til þess sama og við á Alþingi höfum kallað eftir.

Jafnframt kynnti heilbrigðisráðuneytið í mars sl. nýja aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum með 26 aðgerðum og er sú vinna þegar hafin. Með slíku átaki og áherslu á úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu er ljóst að málaflokkurinn hefur fengið nauðsynlega athygli og forgang.

Næstu skref

Nú reynir á að fylgja þessu eftir af fullum krafti. Rannsóknarverkefni Lífsbrúar þarf að njóta alls þess stuðnings sem til þarf svo gögnin verði rétt og ítarlega greind og niðurstöður liggi fyrir sem fyrst. Síðan þarf að hrinda tillögum í framkvæmd án tafar.

Með vísindalega ígrunduðum forvörnum getum við snúið við þeirri þróun að sjálfsvígstíðni standi í stað eða fari vaxandi. Markviss inngrip, aukið aðgengi að sálrænum stuðningsúrræðum og vakandi augu okkar allra geta skipt sköpum. Gulur september minnir okkur á að við eigum að hlúa að andlegri heilsu, alla mánuði ársins. Ef við höldum áfram að vinna saman, deila þekkingu og sýna hugrekki til að ræða opinskátt um sjálfsvíg, þá getum við, sem samfélag, komið í veg fyrir að fleiri fjölskyldur upplifi þann óbætanlega missi sem fylgir þessum harmleikjum. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að berjast gegn sjálfsvígum og bjarga mannslífum.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárlög 2026: Missum ekki tækifærið

Deila grein

22/09/2025

Fjárlög 2026: Missum ekki tækifærið

Það er stundum sagt að vextir séu eins og þyngdarafl. Þeir toga alla niður á við, bæði heimili og ríkissjóð. Ríkið ver tugum milljarða í vaxtagreiðslur á hverju ári, um 125 milljarða árið 2026, og ekki er útlit fyrir að þessar greiðslur lækki á næstu árum.

Fjölskyldur búa við svimandi vaxtabyrði af húsnæðislánum sínum og fyrirtæki standa frammi fyrir fjármögnunarkostnaði sem er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Þetta dregur þróttinn úr hagkerfinu og skerðir möguleika okkar til að hraða t.a.m. innviðauppbyggingu og byggja upp sjálfbæra framtíð.

Veruleg tekjuaukning skapar sögulegt svigrúm

Hallinn árið 2026 er áætlaður um 15 milljarðar, sem er minna en eitt prósent af heildarútgjöldum ríkisins. Þetta er tiltölulega lítill halli en hann er táknrænn. Tækifærið sem við höfum til að ná jafnvægi tekna og gjalda er stórt.

Áætlað er að tekjur ríkisins muni aukast um 80 milljarða umfram áætlun árið 2025 og verða 27 milljörðum meiri árið 2026 en gert var ráð fyrir. Þetta eru jákvæðar fréttir. Þessi tekjuauki jafngildir rekstri heilbrigðisstofnana, menntaskóla eða viðbót við innviðauppbyggingu í nokkur ár.

Aðalatriði er þó að þessi tekjuaukning veitir einstakt svigrúm til að koma í veg fyrir hallarekstur strax á árinu 2026 án þess að skerða grunnþjónustu.

Hallalaus fjárlög skipta okkur öll máli

Hallalaus fjárlög 2026 væru ekki bara jákvæðar fréttir fyrir þá sem skulda, sem við flest gerum. Þau væru ein sterkustu skilaboð um aga og ráðdeild sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér í áraraðir á sviði efnahagsmála. Þau myndu styrkja trúverðugleika ríkisfjármála, bæta verðbólguhorfur og flýta verulega fyrir vaxtalækkunum Seðlabankans.

Fyrir heimilin og fyrirtækin myndi þetta þýða lægri vexti, bætt lánskjör og aukið svigrúm til fjárfestinga. Þetta er verkefni sem allir ættu að sameinast um.

Raunhæfar leiðir

Það þarf ekki róttækan niðurskurð til að ná hallalausum fjárlögum. Hægt er að fresta framkvæmdum sem ekki eru brýnustu forgangsmál e.t.v. um eitt ár. Þá má velta fyrir sér þeim möguleika að endurskoða skattkerfið til skemmri og lengri tíma og draga úr undanþágum. Það er svo mikið í húfi að við verðum að gera betur. Vafalaust mun þetta verða rætt ásamt öðru fram að 2. umræðu frumvarps til fjárlaga.

Svo má ekki gleyma því að fjármögnunarkostnaður ríkisins myndi lækka verulega við endurfjármögnun lána og skuldbindinga um leið og verðbólguvæntingar batna. Í því felst milljarða sparnaður fyrir ríkissjóð.

Nýtum tækifærið

Fjárlög 2026 geta orðið hallalaus. Það væri ekki aðeins hagræn niðurstaða heldur söguleg yfirlýsing um aga, stöðugleika og ábyrgð gagnvart framtíðarkynslóðum. Slík niðurstaða væri til marks um að þjóðin geti staðið saman þegar mest á reynir líkt og gert var í þjóðarsáttinni á níunda áratugnum.

Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri. Spurningin er hvort stjórnvöld og stjórnarandstaða, atvinnulíf og verkalýðshreyfing, fjölskyldur og fyrirtæki taki höndum saman. Ef allir leggja sitt af mörkum getum við tryggt hallalaus fjárlög 2026 og skapað traustari framtíð fyrir Ísland.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 20. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Börn sem skilja ekki kennarann

Deila grein

16/09/2025

Börn sem skilja ekki kennarann

Á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg fjölgun á börnum og ungmennum á Íslandi sem hefja skólagöngu með engan grunn eða þekkingu á íslensku tungumáli. Þrátt fyrir góða viðleitni hefur menntakerfið ekki náð að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til náms. Það á bæði við um þau sem flytja til landsins og þau sem fyrir eru.

Hér stöndum við frammi fyrir kjarna­spurningu: Viljum við að börn hefji nám í bekkjum þar sem þau skilja hvorki kennara né samnemendur?

Sýnum kjark

Við eigum að hafa kjark til að setja skýrar kröfur, kjark til þess að setja skýr og greinileg markmið og fylgja þeim eftir. Kröfur um að allir sem vilja búa hér læri tungumálið og hafi til þess raunveruleg tækifæri!

Það er eðlilegt að allir sem ætla sér að búa hér læri íslensku en jafnframt ber okkur skylda til að tryggja að þau hafi raunhæfan möguleika til þess. Íslenskukunnátta er lykilforsenda þess að taka þátt í samfélaginu og öðlast sjálfstæði. Það að nemandi hafi grunnfærni í íslensku áður en hann kemur inn í bekkjarkennslu skiptir öllu máli, fyrir barnið sjálft, fyrir kennarann og ekki síst fyrir bekkinn í heild.

Ávinningurinn er augljós. Slík krafa gagnast ekki aðeins nýbúabörnunum sjálfum heldur kemur slíkt vinnulag einnig til móts við aðra nemendur. Kennarar hafa rætt um að ólík verkefni innan kennslustofunnar hafi aukið álag verulega. Með því að nemendur fái aukinn stuðning í íslenskunámi mun hinn almenni kennari bæði finna það í bættum árangri barnsins sem ekki á íslensku sem heimamál (móðurmál) en um leið gefa kennaranum aukið svigrúm í sinni kennslu og aukna athygli í öðrum verkefnum kennslunnar.

Öxlum ábyrgð

En það er ekki nóg að setja kröfur á börnin. Við verðum einnig að setja kröfur á okkur sjálf. Við verðum að tryggja að til sé fjölbreytt og aðgengilegt kennsluefni í íslensku sem öðru máli, tilbúið þegar nýjar fjölskyldur flytja til landsins. Við verðum að mennta og endurmennta kennara með sérhæfingu á þessu sviði, styðja þá í verki og útvega þeim verkfæri til að fylgjast með framvindu nemenda og grípa tímanlega inn í.

Þetta krefst fjármagns en til lengri tíma er þetta fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. Snemmbær tungumálastuðningur dregur úr brottfalli, eflir sjálfstæði barna og stuðlar að virkri samfélagsþátttöku til framtíðar. Fjármunir sem varið er í góða aðlögun skila sér margfalt til baka í formi betri menntunar, aukinnar atvinnuþátttöku og minni félagslegs kostnaðar.

Lærum af nágrönnum okkar

Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið þegar kemur að góðum lausnum. Í Danmörku hefur verið þróað kerfi sem tryggir börnum markvissan tungumálastuðning strax við komuna í landið, áður en þau hefja nám í hefðbundnum skóla. Reynslan í Danmörku sýnir að þetta skilar sér í árangri, fleiri börn ná góðum tökum á dönsku og verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Við eigum ekki að hræðast að setja kröfur um íslenskukunnáttu. Þvert á móti, það er réttur hvers barns að skilja og geta verið virkur þátttakandi. En við berum einnig skyldu til að tryggja kennurum stuðning, aðgengileg námsgögn og stöðugt fjármagn. Þannig fá nýkomin börn öflugan undirbúning og ganga inn í almenna bekki með raunhæfan grunn til að blómstra. Einnig berum við skyldu að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms og þeir nemendur sem fyrir eru í bekkjum fái jafna athygli og stuðning frá kennurnum. Það er besta leiðin til að styrkja bæði börnin sjálf og samfélagið í heild.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Stærsta kjara­bót ör­yrkja í ára­tugi

Deila grein

01/09/2025

Stærsta kjara­bót ör­yrkja í ára­tugi

Í dag taka gildi umfangsmiklar breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfi almannatrygginga. Þetta er stórt skref sem markar þáttaskil fyrir fólk með skerta starfsgetu, breyting sem byggir á margra ára vinnu, samráði við fagfólk og ekki síst á ábendingum og baráttu Öryrkjabandalags Íslands. Lagabreytingin var samþykkt í júní 2024 af þáverandi ríkisstjórn. Það er ánægjulegt að sjá að breið sátt hefur náðst um þessa kerfisbreytingu, enda hefur ákall um umbætur verið hávær í áratugi.

Markmið nýja kerfisins er einfalt en skýrt: að tryggja manneskjulegri og sanngjarnari þjónustu, bæta kjör lífeyrisþega, draga úr tekjutengingum og skapa raunverulega hvata til þátttöku á vinnumarkaði. Um leið er lögð áhersla á betri endurhæfingu, samfellu í þjónustu og að enginn falli lengur á milli kerfa.

Breytt viðhorf í nýju hlutverki

Það er athyglisvert að sjá hversu breið sátt hefur myndast um þessar breytingar. Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, sem lengi hafði lýst yfir áhyggjum af breytingunum, hefur nú tekið heilshugar undir mikilvægi þeirra. Hún kallar þær 18 milljarða króna árlegu kjarabætur sem nýja kerfið felur í sér „mestu kjarabætur sem þessi hópur hefur fengið í áratugi.“

Þessi viðhorfsbreyting undirstrikar að stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkar standa saman um að hrinda þessum lausnamiðuðu breytingum í framkvæmd. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að margir komu að mótun kerfisins. Framsóknarflokkurinn á hér sína sögu; félagsmálaráðherrar úr okkar röðum hófu undirbúning að heildarendurskoðun kerfisins, lögðu grunn að samþættingu þjónustu og nýju matskerfi og nú hefur sú vinna skilað sér í breiðri sátt um úrbætur.

Heildstætt stuðningskerfi til menntunar og þátttöku

Þrátt fyrir jákvæðar breytingar er ljóst að enn er verk að vinna. Nýja kerfið tryggir öryggi og afkomu, en við þurfum líka að byggja upp fleiri tækifæri. Undirrituð hefur lagt fram tillögu um að koma á fót heildstæðu stuðningskerfi sem auðveldar öryrkjum að stunda menntun og endurmenntun.

Menntun er lykill að þátttöku og nýjum tækifærum. Hún skapar sjálfstæði, eykur lífsgæði og gerir fleirum kleift að nýta getu sína til fulls. Stuðningskerfið sem tillagan leggur til myndi tryggja fjárhagslegt öryggi á meðan fólk er í námi, veita ráðgjöf og eftirfylgni og skapa sveigjanleika á milli menntunar, endurhæfingar og atvinnuþátttöku.

Með slíku kerfi gætum við byggt ofan á þær umbætur sem nú taka gildi og gert þær enn áhrifaríkari. Þannig tryggjum við að fólk með einhverja starfsgetu hafi raunveruleg tækifæri til að nýta hana, með öryggi og sveigjanleika.

Allir með í samfélaginu

Lengi má gott bæta og ljóst er að kerfi eins og örorkulífeyriskerfið er gott dæmi um eitthvað sem verður ekki fullkomið. Það er í höndum okkar stjórnmálamanna að tryggja það að kerfið verði stöðugt í endurskoðun því það er nauðsynlegt að fólk sem er á örorkulífeyri hafi trygga afkomu. Í heildina litið eru breytingarnar jákvæðar og lausnamiðaðar. Þær bæta kjör langstærsta hluta lífeyrisþega og tryggja að fólk fái þann stuðning sem það þarfnast á hverjum tímapunkti. Þær eru líka vitnisburður um að hægt er að ná breiðri pólitískri sátt þegar markmiðið er skýrt og allir leggja sitt af mörkum.

Það er okkar sameiginlega ábyrgð að fylgja þessum breytingum eftir, svo kerfið mæti þörfum einstaklingsins og virki í framkvæmd.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2025.