Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Deila grein

07/04/2025

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er fátt sem sameinar okkur eins og þegar íslenskt íþróttafólk stígur inn á stóra sviðið erlendis. Flest þekkjum við tilfinninguna þegar við setjumst saman fyrir framan sjónvarpið, klædd í landsliðstreyju, með hjartað í buxunum og full af stolti. Við hvetjum íþróttafólkið okkar áfram, lifum okkur inn í leikinn. Fögnum þegar vel gengur, syrgjum saman og styðjum okkar fólk – sama hvar það er í heiminum. Við stöndum saman sem þjóð.

Dýrmætt starf sjálfboðaliða

En það gleymist stundum að í hvert skipti sem íslenskur íþróttamaður stendur á sviðinu, þá standa ótal sjálfboðaliðar að baki hans – ósýnilegir en ómissandi. Á bak við hvert mark, hverja medalíu og hvern leik liggur þrotlaus vinna sem á sér rætur í hverfinu heima. Á íþróttasvæðinu, í félagsheimilinu, á æfingunni, á mótunum – þar eru sjálfboðaliðarnir mættir til að aðstoða, skipuleggja, keyra, moka snjó af vellinum, setja upp rásir, selja vöfflur og svo margt fleira – allt án þess að fá borgað fyrir. Án þessa fólks væru engin landslið – og ekkert EM.

Áætlað er að sjálfboðaliðar í íþróttum vinni um 7,7 milljónir klukkustunda á ári. Verðmæti þeirrar vinnu er metið á yfir 15 milljarða króna á ári ef miðað er við tímagjald upp á um 1.950 kr. Þetta er byggt á greiningum og svörum félaga innan ÍSÍ og UMFÍ og birtist í skýrslu ÍSÍ um sjálfboðaliða 2024. Þetta sýnir svart á hvítu að íslenskt íþróttastarf stendur og fellur með þessu gríðarlega ólaunaða framlagi. Í raun er þetta stærsti „sjóðurinn“ sem hreyfingin byggir á – og hann er algjörlega háður vilja fólks til að gefa vinnu sína. Þó að starfið hafi haldist öflugt lengi, þá standa blikur á lofti.

Stöndum með sjálfboðaliðunum okkar

Vísbendingar eru um að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa en áður. Sérstaklega í ábyrgðarhlutverk eins og stjórnir og nefndir, fá fólk til að sjá um viðburði og halda utan um starfið. Hluti þess skýrist af auknum kröfum og væntingum – en einnig af því að sjálfboðaliðar búa oft við óljósa réttstöðu og takmarkaðan stuðning. Það dregur úr vilja fólks til þátttöku ef það veit ekki hvaða ábyrgð það ber – eða hvort það fái aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Þess vegna lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu um aukið réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum úr öllum lykilstofnunum viljum við greina stöðuna, skýra ábyrgð, bæta tryggingavernd, efla fræðslu og styðja við sjálfboðaliða með markvissum hætti.

Það þarf að tryggja að tryggingar séu til staðar – bæði gegn slysum og mögulegri ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis. Að verklýsingar séu skýrar. Að fræðsla og þjálfun sé aðgengileg. Að fólk viti hvað er verið að fara fram á – og hvað það fær til stuðnings. Það mun auka öryggi, draga úr brottfalli og ekki síst – hvetja fleiri til þátttöku.

Við viljum nefnilega hvetja fleiri til þátttöku. Það gerum við með því að gera hlutverk sjálfboðaliða skýrara, bjóða upp á handbækur, kynningar, aðgengi að upplýsingum – og ekki síst: sýna þakklæti. Það getur verið í formi viðurkenninga, fríðinda eða einfaldlega þess að einhver segi „takk fyrir“.

Íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að missa þetta fólk

Það er auðvelt fyrir okkur að fagna og hvetja áfram okkar afreksfólk og landslið Íslands. Við stöndum þétt saman þegar að þau keppa úti í heimi. En til að landsliðið verði til þurfa tugir, jafnvel hundruð sjálfboðaliða að hafa staðið vaktina árum saman. Nú er tími til kominn að við stöndum með fólkinu sem vinnur ósýnilegu vinnuna til að ryðja veginn svo afreksfólkið okkar geti haldið áfram að láta ljós sitt skína og skila árangri í hús.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Deila grein

03/04/2025

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að sérstök áhersla verði lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu og styðja fjölbreytt rekstrarform. Þessi loforð eru innantóm, því fyrsta stórtæka aðgerðin í geðheilbrigðismálum nýrrar ríkisstjórnar er að loka Janusi endurhæfingu – úrræði sem hefur í 25 ár þjónustað einn viðkvæmasta hóp samfélagsins; ungt fólk með alvarlegan geðrænan og félagslegan vanda.

Þetta eru ungmenni sem hafa dottið út úr skóla og vinnu. Mörg þeirra með greiningu á einhverfurófi, þunglyndi, kvíða, áfallasögu og félagslega einangrun að baki. Þau hafa leitað víða í kerfinu – og fengið þau svör að úrræði sniðið að þeirra þörfum sé ekki til staðar. Í Janusi endurhæfingu hafa þau fundið skjól, fundið von og náð árangri. Rúmlega 56% (meðaltal) þeirra sem hafa lokið þjónustu síðastliðin 3 ár hafa farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit. Þjónustan sem Janus veitir skjólstæðingum sínum er veitt af sérfræðiteymi með sértæka þekkingu undir forystu geðlæknis með áratuga reynslu. Janus er einstök, þverfagleg og samhæfð þjónusta, sem finnst hvergi annarsstaðar í kerfinu.

Úrræðinu lokað – ekkert sambærilegt tekur við

Nú á að leggja þessa þjónustu niður. Starfsfólki hefur verið sagt upp. Engin sambærileg lausn er tilbúin. Fjöldi ungmenna – sem og þeir sem bíða eftir plássi – standa eftir í algjöru tómarúmi, óvissan um framtíðina þjakar aðstandendur þeirra líka.

Í fyrirspurn á Alþingi á dögunum, spurði ég heilbrigðisráðherra út í hvað taki við fyrir þetta unga fólk. Engin skýr svör fengust. Ekki hvar, ekki hvenær, ekki hvernig! Ekki einu sinni viðurkenning á því hversu alvarleg staðan er þegar ljóst er að ekkert úrræði mun taka á móti þessum viðkvæma og jaðarsetta hópi með sama hætti.

Það sem er einnig alvarlegt er að hvorki heilbrigðisráðherra né stjórnarþingmenn hafa sýnt því sóma að kynna sér starfsemi Janusar endurhæfingar á vettvangi. Fulltrúar Janusar endurhæfingar hafa boðið ráðherrum að koma og skoða aðstöðuna, kynna sér starfsemina. En engin heimsókn hefur orðið að veruleika. Þögnin er ærandi. Ábyrgðarleysið augljóst.

Fagfólk varar við

Geðlæknafélagið, Píeta samtökin, Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og fleiri hafa varað við að úrræði á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs – sem nú eiga að taka við hlusta af þjónustunni – hafi ekki þá fagþekkingu sem til þarf. Ungmennin sem Janus endurhæfing þjónustar eru ekki tilbúin í hefðbundin atvinnutengd úrræði – þau þurfa fyrst geðræna endurhæfingu, í öruggu og samþættu umhverfi veitta af fagaðilum með sértæka þekkingu, reynslu og tryggum aðgangi að geðlækni.

Það er erfitt að sjá þessa ákvörðun sem annað en hugmyndafræðilega aðför að einkaframtaki. Það læðist að grunur – sem ekki er úr lausu lofti gripinn – að ef Janus endurhæfing hefði verið ríkisrekið úrræði, þá væri þetta ekki að gerast. En hér er það ekki kerfið sem þarf að verja – heldur unga fólkið.

Í þjónustukönnunum og viðtölum lýsa þátttakendur hvernig Janus endurhæfing hefur bjargað lífi þeirra, veitt þeim tilgang, sjálfstraust og nýja byrjun. Foreldrar ungmenna segja frá því að þar hafi þau loksins fundið stað sem skilur þarfir barnanna þeirra. Hvers konar samfélag lítur fram hjá þessari reynslu?

Það er siðferðilega rangt – og faglega ábyrgðarlaust – að loka virku úrræði án þess að annað jafngott sé tilbúið. Það er ekki boðlegt að færa slíka þjónustu yfir í almennara kerfi án mats, aðlögunar eða raunverulegs samtals við þá sem þekkja þjónustuna best.

Enn er glugginn opinn

En það er enn tími til stefnu. Heilbrigðisráðherra getur snúið frá þessari ákvörðun. Hún getur gert bráðabirgðasamning, tryggt áframhaldandi starfsemi á meðan unnið er að framtíðarsýn í samstarfi við fagfólk, notendur og aðstandendur.

Við eigum ekki að fórna framtíð ungs fólks fyrir kerfisreglur. Við eigum ekki að þegja þegar þjónusta sem virkar er tekin niður – af því hún er ekki hluti af stóru opinberu myndinni. Við verðum að láta í okkur heyra. Vegna þeirra sem ekki fá rödd – og vegna þess sem í húfi er.

Ef Janusi endurhæfingu verður lokað – þá er það í boði stjórnarmeirihlutans. Ráðamenn bera þá ábyrgð – bæði pólitíska og siðferðilega.

Unga fólkið okkar hefur stofnað undirskriftalista til að mótmæla þessari aðför að lífsbjargandi úrræði þeirra. Sýnum stuðning í verki;

https://island.is/undirskriftalistar/ace3bde9-f921-4833-b2ff-21e966be072d

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar

Að­för að lands­byggðinni – og til­raun til að slá ryki í augu al­mennings

Deila grein

31/03/2025

Að­för að lands­byggðinni – og til­raun til að slá ryki í augu al­mennings

Það er ekki hægt að tala um sátt í sjávarútvegi þegar aðgerðir stjórnvalda beinast ekki gegn þeim sem bera mesta ábyrgð heldur bitna í reynd á fólkinu og byggðunum sem atvinnugreinin heldur uppi.

Áform ríkisstjórnarinnar um aukna skattlagningu í sjávarútvegi eru kynnt eins og ráðist sé gegn stórútgerðinni. En þegar grannt er skoðað kemur annað í ljós: það er ekki stórútgerðin sem verður fyrir mestu höggi heldur smærri útgerðir, vinnslur og samfélög í dreifðum byggðum landsins.

Sem dæmi má nefna sveitarfélög líkt og Grýtubakkahrepp, Langanesbyggð og Vopnafjörð sem reiða sig að miklu leyti á útgerð og vinnslu sem helstu stoðir atvinnulífsins. Útsvarstekjur, störf og samfélagsleg velferð byggjast á þeirri starfsemi. Þegar höggið kemur utan frá – í gegnum illa ígrundaðar skattabreytingar sem ekki hafa verið metnar til fulls – þá hefur það ekki eingöngu áhrif á stórútgerðina heldur bitnar fyrst og fremst á fjölskyldum sem sjá fram á óvissu með framtíðina í sinni heimabyggð.

Það er ábyrgð stjórnvalda að meta áhrif aðgerða áður en þau verða að lögum. Það hefur ekki verið gert. Engin heildstæð greining liggur fyrir á áhrifum breytinganna á atvinnulíf í smærri byggðarlögum, engin úttekt á rekstrargrundvelli vinnslufyrirtækja sem nú standa frammi fyrir nýjum álögum. Slíkt verklag er bæði óábyrgt og óboðlegt.

Við í Framsókn höfum ítrekað bent á að svigrúm sé til aukinna auðlindagjalda – en slíkar breytingar verða að byggjast á vandaðri greiningu, fyrirsjáanleika og samstöðu. Sjávarútvegurinn er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs. Viljum við í alvöru taka slíka stoð og raska rekstraröryggi hennar með óundirbúnum hætti?

Það sem verra er – það virðist ekki einu sinni hafa verið raunverulegur vilji til samráðs við hagsmunaaðila áður en málið var kynnt. Þetta mál er eitt stærsta hagsmunamál síðari ára og á sama tíma leyfir núverandi ríkisstjórn sér að takmarka verulega umsagnarfrest. Þegar upp er staðið má setja spurningarmerki hvort raunverulegur samvinnuvilji sé yfirhöfuð fyrir hendi. Slíkt er að mínu mati áfellisdómur yfir verklagi stjórnvalda.

Maður spyr sig, af hverju liggur svona á, þetta mál er risavaxið og algerlega óljóst á þessum tímapunkti hvaða áhrif þetta muni hafa til lengri tíma. Auðlindin á að vera í eigu þjóðarinnar, fyrir hana á að greiða sanngjarnt verð, um það eru allir sammála. En til að ná langþráðri sátt um sjávarútveginn og þeim álögum sem við teljum réttlætanlegt að hann beri, verðum við að byggja umræðuna á staðreyndum, hafa öll gögn upp á borði og vanda okkur áður en lengra er haldið.

Við getum gert betur. Við eigum að gera betur.

Ingibjörg Isaksend, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging hjúkrunarheimila á Íslandi

Deila grein

14/03/2025

Uppbygging hjúkrunarheimila á Íslandi

Upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila hef­ur verið eitt brýn­asta verk­efnið í ís­lensku vel­ferðar­kerfi und­an­far­in ár. Með hækk­andi meðal­aldri þjóðar­inn­ar vex þörf­in fyr­ir hjúkr­un­ar­rými hratt, en fram­kvæmd­in hef­ur því miður reynst hæg. Fram­kvæmda­áætl­un til árs­ins 2028 var lögð fram af fyrri rík­is­stjórn með það að mark­miði að bæta úr skorti á hjúkr­un­ar­rým­um, strax á þessu ári. Nú þegar ný rík­is­stjórn hef­ur tekið við vakn­ar spurn­ing­in hvort þau muni fylgja þeirri stefnu og tryggja fram­gang verk­efn­is­ins eða gera breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lag­inu.

Í síðustu viku lagði ég fram fyr­ir­spurn til fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra um hvernig ný stjórn­völd hygðust tryggja raun­hæfa og tím­an­lega upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila. Ég benti á mik­il­vægi póli­tísks vilja svo fjár­magn fylgdi sett­um mark­miðum. Því var mik­il­vægt að fá skýr svör um hvort ný rík­is­stjórn hygðist fylgja áætl­un­inni eða hvort stefnu­breyt­ing væri fyr­ir­huguð.

Hver er staðan nú?

Sam­kvæmt ný­legri skýrslu um fram­kvæmda­áætl­un hjúkr­un­ar­heim­ila er ljóst að á næstu árum þarf að byggja og bæta yfir 900 hjúkr­un­ar­rými, þar af fjölg­un um 724 rými. Á þessu ári er gert ráð fyr­ir um 250 nýj­um hjúkr­un­ar­rým­um, þar á meðal á Boðaþingi og Nesvöll­um sem verða opnuð með vor­inu og búið er að leigja aðstöðu í Urðar­hvarfi.

Ný verk­efni eins og hjúkr­un­ar­heim­ili á Ak­ur­eyri, í Húsa­vík, Pat­reks­firði og á höfuðborg­ar­svæðinu voru á dag­skrá fyrri rík­is­stjórn­ar þar sem fara átti svo­kallaða leigu­leið til að flýta fyr­ir fram­kvæmd­um.

Fram­kvæmd­ir og framtíðar­sýn

Ein af lyk­il­spurn­ing­um sem ég beindi til ráðherra var hvort rík­is­stjórn­in ætlaði að fylgja þeirri stefnu fyrri rík­is­stjórn­ar að nota leigu­leiðina til að hraða upp­bygg­ingu. Þessi aðferð fel­ur í sér að ríkið aug­lýs­ir eft­ir fast­eigna­fé­lög­um eða bygg­ing­araðilum til að reisa og reka hjúkr­un­ar­heim­il­in, en ríkið tek­ur þau síðan á lang­tíma­leigu. Þetta hef­ur reynst skila skjót­ari ár­angri en hefðbund­in fram­kvæmda­leið.

Svar ráðherra var óljóst, sagði þau vera að vinna verkið og fram­kvæma en svaraði engu til með leigu­leiðina. Þetta lof­orð um fram­kvæmd er án efa já­kvætt, en það þarf að tryggja að skýr­ar fjár­veit­ing­ar og samn­ing­ar fylgi með. Án fjár­magns og sam­stöðu rík­is og sveit­ar­fé­laga geta fram­kvæmd­ir taf­ist óþarf­lega, eins og dæm­in sanna. Ég mun áfram fylgj­ast náið með hvernig þess­ar fram­kvæmd­ir þró­ast, því það skipt­ir máli að eldri borg­ar­ar okk­ar fái þann stuðning og þá umönn­un sem þeir eiga skilið.

Á næstu árum mun eft­ir­spurn eft­ir hjúkr­un­ar­rým­um aðeins aukast. Fyr­ir­spurn mín til ráðherra var því ekki bara spurn­ing um fram­kvæmda­áætlan­ir, held­ur um sam­fé­lags­lega ábyrgð. Nú er það verk­efni rík­is­stjórn­ar­inn­ar að láta verk­in tala og munu næstu mánuðir leiða í ljós hvort hún ætl­ar að standa við lof­orð og tryggja að upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila verði ekki aðeins orð á blaði held­ur áþreif­an­leg­ur veru­leiki.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að komast frá mömmu og pabba

Deila grein

10/03/2025

Að komast frá mömmu og pabba

Að kaupa sína fyrstu fasteign er stórt og spennandi skref, en fyrir marga unga Íslendinga virðist það oft vera nánast ómögulegt verkefni. Hátt fasteignaverð, strangar lánareglur og síhækkandi daglegur kostnaður hafa gert það að verkum að mörg ungmenni eiga erfitt með að kaupa sína fyrstu íbúð án aðstoðar. En stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að auðvelda fyrstu kaupendum að komast inn á fasteignamarkaðinn. Með réttum úrræðum og stefnu sem miðast við raunveruleika fólks er hægt að brjóta niður þessar hindranir og tryggja að fleiri geti eignast sitt eigið heimili. Úrræðin nýtast okkur þó ekki ef við vitum ekki af þeim. Förum aðeins yfir þau úrræði sem standa okkur til boða í dag:

Húsnæðislán og stuðningsúrræði: Hvað er í boði?

Ein stærsta hindrunin fyrir fyrstu kaupendur er að geta fengið lán á viðráðanlegum kjörum. Bankarnir setja oft ströng skilyrði sem gera það erfitt fyrir ungt fólk að komast inn á fasteignamarkaðinn. Þess vegna hafa stjórnvöld komið með nokkur úrræði til að auðvelda fólki fyrstu kaupin:

1. Hlutdeildarlán – ríkið lánar í stað foreldra

Hlutdeildarlán eru úrræði sem Framsókn vann að og hjálpar þeim sem eiga ekki kost á aðstoð frá fjölskyldu við fasteignakaup. Í einföldu máli virkar þetta þannig að ríkið lánar hluta af kaupverðinu í stað þess að foreldrar leggi fram eigið fé.

Hér eru lykilatriðin:

  • Hlutdeildarlánin eru eingöngu fyrir fyrstu kaupendur eða þá sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár.
  • Ríkið lánar allt að 20% af kaupverði eignar, eða allt að 30% ef eignin er á landsbyggðinni.
  • Lánin eru vaxtalaus og þarf ekki að greiða af þeim mánaðarlega, ólíkt hefðbundnum bankalánum.
  • Lánin eru greidd til baka eftir 10 ár eða þegar eignin er seld, og þá miðað við verðmæti eignarinnar á þeim tíma.

Þetta úrræði hefur reynst mörgum vel og gert það mögulegt fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð án þess að þurfa að safna gífurlegum fjárhæðum fyrir útborgun.

2. Óverðtryggð lán með föstum vöxtum – nýtt frumvarp Framsóknar

Önnur stór áskorun fyrir unga fasteignakaupendur á Íslandi er að flest fasteignalán eru verðtryggð, sem þýðir að höfuðstóll lánsins getur hækkað yfir tíma. Í mörgum nágrannalöndum er algengt að fólk geti fengið óverðtryggð lán með föstum vöxtum til langs tíma, sem gerir greiðslubyrði fyrirsjáanlegri og tryggir stöðugleika í fjármálum heimila.

Framsókn hefur lagt fram frumvarp sem kallar eftir því að bankar verði skyldugir til að bjóða fasteignakaupendum óverðtryggð lán með föstum vöxtum til langs tíma. Þetta myndi þýða að fólk gæti tekið lán þar sem vextirnir eru fastir út lánstímann, og þannig haft betri yfirsýn yfir greiðslubyrði sína.

Þetta er mikilvæg breyting sem myndi gera fasteignamarkaðinn stöðugri og auðveldari fyrir ungt fólk að fóta sig á. Í dag geta vextir hækkað skyndilega og valdið miklum fjárhagsvandræðum, en með föstum vöxtum yrðu greiðslurnar alltaf þær sömu, sem eykur öryggi fasteignaeigenda.

Að nýta sér séreignarsparnað getur líka verið mikilvægur þáttur í að safna fyrir útborgun eða greiða niður lán, en stjórnvöld hafa framlengt úrræði sem gerir fólki kleift að nota þennan sparnað skattfrjálst til kaupa á fyrstu eign.

Að lokum – rétta leiðin að fyrstu eigninni

Að eignast sína fyrstu fasteign er áskorun, sérstaklega í núverandi efnahagsástandi, en ekki ómögulegt. Gott skipulag á fjármálum, rétt hugarfar og einhverjar fórnir eru nauðsynleg fyrstu skref, en það þarf oft meira til. Með nýtingu úrræða eins og hlutdeildarlána og séreignarsparnaðar og því að fylgjast með þróun markaðarins er hægt að finna tækifæri.

Framtíðin er einnig bjartari fyrir fyrstu kaupendur ef frumvarp Framsóknar um óverðtryggð lán með föstum vöxtum verður að veruleika. Með þessum breytingum yrði mun auðveldara að skipuleggja fasteignakaup, forðast sveiflur í greiðslum og byggja upp öruggt framtíðarheimili.

Lykilatriðið er að gefast ekki upp. Það getur tekið tíma að safna og finna réttu eignina, en með útsjónarsemi og nýtingu þeirra úrræða sem standa til boða geturðu komist í þína eigin íbúð og loksins sloppið úr leiguhringnum eða heiman frá foreldrunum.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Deila grein

04/03/2025

Fagnaðarskref – dropinn holar steininn

Það er ánægjulegt að sjá jákvæðar breytingar eiga sér stað í menntakerfinu okkar. Það er mikilvægt að sjá að þegar mál eru tekin af festu og af einlægum áhuga er hægt að ná fram raunverulegum breytingum. Á síðasta ári fékk ég símtal frá áhyggjufullu foreldri þar sem útlit var fyrir að barnið hans kæmist ekki í inntökupróf í læknisfræði sökum veðurs. Í framhaldi af þessu sendi ég inn fyrirspurn til fyrrverandi háskóla og nýsköpunarráðherra í tengslum við fjölgun próftökustaða til háskólanáms sem tengjast læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði en núverandi fyrirkomulag krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur.

Fyrsta skrefið í fjölgun próftökustaða

Nú ári síðar er verið að bregðast við þeirri áskorun og fyrsta skrefið verður tekið í vor að fjölga próftökustöðum.

Þetta er mikilvægt framfaraskref fyrir nemendur á landsbyggðinni. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, hvar sem þeir eru staddir á landinu enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.

Nemendur leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf og það er staðreynd að langar vegalengdir, aukinn ferðakostnaður og ófyrirsjáanleg veðurskilyrði geta skapað verulegar hindranir fyrir landsbyggðarnema sem vilja sækja háskólanám.

Áframhaldandi þróun og metnaður til framtíðar

Það er nauðsynlegt að við höldum áfram á þessari braut og metum árangurinn af þessari breytingu. Fyrstu skrefin eru tekin með því að bjóða upp á próftöku á Akureyri í vor, og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi reynsla nýtist sem vonandi leiðir til þess að próftökustöðum verður fjölgað enn frekar í framtíðinni. Staðir eins og m.a. Ísafjörður, Egilsstaðir og Hornafjörður hafa þegar reynslu af því að veita háskólaþjónustu og sjá um prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Markmiðið hlýtur að vera að byggja upp kerfi sem tryggir að nemendur um allt land hafi sömu möguleika til náms, óháð búsetu þeirra.

Jákvæð þróun í menntamálum

Stefna okkar í Framsókn er alveg skýr hvað þetta varðar, að tryggja öllum sama rétt og tækifæri til menntunar óháð aðstæðum. Þessi jákvæðu skref sýna að þegar tekið er á málum af festu og vilja er hægt að ná raunverulegum árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öðrum sem hafa unnið að þessari breytingu fyrir að hlusta og grípa til aðgerða. Það er von mín að þessi þróun haldi áfram og að fleiri framfaraskref verði tekin á næstu árum til að tryggja enn betra aðgengi að háskólanámi fyrir alla landsmenn.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 3. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Deila grein

17/02/2025

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er einn af hornsteinum íslensks velferðarkerfis og á að vera réttur allra landsmanna, óháð búsetu og efnahag. Þrátt fyrir að Ísland státi af öflugu heilbrigðiskerfi, standa íbúar landsbyggðarinnar enn frammi fyrir hindrunum sem borgarbúar þurfa ekki að takast á við. Ein af þessum hindrunum er ferðakostnaður við að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Sú staðreynd að ferðum einstaklinga hefur verið fjölgað úr tveimur í fjórar á síðasta kjörtímabili er mikið fagnaðarskref, en enn er verk að vinna til að tryggja raunverulegt jafnrétti í aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Ófullnægjandi fyrirkomulag

Einstaklingar á landsbyggðinni sem þurfa að ferðast til Reykjavíkur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eiga rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar gegn framvísun staðfestingar á læknisheimsókn. Þrátt fyrir að þetta úrræði sé mikilvægt, hefur komið í ljós að það er ekki alltaf sanngjarnt eða réttlátt. Tilvik hafa komið upp þar sem einstaklingar hafa ferðast langar vegalengdir í góðri trú, en læknistímar þeirra hafa verið afbókaðir með skömmum fyrirvara af hálfu heilbrigðisstofnana. Í slíkum tilfellum eru sjúklingar ekki einungis sviptir nauðsynlegri læknisþjónustu, heldur einnig réttinum til endurgreiðslu á ferðakostnaði.

Kostnaður vegna þjónustu sem ekki er veitt

Slíkt fyrirkomulag er ekki aðeins ósanngjarnt heldur veldur það fjárhagslegum kostnaði fyrir viðkomandi einstaklinga. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur verið umtalsverður, sérstaklega fyrir þá sem eru tekjulágir eða búa á afskekktum svæðum. Þegar einstaklingur hefur þegar lagt í för og læknistíminn fellur niður af ástæðum sem hann sjálfur ræður ekki við, er ekki réttlátt að hann beri kostnaðinn.

Til að tryggja sanngjarnara og réttlátara kerfi er nauðsynlegt að sjúklingar fái ferðakostnað endurgreiddan jafnvel þótt læknistími þeirra falli niður af hálfu heilbrigðisstofnana. Með því væri dregið úr fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og tryggt að landsbyggðarfólk hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á sömu eða amk. svipuðum forsendum og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er réttlætismál að sjúklingar sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlega meðferð njóti sanngjarnari meðferðar í endurgreiðslukerfinu.

Undirrituð vinnur að málinu

Undirrituð vinnur nú að framlagningu máls á Alþingi þar sem lagðar verða til breytingar á núverandi reglum um ferðakostnað sjúklinga. Markmiðið er að tryggja að þeir sem lenda í þeirri stöðu að læknistímar þeirra falli niður af ástæðum sem þeir ráða ekki við, eigi samt rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar.

Þessi breyting yrði mikilvægt skref í átt að raunverulegu jafnrétti innan heilbrigðiskerfisins og myndi stuðla að því að allir landsmenn njóti sama aðgengis að nauðsynlegri læknisþjónustu, óháð búsetu þeirra. Jafnrétti til heilbrigðisþjónustu má ekki einungis vera markmið á pappír – það verður að endurspeglast í framkvæmd kerfisins.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Baráttan gegn sjálfsvígum og óhappaeitrunum

Deila grein

05/02/2025

Baráttan gegn sjálfsvígum og óhappaeitrunum

Sam­kvæmt Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni verða að meðaltali um sex þúsund manns á Íslandi fyr­ir áhrif­um af sjálfs­víg­um á hverju ári. Þetta eru staðreynd­ir sem kalla á aðgerðir. Sjálfs­víg og and­lát vegna óhappa­eitr­ana eru viðkvæm­ir og sárs­auka­full­ir at­b­urðir sem hafa djúp­stæð áhrif á fjöl­skyld­ur, vini og sam­fé­lagið í heild.

Á síðasta ári lagði ég fram öðru sinni til­lögu til þings­álykt­un­ar um rann­sókn á or­saka­ferli í aðdrag­anda sjálfs­víga og dauðsfalla vegna óhappa­eitr­ana. Þing­heim­ur sam­einaðist þá all­ur á bak við til­lög­una, þvert á flokka, sem sýn­ir mik­il­vægi henn­ar sem og sam­stöðu okk­ar allra í því að vilja gera bet­ur. Ég bind von­ir við að slík samstaða verði einnig á nýju þingi þegar ég legg til­lög­una fram að nýju.

Mark­mið þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar er skýrt og bygg­ist á metnaðarfullri vinnu starfs­hóps Lífs­brú­ar, miðstöðvar sjálfs­vígs­for­varna á veg­um Embætt­is land­lækn­is: að greina ástæður og aðdrag­anda þess­ara hörmu­legu at­b­urða, tryggja að nauðsyn­leg gögn séu rann­sökuð og nýtt á mark­viss­an hátt og, um­fram allt, stuðla að því að bjarga manns­líf­um. Í dag er mik­ill skort­ur á áreiðan­leg­um gögn­um um þessi mál sem hægt er að byggja á í for­vörn­um og aðgerðaáætl­un­um en það er á ábyrgð okk­ar, sem sam­fé­lags, að breyta því.

Starfs­hóp­ur Lífs­brú­ar – mik­il­vægt fram­lag

Starfs­hóp­ur Lífs­brú­ar hef­ur þegar hafið vinnu við að safna gögn­um sem spanna allt að 10 ára heilsu­fars­sögu lát­inna ein­stak­linga, með það að mark­miði að greina helstu áhættuþætti. Meðal ann­ars er skoðað hvernig fé­lags­leg­ir þætt­ir, lífsat­b­urðir eins og sam­bands­slit, at­vinnum­iss­ir eða áföll, og jafn­vel lyfja­á­vís­an­ir og sjúk­dóms­grein­ing­ar, hafa áhrif á and­lega heilsu ein­stak­lings.

Slík yf­ir­grips­mik­il gagna­öfl­un er for­senda þess að við get­um greint áhættu­hópa, komið í veg fyr­ir sjálfs­víg og dauðsföll vegna óhappa­eitr­ana og veitt þeim sem eru í hættu viðeig­andi stuðning. Niður­stöður hóps­ins munu skapa grunn að öfl­ug­um for­vörn­um og mót­un stefnu­mót­andi aðgerða til framtíðar. Við verðum að horfa á málið með opn­um hug og viður­kenna að sjálfs­víg og and­lát vegna óhappa­eitr­ana eru oft niðurstaða margra flók­inna þátta sem þarf að greina og skilja til hlít­ar. Með betri skiln­ingi á or­saka­ferl­um og helstu áhrifaþátt­um er hægt að styðja bet­ur við þá sem eiga við and­lega erfiðleika að stríða, og gera viðeig­andi ráðstaf­an­ir áður en hætt­an á sjálfsskaða eykst. Þetta er ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að tryggja að ein­stak­ling­ar í áhættu­hóp­um fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná jafn­vægi í lífi sínu og kom­ast í gegn­um erfiðleika­tíma­bil.

Því var ánægju­legt að sjá starfs­hóp sem skipaður var af fyrr­ver­andi heil­brigðisráðherra, Will­um Þór Þórs­syni, skila til­lögu sinni í janú­ar að nýrri aðgerðaáætl­un sem snýr að fækk­un sjálfs­víga á Íslandi.

Það er mín trú að með mark­viss­um aðgerðum og gagn­reyndu starfi get­um við dregið úr sjálfs­víg­um og dauðsföll­um vegna óhappa­eitr­ana.

Fyr­ir­byggj­andi aðgerðir – brýn nauðsyn

Töl­ur um and­lát vegna óhappa­eitr­ana eru áhyggju­efni. Fjöldi þeirra hef­ur auk­ist veru­lega á und­an­förn­um ára­tug­um, sér­stak­lega vegna lyfja á borð við ópíóíða og of­skynj­un­ar­lyf. Aðgengi að þess­um efn­um þarf að end­ur­skoða, og mik­il­vægt er að styrkja for­varn­ir sem geta bjargað manns­líf­um.

Við vit­um að sjálfs­víg og dauðsföll vegna óhappa­eitr­ana eiga sér flók­inn aðdrag­anda. Meðal ann­ars get­ur verið um að ræða sam­spil fé­lags­legra, and­legra og lík­am­legra þátta. Með betri grein­ingu á þess­um þátt­um og gagn­reyndri vinnu get­um við styrkt stuðning­inn við þá sem þurfa mest á hon­um að halda.

Ver­um vak­andi fyr­ir nýj­um leiðum

Við stönd­um á tíma­mót­um þar sem við höf­um tæki­færi til að skapa raun­veru­leg­ar breyt­ing­ar. Það er ljóst að við höf­um öfl­uga aðila í sam­fé­lag­inu okk­ar sem vinna dag hvern að því að bæta líðan fólks og grípa inn í þar sem þörf­in er mest. Við höf­um marga sem starfa af heil­um hug að geðheil­brigðismál­um, sjálfs­vígs­for­vörn­um og stuðningi við aðstand­end­ur. Það er nauðsyn­legt að þessi vinna verði áfram efld og að við höld­um áfram að vera vak­andi fyr­ir leiðum til að bæta geðheil­brigði og lýðheilsu í sam­fé­lag­inu. Það er á okk­ar ábyrgð, sem þjóðar, að bregðast við.

Ég vona að sú vinna sem starfs­hóp­ur Lífs­brú­ar vinn­ur skili þeim ár­angri sem við vilj­um öll sjá – að draga úr sjálfs­víg­um og dauðsföll­um vegna óhappa­eitr­ana með grein­argóðri rann­sókn og nýt­ingu afurðar henn­ar við að mynda ár­ang­urs­rík­ar aðgerðir. Með áfram­hald­andi stuðningi get­um við stigið mik­il­vægt skref í átt að betra sam­fé­lagi, þar sem and­leg vellíðan er ekki aðeins rétt­ur held­ur raun­veru­leg­ur mögu­leiki fyr­ir alla.

Ég hvet alla sem glíma við and­lega van­líðan til að leita sér hjálp­ar. Við eig­um að vera til staðar hvert fyr­ir annað, veita stuðning og hlúa að þeim sem þurfa mest á okk­ur að halda. And­leg líðan á aldrei að vera feimn­is­mál – hún er grund­völl­ur ham­ingju og lífs­gæða okk­ar allra.

Ég vil einnig nýta tæki­færið og þakka Guðrúnu Jónu hjá embætti land­lækn­is og Högna Óskars­syni geðlækni fyr­ir aðstoðina við þetta mik­il­væga mál.

Við skul­um vinna sam­an að því að búa til betra og ör­ugg­ara sam­fé­lag fyr­ir alla.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Deila grein

09/01/2025

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Und­an­farið hef­ur umræða um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið (ESB) vakið at­hygli og verið áhuga­vert að lesa hinar ólíku hliðar og sjón­ar­mið í þess­ari umræðu. Mik­il­vægt er þó að skýra að slík at­kvæðagreiðsla snýst ekki um fram­hald eldri viðræðna held­ur um upp­haf nýrra viðræðna – og þar ligg­ur veru­leg­ur mun­ur.

Upp­lýst þjóð er lyk­il­atriði

Til að slík þjóðar­at­kvæðagreiðsla sé mark­tæk er lyk­il­atriði að þjóðin fái góðar og grein­argóðar upp­lýs­ing­ar um hvað felst í slík­um viðræðum. Hverj­ir eru kost­irn­ir og gall­arn­ir? Hvað get­ur Ísland fengið frá ESB sem ekki er þegar til staðar í gegn­um EES-samn­ing­inn?

Ef þjóðin kysi að hefja viðræður við ESB væri ekki um ein­falt fram­hald eldri viðræðna að ræða. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur breyst um­tals­vert á síðustu árum og sá samn­inga­grunn­ur sem var lagður fram áður er úr sög­unni. Nýj­ar viðræður þýða að við fær­umst inn í ferli sem get­ur verið tíma­frekt og kostnaðarsamt. Þetta er ekki ein­ung­is spurn­ing um viðræður held­ur einnig um aðlög­un að regl­um sam­bands­ins og breyt­ing­ar á ótal sviðum, auk þess sem viðræðuferlið get­ur tekið mörg ár. Í því ljósi ætti þjóðin að gera sér grein fyr­ir því hvað þær viðræður fela í sér. Er það tím­ans og kostnaðar­ins virði að hefja aft­ur viðræður á byrj­un­ar­reit þegar grund­vall­ar­spurn­ing­um, sem sigldu viðræðunum í strand síðast, hef­ur ekki enn verið svarað með full­nægj­andi hætti?

Krón­an eða evr­an

Ef­laust trúa því ein­hverj­ir að inn­ganga í ESB leysi öll okk­ar vanda­mál og er þá litið á evr­una sem galdra­tæki sem bjargað geti öll­um vand­ræðum okk­ar í eitt skipti fyr­ir öll. Evr­ópu­sam­bandið er annað, stærra og meira en bara upp­taka á evru, auk þess sem inn­ganga í sam­bandið er ekki lausn und­an verðbólgu, sem þó fer hratt lækk­andi hér á landi.

En þetta er mik­il­vægt atriði í umræðunni sem gott er að liggi fyr­ir. Því til þess að hægt sé að taka upp evru hér á landi þarf Ísland að upp­fylla Ma­astricht-skil­yrðin, sem fela í sér meðal ann­ars fjár­hags­leg­an stöðug­leika, lágt skulda­hlut­fall og stöðuga vexti. Vissu­lega ástand sem er ákjós­an­legt en þetta er langt ferli sem myndi krefjast ótal efna­hags­legra um­bóta og ekki víst að slík­ar um­bæt­ur ná­ist. En ef þær nást vakn­ar spurn­ing­in hvort þetta er skref sem við þurf­um að stíga.

Hags­mun­um Íslands bet­ur komið utan ESB

Við í Fram­sókn erum þeirr­ar skoðunar að hags­mun­um Íslands sé bet­ur borgið utan Evr­ópu­sam­bands­ins, en inn­an EES. Ísland, Nor­eg­ur og Sviss, sem öll standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins, eru á meðal þeirra landa sem telj­ast hafa hvað best lífs­kjör í ver­öld­inni. EES-samn­ing­ur­inn veit­ir Íslandi aðgang að einu stærsta viðskipta­svæði heims án þess að þurfa að hlíta ströng­um regl­um og stefn­um ESB.

Við höf­um öll tæki­færi til þess að ná tök­um á ástand­inu og eru þegar far­in að sjást sterk merki um það núna þegar verðbólga er á hraðri niður­leið. Við í Fram­sókn höf­um trú á Íslandi og tæki­fær­um lands­ins. Við búum við kröft­ug­an hag­vöxt, erum með sterka innviði, lítið at­vinnu­leysi og út­flutn­ings­grein­ar sem vegn­ar vel. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um öll lönd inn­an ESB. Ísland hef­ur staðið vel í alþjóðleg­um sam­an­b­urði hvað varðar lífs­kjör, heil­brigðis­kerfið, mennt­un og þannig mætti áfram telja þótt vissu­lega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brest­ur á í kjöl­far heims­far­ald­urs, sama hvaða gjald­miðil er um að ræða. Þá skal hafa í huga stærð og sér­stöðu lands og þjóðar þegar kem­ur að sam­an­b­urði og sam­keppn­is­hæfni við önn­ur stærri og fjöl­menn­ari lönd. Myndi inn­ganga í ESB þjóna hags­mun­um þjóðar­inn­ar í heild sinni eða aðeins hluta? Það ber að var­ast að trúa á ein­hverj­ar kostnaðarsam­ar, óljós­ar og órök­studd­ar töfra­lausn­ir. Það er í mörg horn að líta varðandi viðræður við ESB og því mik­il­vægt að gleyma sér ekki í að horfa ein­göngu á það sem hent­ar hverju sinni. Auðlind­ir okk­ar eru grund­völl­ur hag­vaxt­ar og eiga ekki að vera notaðar sem skipti­mynt í samn­ingaviðræðum við ESB. Við eig­um að horfa til lengri tíma með hags­muni lands og þjóðar í fyr­ir­rúmi og með skýr mark­mið að leiðarljósi.

Þannig tryggj­um við far­sæla framtíð ís­lenskr­ar þjóðar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál á Ís­landi er lang­tíma­verk­efni

Deila grein

21/11/2024

Geðheilbrigðismál á Ís­landi er lang­tíma­verk­efni

Síðastliðin þrjú ár hefur markvisst verið unnið að umbótum í geðheilbrigðismálum. Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaráætlun frá 2023-2027 var samþykkt og markar þessi vinna mikilvæg skref í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu landsins.

Stefnan og aðgerðaráætlunin hefur haft það að markmiði að bæta geðheilbrigðisþjónustu með því að fjölga úrræðum, styrkja forvarnir og auka fræðslu. Stefnan er byggð á fjórum megin þáttum, geðrækt og forvörnum, samþættri og heildrænni þjónustu, notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu. Nýsköpunar, þróunar, vísundum og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Aukið fjármagn hefur verið lagt í geðheilbrigðismál á kjörtímabilinu og aðgengi hefur verið bætt. Nær tvöfalt fleiri börn hafa fengið aðgang að sálfræðiþjónustu með greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga og þá hefur í fyrsta sinn verið opna á að fullorðnir fái niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Komið hefur verið á fót almennum og svæðisbundnum geðheilsuteymum á heilsugæslum um allt land og stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðvum hefur verið fjölgað úr 14 í 60. Nú þegar kominn er góður grunnur, en næsta skref er að stækka þessi teymi enn frekar. Þannig má tryggja að allir hafi aðgang að nauðsynlegum úrræðum, ekki síst á landsbyggðinni.

Geðheilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni stendur frammi fyrir mörgum áskorunum, svo sem skorti á sérfræðingum og fjarlægð milli íbúa og þjónustu. Það er því mikilvægt að viðhalda og efla þjónustuna á þessum svæðum, þar sem það er oft áskorun fyrir íbúa að nálgast aðstoð. Aukin fjárfesting í þjónustu á landsbyggðinni, auk fræðslu og stuðningur, er nauðsynleg til að tryggja að allir í landinu hafi jafnan aðgang að geðheilbrigðisúrræðum. Þetta getur falið í sér fjölgun sérhæfðra geðheilsuteyma sem jafnvel fara á milli svæða eða sveitarfélaga.

Mikilvægt er að safna gögnum um notkun geðheilbrigðisþjónustu og áhrif hennar á samfélagið. Þetta mun veita mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nýta til að bæta þjónustuna enn frekar. Með því að efla geðheilbrigðisþjónustu, auka aðgengi og byggja upp stuðningsnet fyrir einstaklinga, má ná settu marki um betri geðheilbrigði á Íslandi.

Þó að mikilvæg skref hafi verið tekin í rétta átt, þá er enn mikið verk að vinna. Framfarir í geðheilbrigðismálum eru langtímaverkefni sem kallar á samstarf, stefnumótun og skuldbindingu frá öllum aðilum samfélagsins.

Ingibjörg Isaksen fyrsti þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2024.