Categories
Greinar

Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Deila grein

04/02/2025

Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Akureyri er blómlegur bær með fjölbreytt atvinnulíf. Til að tryggja áframhaldandi vöxt og framfarir er nauðsynlegt að sveitarfélagið og atvinnulífið eigi virkt samtal. Það hefur verið okkur bæjarfulltrúum Framsóknar á Akureyri keppikefli að finna þessu samtali fastmótaðan farveg. Nýboðað fyrirtækjaþing, sem verður haldið í Hofi 13. febrúar næstkomandi, er góð byrjun á þeirri vegferð. Skráningu lýkur núna 6. febrúar og ég vil hvetja alla stjórnendur fyrirtækja, af öllum stærðargráðum, til að taka þátt og skrá sig.

Mætum öflug til leiks

Fyrirtækjaþing veitir atvinnurekendum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og móta stefnu með sveitarfélaginu. Auk þess er þetta kjörinn vettvangur til að efla tengslanet, deila reynslu og þróa nýjar samstarfsleiðir sem geta skilað jákvæðum áhrifum fyrir samfélagið í heild. Það er ekki síst mikilvægt að við mætum til leiks með því hugarfari að samtal sem þetta sé upphafið að einhverju meira. Að við séum ekki eingöngu að framkvæma stöðutékk á nokkurra ára fresti, heldur séum samhent að vinna að aukinni markaðssókn svæðisins.

Sveitarfélagið sem brúarsmiður

Hlutverk sveitarfélaga er að skapa hagstæð skilyrði fyrir atvinnulífið og sveitarfélög geta gert það með öflugum innviðum, en líka með stuðningi t.a.m. við menntun og nýsköpun. Þetta er hlutverk einstakra sveitarfélaga en ætti líka að vera sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna allra á svæðinu. Það er því gleðilegt að atvinnumál skuli nú fá enn stærra hlutverk í nýsamþykktri Sóknaráætlun SSNE. Sú staða að heil 82% þjóðarinnar býr á svæðinu sem nær frá Hvítá til Hvítár, á að ýta við okkur öllum og vera öllum hrepparíg yfirsterkari. Hvort sem við erum kjörnir fulltrúar eða atvinnurekendur, þá eigum við að snúa bökum saman og styrkja þetta svæði í heild sinni. Sameiginlegt þing sveitarfélagana um atvinnumál gæti því verið rökrétt framhald af fyrirtækjaþinginu hér á Akureyri

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Categories
Fréttir Greinar

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Deila grein

22/01/2025

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Okkur berst til eyrna að loka eigi annarri af tveimur eftirstandandi flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Veruleg skerðing, með öðrum orðum, á bæði flugöryggi og nýtingarmöguleikum flugvallarins. Á sama tíma heyrum við að vel gæti þurft að loka hinni brautinni – í lengri eða skemmri tíma – meðan unnið er að uppbyggingu nýrrar brúar yfir Fossvoginn. Af hverju er það svo, að við þurfum trekk í trekk að minna á þá staðreynd að flugsamgöngur til og frá höfuðborgarinnar eru hryggjarstykkið í byggðaþróun og byggðastefnu landsins?

Sitjum ekki hljóð hjá

Við á landsbyggðunum getum ekki setið hljóð hjá. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur að tryggja rekstur og öryggi flugvallarins á meðan í gildi er samkomulag um að hann verði áfram í Vatnsmýrinni, enda enginn annar augljós kostur í sjónmáli. Innanlandsflugið er mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðunum, bætir almenn lífsgæði og er nauðsynlegt öryggi okkar og heilsu. Þess vegna verðum við að þrýsta á alla hlutaðeigendi aðila að leysa þennan hnút strax. Nóg hefur verið saumað að flugvellinum í gegnum tíðina.

Áskorun til allra hlutaðeigenda

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir umræðu um stöðu Reykjavíkurflugvelli á bæjarstjórnarfundi og hyggjast leggja þar fram eftirfarandi bókun til samþykktar:

Bæjarstjórn Akureyrar skorar á bæði Reykjavíkurborg og Samgöngustofu, sem og ráðuneyti samgangna, að tryggja öryggi og rekstur Reykjavíkurflugvallar. Sú óvissa sem er uppi vegna fyrirhugaðrar lokunar á annarri tveggja flugbrauta er ólíðandi. Því ættu málsaðilar ekki að bíða boðanna heldur leiða öll ágreiningsefni skjótt til lykta, svo sem eðli málsins og alvarleiki býður.

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 21. janúar 2025.

Categories
Greinar

Hvert er hlutverk sveitarfélaga í þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna?

Deila grein

16/09/2024

Hvert er hlutverk sveitarfélaga í þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna?

Umræðan um ofbeldi meðal ungs fólks hefur verið áberandi okkur síðustu vikur og langar mig til að byrja á því að votta aðstandendum Bryndísar Klöru samúð mína og þakka þeim fyrir sitt sterka ákall um breytingar.

Ég tel afar mikilvægt að við sem kjörnir fulltrúar tökum umræðuna um hvert hlutverk okkar er og hvernig við sinnum kallinu. Er það ekki okkar hlutverk að leiða samtalið í okkar nærsamfélagi? Er ekki kominn tími til að við setjumst niður og ræðum hvernig við sem samfélag getur gert betur og tekið betur utan um börnin okkar. Fengið heimilin í lið með okkur, skólana, foreldrafélögin, hverfin og ekki síst börnin sjálf.

Ofbeldi er samfélagsvandamál, við upprætum það ekki öðruvísi en með samstilltu átaki.

Fyrsta skrefið er að taka punktstöðuna í okkar sveitarfélagi. Við verðum að tala opinskátt um hlutina en þó án þess að tala um einstök mál. Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar eru reglulega kynntar og gefa okkur góðar vísbendingar um stöðuna. Þegar hættumerkin birtast þá verðum við að bregðast við með aðgerðum og kynna niðurstöðurnar vel fyrir heimilinum líka. Við þurfum líka að hlusta á fólkið sem vinnur með börnum alla daga; starfsfólk í félagsmiðstöðvum, skólum, heilbrigðisstofnunum og lögreglu sem dæmi.

Þróun sem við getum ekki sætt okkur við

Í sumar var kynnt skýrsla og aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi meðal ungs fólks og vopnaburði. Þar kemur fram að tilkynningar um ofbeldisbrot sem börn fremja voru árið 2018 542 en eru 1072 árið 2023. Þróun sem við getum ekki sætt okkur við.

Aðgerðahópur var svo settur af stað 4. september síðastliðinn til að vinna að því að hraða aðgerðum og meta stöðuna enn frekar. Þar af snúa þó nokkrar að sveitarfélögum sem við þurfum að taka föstum tökum. Þetta er samvinna mennta- og barnamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og heilbrigðismálaráðuneytis. Þverfagleg nálgun sem við þurfum einnig að taka upp heima í héraði og með samfélaginu.

Í umræðu á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn verður ítarlegri umræða um hlutverk sveitarfélaga í samstilltu þjóðarátaki gegn ofbeldi meðal barna sem er vonandi bara byrjunin á samstilltu átaki.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 15. september 2024.

Categories
Greinar

Bann við símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar?

Deila grein

15/10/2023

Bann við símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar?

Mikil umræða hefur verið undanfarið um símanotkun barna- og ungmenna í grunnskólum og skort á stafrænu læsi. Það er frábært þegar þjóðþekktur aðili eins og Þorgrímur Þráinsson leggur orð í belg því þá virðist þjóðin hlusta en þá þarf líka að bregðast við og grípa til aðgerða.

Barna- og menntamálaráðherra hefur sett af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Við bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri viljum bregðast strax við og munum leggja fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi næstkomandi þriðjudag:

Fræðslu- og lýðheilsuráði er falið í samstarfi við ungmennaráð og fulltrúum skólasamfélagsins, skólastjórnendum, kennurum og nemendaráðum grunnskóla, að setja reglur um notkun síma í grunnskólum Akureyrarbæjar. Reglurnar eiga að taka gildi í síðasta lagi um næstu áramót og gilda þar til barna- og menntamálaráðherra hefur lokið vinnu við mótun reglna um notkun síma í grunnskólum landsins.

Skilja börn og ungmenni orðið bergmálshellir?

Einnig munum við leggja fram fyrirspurn um stöðu vinnu við að efla stafrænt læsi barna- og ungmenna en undirrituð skrifaði grein um eflingu stafræns læsis fyrir ári síðan, Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni, og lagði svo fram eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn sem var samþykkt: Bæjarstjórn telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og í framhaldinu í aðgerðaáætlun forvarnastarfs sem tæki þá ekki aðeins á notkun og samskiptum á miðlunum heldur einnig markaðsstarfi þeirra.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson eru bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. október 2023.

Categories
Greinar

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Deila grein

15/08/2023

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Við í Framsókn Akureyri viljum sjá bæinn okkar blómstra og þeirri uppbyggingu fylgir eðlilega alls konar tæki og tól. Það getur verið kostnaðarsamt fyrir t.d. minni fyrirtæki að koma sér upp lóðum/stæðum fyrir þau tæki sem fylgja starfseminni, enda gera gatnagerðargjöld ráð fyrir miklu byggingarmagni og gjaldskráin eftir því. Þá þarf að leita annarra lausna sem eru sniðnar að mismunandi þörfum.

Ég hef talað fyrir því að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga með því að bjóða upp á vaktað geymslusvæði eins og tíðkast í mörgum sveitarfélögum. Á síðasta skipulagsráðsfundi var samþykkt þessi tillaga mín: Haldinn verður opinn fundur með verktökum, atvinnurekendum og félagasamtökum þar sem rætt verður um hvort grundvöllur sé fyrir því að koma upp vöktuðu geymslusvæði í bæjarlandinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki geti leigt pláss fyrir svo sem ökutæki, gáma, hjólhýsi og vinnuvélar.

Það er von mín að fyrirtæki og einstaklingar í bænum taki vel í þessar hugmyndir og mæti í samtalið svo við getum í sameiningu fundið lausn á málum. Hvort sem þetta verður niðurstaðan, eða ef önnur betri finnst, þá getum við ekki látið stöðuna óáreitta.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Mun unga fólkið okkar fjárfeta í húsnæði í Móahverfi?

Deila grein

24/03/2023

Mun unga fólkið okkar fjárfeta í húsnæði í Móahverfi?

Akureyrarbær auglýsir nú útboð lóða í fyrsta áfanga Móahverfis og fagna ég því að sjá þar birtast áherslur Framsóknarfólks í húsnæðismálum. Í samræmi við rammasamning ríkis og sveitarfélaga þar sem kveðið er á um að 30% húsnæðis eigi að vera hagkvæmt húsnæði eru sett skilyrði um að 20% af þeim íbúðum sem byggðar verði í fjölbýlishúsnunum eigi að falla undir skilmála hlutdeildarlána.

Eins og sakir standa þá eru forsendur lánanna reyndar brostnar hér á Akureyri vegna gríðarlegrar hækkunar á fasteignaverði.  Hins vegar er í gangi endurskoðun á skilmálum hlutdeildarlána og mikilvægt að henni verði lokið sem fyrst.

Fyrir kosningar vorið 2022 lögðu frambjóðendur Framsóknar á Akureyri áherslu á að ungu fólki yrði hjálpað að koma þaki yfir höfuð sér.  Ég leyfi mér að endurbirta hér brot úr grein minni Hvar á unga fólkið að búa? sem birtist í á Akureyri.net í apríl á síðasta ári en þar beini ég sjónum að mikilvægi hlutdeildarlána í þessu samhengi, þótt nauðsynlegt sé einnig að skoða fleiri leiðir í framhaldinu. Sem dæmi er greiðslubyrðarhlutfall Seðlabankans að gera ungu fólki erfiðara fyrir en samkvæmt því má afborgun einungis vera 35-40% af útborguðum launum.

Hvar á unga fólkið að búa?

Unga fólkið er framtíð Akureyrar og hér vilja þau í meira mæli festa rætur en hafa eðlilega áhyggjur af hækkandi fasteignaverði. Við í Framsókn viljum auðvelda ungu fólki að koma þaki yfir höfuð sér og einn liður í því er að tryggja að hér verði byggðar íbúðir sem henta við úthlutun hlutdeildarlána.

Lán fyrir útborgun

Frumvarp um hlutdeildarlán, sem lagt var fram af félags- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni og samþykkt árið 2020, er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Lántakendur endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.

Dæmi:

  • Kaupandi leggur fram a.m.k. 5% kaupverðs í útborgun.
  • Kaupandi tekur húsnæðislán fyrir 75% kaupverðs.
  • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs.

Forgangsverkefni á næsta kjörtímabili

 Við í Framsókn viljum tryggja að í boði verði fleiri hlutdeildarlánaíbúðir með sérstökum reglum í úthlutun lóða eða semja beint við byggingarverktaka um byggingu slíkra íbúða með sérstökum samningum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Við teljum að þegar lóðaframboð eykst, sem er algjör grunnforsenda, og meiri ró kemst á markaðinn sé þetta gerlegt og eigi að vera forgangsverkefni á næsta kjörtímabili.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 24. mars 2023.

Categories
Greinar

ER EINMANALEIKI VANDAMÁL MEÐAL ELDRI BORGARA?

Deila grein

14/03/2023

ER EINMANALEIKI VANDAMÁL MEÐAL ELDRI BORGARA?

Tveir vinnuhópar eru nú að störfum sem tengjast málefnum eldri borgara á Akureyri, vinna við seinni hluta aðgerðaáætlunar í málefnum eldri borgara og endurskoðun á íbúabyggð aðalskipulags. Af þessu tilefni óskuðum við bæjarfulltrúar Framsóknar eftir umræðu um málefni eldri borgara á bæjarstjórnarfundi þann 7. mars síðastliðinn.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi, birti grein um áherslur okkar í skipulagsmálum eldri borgara https://www.akureyri.net/is/frettir/husnaedismal-eldri-borgara-a-akureyri-1 en hér ætla ég að reyna að stikla á stóru og taka saman helstu punkta úr  ræðu minni um einmanaleika og félagslega einangrun eldri borgara.

Árið 2022 voru tæplega helmingur íbúa 60 ára og eldri í Félagi eldri borgara á Akureyri. Það þýðir þó ekki að helmingur eldri borgara sitji meira og minna heima og sæki ekki í félagsskap utan heimilis. Sú kynslóð sem er um og yfir sjötugt í dag er að stórum hluta mjög virkur hópur sem er vanur að ferðast um allan heim og duglegur í alls kyns hreyfingu. Þetta er hópur sem mun líklega þegar tíminn líður vera duglegur að nýta sér þjónustu félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar.

Ástæða til að kanna einmanaleika meðal eldri borgara á Akureyri

Landssamband eldri borgara gerði rannsókn í samvinnu við Reykjavíkurborg árið 2016 þar sem fram kom að 17% eldri borgara væru stundum eða oft einmana en það er sá mælikvarði sem notaður er til að mæla félagslega einangrun. Í rannsókninni kom skýrt fram að sá hópur sem helst finnur til einmannaleika er fólk sem meðal annars þiggur heimaþjónustu, hefur misst maka, á veikan maka, hefur gengið í gegnum erfiða hluti, heyrir illa, er fjárhagslega illa statt og hefur ekki mikið samband við ættingja. Þetta er hópur sem er ólíklegur til að sækja í félagsmiðstöðvarnar og það sem er í boði í verkefninu Virk efri ár nema með mikilli hvatningu og sértækum aðgerðum. Því er full ástæða til að kanna einmanaleika sérstaklega meðal eldri borgara á Akureyri.

Verkefnið Virk eftir ár: https://www.akureyri.is/is/thjonusta/velferd-og-fjolskyldan/eldri-borgarar/virk-efri-ar

Félagslegi þátturinn skiptir mestu máli er kemur að lýðheilsu

Samkvæmt Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra Lýðheilsusviðs embættis landlæknis, þá er félagslegi þátturinn lang mikilvægasti þátturinn er kemur að hamingju og vellíðan, og skiptir meira máli en heilsa og efnahagsleg gæði svo dæmi sé tekið. Eldra fólk býr mun lengur heima en áður sem þýðir að við sem sveitarfélag berum lengur og meiri ábyrgð á félagslegri örvun þeirra og ætti því vera að vera hluti af lýðheilsustefnu okkar.  Það er almenn ánægja með verkefnið Virk efri ár en nú þegar því verður fylgt eftir þarf að kanna hvaða hópur þiggur þessa þjónustu í dag og fara í aðgerðir til þess að auka breidd hans í víðtæku samstarfi t.d. heimaþjónustunnar, öldungaráðs, Félags eldri borgara og starfsmanns verkefnisins Virk eftir ár.

Nú er hafin vinna við seinni aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara sem er ætlað að taka á á heimaþjónustu og samhæfingu við aðra þjónustu, sem og búsetu eldra fólks og samgöngum.  Allt tengist þetta félagslegum þáttum og þörfum eldri borgara og því mikilvægt að aðgerðir til að rjúfa félagslega einangrun fái töluvert vægi í henni.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Heimildir: Málþing um einmanaleika eldra fólks og hvað sé til ráða haldið af Landssambandi eldri borgara árið 2020. https://www.leb.is/malthing-um-einmanaleika-eldra-folks-og-hvad-se-til-rada/

Categories
Greinar

Klárum að brúa bilið

Deila grein

11/02/2023

Klárum að brúa bilið

Við bæjarfulltrúar Framsóknar samþykktum á bæjarstjórnarfundi í vikunni tilraunaverkefni með svokallaðar heimgreiðslur, eða biðlistabætur, fyrir þá foreldra/forráðamenn sem eru á biðlista eftir plássi á leikskóla. Þó með þeim fyrirvara að þetta sé ekki framtíðarlausn og aðeins á meðan ekki hefur tekist að klára að brúa bil fæðingarorlofs og leikskóla.

Það virðist vera vilji meirihlutans að vinna þetta mál áfram og í framhaldinu hugsanlega bjóða upp á heimgreiðslur sem val, þ.e. að barnið þurfi ekki að vera á biðlista hjá leikskóla til að þiggja þessar greiðslur heldur geti foreldrar/forráðamenn kosið að vera lengur heima með barninu. Það er munaður sem líklega mjög fáir geta nýtt sér ef upphæðin verður 105 þúsund krónur eins og samþykkt var sem biðlistabætur. Fyrst og fremst er það hlutverk stjórnvalda að lengja fæðingarorlofið og þannig gera öllum kleift að vera lengur heima með börnum sínum í samvinnu við sveitarfélög og atvinnulíf.

Það hefur farið mikil vinna í þetta kosningaloforð um heimgreiðslur sem ekki sér fyrir endann á. Aftur á móti heyrist fátt um raunverulegar aðgerðir sem geta brúað bilið, í samræmi við þær tillögur sem starfshópur verkefnisins Brúum bilið lagði fram haustið 2019. Starfshópurinn var skipaður einstaklingum úr meiri- og minnihluta ásamt embættismönnum og fagráði leikskólastjórnenda og skilaði af sér vandaðri skýrslu. Í henni kemur fram að kanna eigi möguleika á að innrita börn í leikskóla tvisvar sinnum á ári, ekki bara á haustin eins og nú er gert. Eins standi til að kanna þann möguleika að hafa þrjár ungbarnadeildir eða ungbarnaleikskóla sem hver um sig getur innritað börn tvisvar á ári, samtals sex sinnum.

Meirihlutinn samþykkti ekki útrétta hönd minnihlutans sem bauð upp á samstarf við áframhaldandi vinnu verkefnisins Brúum bilið.

Það hefur verið stefna Akureyrarbæjar frá hausti 2021 að innrita 12 mánaða börn inn á leikskóla og ætti því að setja í algjöran forgang að útfæra hvernig hægt sé að innrita 12 mánaða börn oftar yfir árið. Við eigum að þora að horfa út fyrir kassann og endurhugsa þessa þjónustu alla upp á nýtt þar sem við horfum til þess bæði að bjóða framúrskarandi þjónustu og passa upp á velferð starfsfólks. Þess vegna voru það mikil vonbrigði að meirihlutinn hafnaði tillögu bæjarfulltrúa VG Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur að stofnaður yrði þverpólitískur starfshópur sem ynni áfram með þessar hugmyndir í nánu samstarfi við fagaðila og foreldra.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Aukið fjármagn frá ríkinu breytir stöðunni

Deila grein

06/12/2022

Aukið fjármagn frá ríkinu breytir stöðunni

Þann 6. desember verður seinni umræða um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2023. Fjárhagsáætlunin hefur tekið nokkuð miklum breytingum milli umræðna sem ræðst einna helst af því að von er á auknum tekjum úr jöfnunarsjóði vegna aukins framlags ríkisins í málaflokk fatlaðra. Ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði gefið sveitarfélögum von um aukið fjármagn milli umræðna og stóð við sín orð. Við þetta hefur komist betra jafnvægi á reksturinn og hyllir í sjálfbærari rekstur í A-hluta sveitarfélagsins við lok kjörtímabilsins. Bæjarfulltrúar Framsóknar gagnrýndu einmitt í fyrri umræðum að ekki skyldi lengur stefnt að sjálfbærni 2025 eins og markmið síðustu bæjarstjórnar voru og einsýnt að verði lagaleg krafa í nánustu framtíð.

Skortur á vönduðum vinnubrögðum

Meirihlutinn hefur haldið spilunum þétt að sér þegar kemur að fyrirhuguðum framkvæmdum á kjörtímabilinu. Ekki er að sjá að hann ætli að fara í viðbyggingu við þjónustukjarna eldri borgara í Bugðusíðu né huga að þörfum þessa sístækkandi hóps í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ákvarðanir um framkvæmdir sem tengjast lögbundnum verkefnum eru byggðar á þarfagreiningu og faglegum vinnubrögðum en þegar kemur að öðrum ákvörðunum þá gagnrýnum við ógagnsætt og ófaglegt ferli. Lítið sem ekkert samráð hefur verið í viðeigandi fagráðum og enga þarfagreiningu að finna eða kostnaðargreiningu á auknum rekstrarkostnaði.

Fjárhagsbyrðir heimilanna minnka

Í fyrri umræðu var gert ráð fyrir 10% flötum hækkunum á gjaldskrám, fyrir utan nokkrar undantekningar, sem er bæði verðbólguhvetjandi og ekki til þess fallið að vernda heimilin. Meirihlutinn hefur hlustað á þá gagnrýni og dregið úr hækkunum. Ekki var heldur gert ráð fyrir lækkunum á fasteignaskatti til að koma til móts við gríðarlegar hækkanir á fasteignamati. Bæjarfulltrúar Framsóknar töluðu fyrir því í fyrri umræðu og í greinaskrifum. Við fögnum því að bæjarráð hefur nú afgreitt frá sér lækkun álagningarhlutfalls fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði en eftir standa óbreyttar hækkanir fasteignagjalda gagnvart atvinnuhúsnæði.

Aukið fjármagn sett í málefni barna en skortur á framtíðarsýn

Í málefnaskrá Framsóknar í vor var lögð áhersla á framsókn í velferð og verðmætasköpun án þess þó að taka þátt í miklu loforðakapphlaupi. Meirihlutanum til hróss þá er verið að gefa í í málefnum barna og leggja aukið fjármagn til félagsþjónustunnar og aukins stuðnings í fræðslumálum. Einnig erum við ánægð með að aukið fjármagn verði sett í skipulagsmál. Umhverfis- og loftslagsmál virðast þó ekki í forgangi hjá meirihlutanum.

Það sem við söknum þó er skortur á framtíðarsýn. Hvernig ætlum við að efla bæinn og auka fjölbreytni í atvinnulífinu til framtíðar og þannig auka verðmætasköpun og tekjur. Bæjarfulltrúar Framsóknar leggja því eftirfarandi tillögu fram á bæjarstjórnarfundi á morgun:

  • Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Samhliða þeirri vinnu er mikilvægt að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna og ferðaþjónustuaðila. Það er mikilvægt að þess sjáist skýrari merki í fjárhagsáætlun að bæjarstjórn Akureyrarbæjar sé tilbúin í þessa vinnu. Bæjarfulltrúar Framsóknar leggja því til að sett verði fjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 5. desember 2022.

Categories
Greinar

Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni

Deila grein

01/11/2022

Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni

Stafræn tækni er komin til að vera með sínum kostum og göllum. Það er þó engum blöðum um það að fletta að hún hefur töluverð áhrif á hegðun okkar og andlega líðan. Í gegnum algóritma stýra miðlarnir því sem við sjáum og smám saman verður veröld okkar ótrúlega smá í risaheimi stafrænnar tækni; einhvers konar bergmálshellir. Þetta gæti að einhverju leyti útskýrt aukningu á líkamlegu-, kynferðis- og stafrænu ofbeldi meðal ungmenna ásamt minna þoli en áður gagnvart fjölbreytileika.

Í samantekt, sem unnin er úr gögnum Rannsóknar og Greiningu frá árinu 2021, kemur fram að mikilvægi þess að taka samtalið við börn um stafræn samskipti hefur aldrei verið meiri. Ýmis teikn eru á lofti um skaðlega notkun og má þar nefna andstyggileg skilaboð og sendingar á ögrandi myndum. Sem dæmi segjast rúmlega helmingur stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda nektarmyndir og rúmlega 30% hafa sent slíkar myndir. Auk þess eru sífellt færri sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða.

Það hefur verið sýnt fram á fylgni milli aukinnar stafrænnar notkunar ungmenna og hrakandi andlegrar heilsu, en með óhóflegri notkun geta ungmenni átt á hættu að þróa með sér kvíða, þunglyndi og truflun á svefni svo dæmi séu tekin. Þessi stöðugi samanburður, óraunhæfar fyrirmyndir, að gera ekki greinarmun á net- og raunsjálfi, áhrifavaldar sem telja okkur trú um að við þurfum hitt og þetta til að vera hamingjusöm, ofuráhersla á veraldlega hluti og fleiri hlutir spila þar stórt hlutverk.

Ofurseld markaðsöflunum

Að baki stafrænna miðla eru stór fyrirtæki með sérfræðinga á hverju strái sem vita nákvæmlega hvernig á að gera okkur háð þessari tækni og hafa áhrif á neytendahegðun okkar. Þetta þekkjum við fullorðna fólkið líka og ættum því auðveldlega að geta sett okkur í spor barna og ungmenna sem eru að feta sín fyrstu skref í stafrænum heimi. Það þarf að auka fræðslu um óbeina markaðssetningu, vöruinnskot, áhrifavalda-markaðsetningu, hvernig markaðsskilaboð elta okkur á miðlunum og síðast en ekki síst um það hvernig viðskiptamódel samskiptamiðla virka. Auðvitað er óskastaðan sú að foreldrar ræði þessi mál við börnin sín en við, hinn almenni íbúi, erum einnig að fóta okkur í nýjum stafrænum heimi. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar.

Hjá Akureyrarbæ starfa 7 frábærir forvarna- og félagsmálafulltrúar sem sem ná mjög vel til barna og ungmenna sveitarfélagsins. Þeir aðlaga starf sitt hverjum tíma og hafa sem dæmi notað til þess niðurstöður úr rannsóknum á lýðheilsu barna á Akureyri og aðlaga sitt starf að þeim miðlum sem ungmenni styðjast við þá stundina. Nýtum þann mannauð og eflum stafrænt læsi barna og ungmenna.

Mæli sérstaklega með þessari grein Skúla Braga Geirdal sem hefur rannsakað þessi mál betur í gegnum starf sitt sem verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjömiðlanefnd. (sjá á akureyri.net)

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 28. október 2022.