Grundvallarstefnuskrá

Grundvallarstefnuskrá

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jöfnuðar, hagsældar og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, kyneinkennum, kynvitund og búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska, grundvallarlífskjara og náttúrugæða óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður 
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi og að öðlast hamingju. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.                                             

V. Stjórnarfar 
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum, valddreifingu og að allir hafi rödd. Réttlát málsmeðferð fyrir dómstólum og greitt aðgengi að þeim sé ávallt tryggð.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls. Vöxtur efnahagslífsins þarf að byggja á sjálfbærni og nýsköpun.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna á borð við samstarf um sjálfbæra þróun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

VIII. Náttúrugæði
Við setjum sjálfbæra þróun í öndvegi og skynsamlega nýtingu á gæðum jarðar sem skaða ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Samþykkt 1987 og endurskoðuð á 36. flokksþingi Framsóknar 19. mars 2022.