Stjórnskipun og alþjóðamál

Stjórnskipun og alþjóðamál

Stjórnskipunar-, mannréttinda og dómsmál

Framsókn styður mannréttindi, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni og hafnar hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Framsókn vill að enginn á Íslandi þurfi að búa við sára fátækt, að öllum sé tryggt öruggt húsaskjól og enginn þurfi að búa við óviðunandi aðstæður. Framsókn vill stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur og hafi jöfn réttindi óháð stétt og stöðu. Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins. Þá vill Framsókn að mannréttindi barna á flótta séu tryggð og litið á þeirra hagsmuni fyrst og fremst við ákvarðanatöku um dvöl hér á landi og ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu í hávegum höfð. Öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Framsókn fagnar því að hafin sé að nýju heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og leggur áherslu á að þeirri vinnu verði haldið áfram og að tryggt verði að henni lokinni að ákvæði hennar endurspegli sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar. Þar ber helst að nefna ný ákvæði um auðlindir í þjóðareigu, umhverfisvernd og stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Afstaða Framsóknar til slíkra afmarkaðra breytinga miðast við gildi og grundvallarstefnu flokksins og þá efnahagslegu sýn að manngildið sé fremra auðgildinu. Slík endurskoðun þarf að byggja á trúverðugu ferli sem endurspeglar eðli verkefnisins. Stjórnarskráin er samfélagssáttmáli þeirra sem byggja Ísland og því þarf ferlið við endurskoðun hennar að byggja á gagnsæi og skýru lýðræðislegu umboði.

Forseti Íslands

Framsókn styður tilvist forsetaembættis, sem hafi vel skilgreind og virk úrræði til þess að veita mótvægi við ofríki annarra þátta ríkisvaldsins, til dæmis með því að skjóta umdeildum málum í atkvæði þjóðarinnar. Einnig mætti huga að auknum möguleikum borgaranna til þess að andmæla gjörðum handhafa ríkisvaldsins með lýðræðislegum hætti, svo sem með rafrænum lausnum. Forseti þarf að hafa skýrt umboð meirihluta þjóðarinnar sem meðal annars væri hægt að ná fram með tveimur umferðum kosninga eða varaatkvæðiskerfi (e. Alternative vote). Endurmeta ætti ákvæði um lágmarksaldur forseta.

Kosningaréttur

Framsókn leggur til að kosningaréttur miðist við byrjun þess árs sem einstaklingur nær kosningaaldri en ekki fæðingardag. Ekki er ástæða til að neita þeim sem eiga fæðingardag eftir kjördag um þátttöku í kosningum. Umrædd breyting gæti haft í för með sér jákvæð áhrif á kosningaþátttöku ungmenna, sem ganga þá saman sem árgangur til kosninga.

Framsókn vill tryggja betur örugg og auðveldari skil á utankjörfundaratkvæðum, hvort heldur sem um ræðir hjá sýslumönnum á Íslandi, sendiráðum eða kjörræðismönnum eða með póstkosningu erlendis.

Réttarfar og öryggi borgaranna

Framsókn vill að auknu fjármagni verði veitt í rannsókn og saksókn mála sem varða kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum til að tryggja eðlilegan málsmeðferðartíma og fullnægjandi rannsókn. Framsókn vill ákvæði sem kveður á um hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins vegna brota sem fyrnast í höndum ákæruvaldsins. Gerð verði krafa til þeirra sem starfa í dómskerfinu og hjá ákæruvaldinu um að þeir sæki sér reglubundna endurmenntun og fræðslu hvað varðar nýja lagasetningu.

Framsókn vill að refsingar við hatursglæpum verði skýrðar og að tryggt verði upplýst, fordómalaust og umburðarlynt samfélag allra á Íslandi.

Framsókn vill að skilyrði til gjafsóknar verði rýmkuð og að fjárhæðarmörk verði hækkuð til samræmis við framfærsluviðmið eða lægstu heildarlaun hér á landi. Réttur til gjafsóknar nái einnig til kærumála á stjórnsýslustigi. Með því er jafnara aðgengi borgaranna að stjórnsýslu og dómstólum tryggt.

Trú- og lífsskoðunarfélög áfram studd

Framsókn vill að áfram verði stutt við öflugt starf Þjóðkirkjunnar um land allt enda hefur hún skyldur við alla landsmenn. Sóknargjöld eru félagsgjöld til trú– og lífsskoðunarfélaga sem ríkið hefur tekið að sér að innheimta fyrir þau öll á grundvelli samninga og laga. Það er skýr krafa að sóknargjöldin renni óskert til allra trú– og lífsskoðunarfélaga fyrir þá sem kjósa að skrá sig í þau

Öflug löggæsla og ákæruvald

Ein af frumskyldum ríkisvaldsins er að tryggja og verja öryggi allra gagnvart hvers konar ógn, ofbeldi og öðrum afbrotum í samfélaginu. Framsókn vill auka fjármagn og mannafla lögreglu og tryggja þannig að aðbúnaður lögreglu til að sinna verkefnum sínum verði ávallt eins og best verður á kosið allt árið um kring. Framsókn vill skapa lögreglunni skilyrði til að sinna aukinni grenndargæslu og forvarnarstarfi. Lögð er mikil áhersla á að lögreglu verði tryggður aðbúnaður, mannafli og fjármagn til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi svo sem innflutningi fíkniefna, mansali, hryðjuverkum og auknum umsvifum skipulagðra glæpagengja. Framsókn hefur áhyggjur af auknum vopnaburði innan glæpasamtaka og nauðsynlegt er að vinna strax gegn þeim vanda.  Lögreglunni verði veittar nauðsynlegar rannsóknarheimildir, sambærilegar þeim sem lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur með réttaröryggi og friðhelgi borgaranna að leiðarljósi.  Á sama tíma má efling rannsóknardeilda ekki bitna á almennri löggæslu.

Halda þarf áfram vinnu við að styðja sem best við börn og ungmenni m.a með forvarnastarfi Stór skref hafa verið tekin nú þegar að frumkvæði Framsóknar.. Sambærileg skref þarf að taka innan lögreglunnar og hjá sýslumönnum. Þessir aðilar eru oft þeir fyrstu til að greina erfiða stöðu barna. Þeir eru nauðsynlegur hluti af innleiðingu á kerfisbreytingum í þeirra þágu sem nú hafa verið samþykktar og þurfa að taka fullan þátt í henni.  Til þess þarf aukið fjármagn og breytingar á löggæsluáætlun.

Jafnframt þarf að leggja af hagræðingarkröfu við gerð fjárlaga, þegar kemur að réttarvörslukerfinu.

Framsókn leggur mikla áherslu á að í löggæsluáætlun fyrir árin 2019 til 2023 verði tryggt það fjármagn í fjárlögum sem þarf til að henni verði framfylgt. Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi þróun samstarfs lögreglu og sveitarfélaga gegn heimilisofbeldi og leggur áherslu á að farið verði yfir hvort þörf sé  fyrir lagabreytingar á einhverjum sviðum til að verkefnin skili langtíma árangri. Enn fremur þarf að efla rannsóknir og saksóknir í kynferðisbrotamálum.  Einnig þarf að styrkja tölvuafbrotadeild lögreglu svo sporna megi við glæpum á netinu. Settur verði aukinn þungi á endurmenntun lögreglu ásamt skyldubundinni fræðslu með reglubundnum hætti til samræmis við þau verkefni og aðstæður sem upp koma hverju sinni. Framsókn telur ástæðu til að efla eftirlit með starfsmönnum lögreglu sem fara með löggæsluvald og heimildir til eftirlits verði efldar.  Framsókn vill að lögreglumenn fái þau sjálfsögðu mannréttindi að geta boðað til verkfalls til að sækja sér kjarabætur.  Framsókn leggur áherslu, í tengslum við það, að farið verði yfir hvernig ríkið hefur staðið við upphaflegar skuldbindingar frá því verkfallsréttur var tekinn af lögreglumönnum. Jafnframt er mikilvægt að efla tollgæslu um land allt.

Landhelgisgæsla og almannavarnir

Framsókn vill efla Landhelgisgæsluna til að hún sé betur í stakk búin til að mæta auknum kröfum um öryggi á norðurslóðum og sinna sínu lögbundna hlutverki um landið og miðin. 

 Ráðist verði í heildarendurskoðun á almannavarnarlögunum án tafar. Staða almannavarna er óviðunandi í núverandi mynd víða um land. Það þarf að laga án tafar þar sem öryggi og lífsviðurværi er í húfi.

Síðustu misserin hafa landsmenn séð mikilvægi öflugra almannavarna hér á landi. Í ljósi þess vill Framsókn að þekking innan almannavarnakerfisins verði efld enn frekar og viðunandi aðbúnaður og starfsaðstæður tryggðar. Þá leggur Framsókn áherslu á það að grípa til aðgerða til þess að tryggja öfluga og skilvirka enduruppbyggingu eftir náttúruhamfarir.

Fangelsisvist með betrun í forgrunni

Markmið fangelsisvistar er að þeir sem afplána refsidóma snúi út í samfélagið á ný sem betri þjóðfélagsþegnar. Í því skyni þarf að fjölga úrræðum fyrir dómþola, enda geta önnur úrræði en fangelsisvist borið meiri árangur, sérstaklega við fyrsta brot. Framsókn telur mikilvægt að afplánun refsidóma geti hafist sem fyrst að uppkveðnum dómi. Það er óþolandi hvað bið eftir afplánun getur dregist lengi. Miða skal við að erlendir ríkisborgarar afpláni íslenska refsidóma í heimalandi sínu, þegar við á. Gera skal framsalssamninga við sem flest ríki en hafa þarf mannréttindi og mannúðarsjónarmið í hávegum. Auka þarf úrræði  og hvata fyrir fanga til að sækja sér menntun og endurhæfingu eftir atvikum á meðan á afplánun stendur og skilyrði til þess verði tryggð. Þá verði föngum tryggð örugg búseta og endurhæfing að afplánun lokinni.

Utanríkismál

Framsókn leggur áherslu á að alþjóðlegir samningar og skuldbindingar séu hafðar að leiðarljósi í stjórnsýslu og regluverki landsins. Má þar sérstaklega nefna mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis, samninga SÞ um afnám allrar mismununar gegn konum og um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ sem og flóttamannasamning samtakanna.

Norðurlandasamvinna

Framsókn vill áfram byggja upp öflugt samstarf milli Norðurlandanna. Íslendingar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta með nágrannaþjóðum sínum hvað varðar auðlindir, arfleifð, þjóðmenningu og öryggismál. Samstarf við Norðurlöndin skipa sem fyrr mikilvægan sess í utanríkisstefnu landsins.

Evrópusambandið

Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi gott samstarf við Evrópusambandið, en telur hins vegar hagsmunum Íslands best borgið utan þess.

Með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er komin upp ný staða og mun framtíðarskipulag Evrópu taka breytingum á næstu misserum. Brýnt er að tryggja efnahags- og viðskiptalega hagsmuni Íslands gagnvart viðskiptaþjóðum okkar. Stefnumótun í utanríkismálum skal ætíð taka mið af hagsmunum lands og þjóðar hverju sinni.

EES-samningurinn

EES-samningurinn er mikilvægasti og umfangsmesti efnahagssamningur Íslands og því þarf að tryggja skilvirka framkvæmd og þróun hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið. Brátt eru liðin 25 ár frá því Ísland gekk í EES. Samstarfið hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma og frekari breytinga er að vænta. Þau tækifæri sem Íslendingum hafa opnast með tilkomu EES samningsins eru ótvíræð og mörg.

Ísland verði áfram virkur aðili í stefnumótun um málefni norðurslóða

Ísland á að nýta möguleikana sem kunna að skapast með opnun siglingaleiðar um norðurslóðir og eiga frumkvæði að stofnun alþjóðlegrar öryggis- og björgunarmiðstöðvar með höfuðstöðvar á Íslandi. Við það ber að nýta þá þekkingu og mannauð sem þegar hefur byggst upp í þeim efnum til að mynda innan háskólasamfélagsins.

Öryggi og varnir lands og þjóðar

Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu ásamt þátttöku í varnarsamstarfi við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli tryggir best öryggi borgaranna og ríkisins enda séu mannréttindi og lýðræði leiðarljós slíks varnarsamstarfs. Þátttaka Íslands í slíku samstarfi skal byggja á borgaralegum, félagslegum og mannúðartengdum verkefnum. Unnið skal eftir nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu sem tryggir sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis og innviði samfélagsins. Mikilvægt er að huga að stafrænu öryggi opinberrar starfsemi og fyrirtækja þar sem sífelld öryggisógn stafar af netárásum og árásum á stafræna innviði. 

Verslun, viðskipti og samvinna við önnur ríki

Fríverslunarsamningar greiða leið fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki en við gerð slíkra samninga þarf ávallt að hafa hagsmuni almennings og þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ísland skal áfram beita sér fyrir bættu aðgengi fátækra ríkja að alþjóðaviðskiptum og afnámi viðskiptahindrana gagnvart þeim.

Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum

Ísland á að vera í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum og styðja alþjóðlega samninga þar um. Skattaskjól eru ríki sem gera litlar eða engar kröfur um að eignarhald fyrirtækja sé þekkt og innheimta litla eða enga skatta af þeim. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu til að komast hjá skattlagningu. Skattheimta er forsenda þess að ríki geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt íbúum mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veikja því velferðarsamfélögin um leið og þau auka ójöfnuð. Þau þurfa að víkja.

Ísland verði áfram í fararbroddi í mannréttindum og jafnrétti og efli þróunarsamvinnu.

Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málaflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum. Auka þarf framlög til neyðaraðstoðar til að aðstoða fólk sem er á flótta.

Unnið skal áfram að uppbyggingu þróunarsamvinnu og þekkingu sem byggð hefur verið upp innanlands á vettvangi Háskóla Sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu.

Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu uppfylli markmið Sameinuðu þjóðanna.

Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna Sýnt hefur verið fram á aukin efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Ísland á jafnframt að vera leiðandi í réttindabaráttu hinsegin fólks og tala máli þess fólks á alþjóðavettvangi.

Styttum þann tíma sem tekur að meðhöndla óskir um alþjóðlega vernd

Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Það er ómannúðlegt að láta fólk dvelja hér í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þarf aukinn kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni til að sinna þeim sem líklega munu fá alþjóðlega vernd.

Framsókn krefst þess að áfram sé unnið með opið upplýsingaflæði og í góðu samstarfi við aðrar erlendar þjóðir en um leið að sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar sé tryggt með skýrum og eðlilegum takmörkunum.  Ísland á að taka vel á móti flóttafólki sem sannarlega þarf á vernd að halda.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)