Náttúra

Loftslagsmál – græn orka – tækifæri Íslands

Loftslags- umhverfis- og auðlindamál
  • Framsókn vill að tekin verði enn stærri skref á næstu árum í áframhaldandi orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi og á sjó. Markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að raforkukerfið sé forsenda orkuskipta og efnahagslegra framfara með nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Til þess verða nauðsynlegir innviðir að vera fyrir hendi.
  • Eftirspurn eftir framleiðslu úr grænni orku og hreinu vatni fer hraðvaxandi um allan heim. Framsókn vill nýta tækifæri til útflutnings á orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.
  • Framsókn vill efla grænan iðnað, þar á meðal vetnisframleiðslu, og nýta tækifærin í landinu til nýsköpunar, þróunar og verðmætasköpunar í loftslagsmálum. Stefnan er kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040.
  • Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Hringrásarhagkerfið snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs.
  • Framsókn vill að markvisst verði stefnt að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal þau sem varða umhverfis- og loftlagsmál og að almenningur hafi tækifæri til þess að hafa áhrif á þau.
  • Náttúruvernd er mikilvæg en verndun og nýting lands getur í mörgum tilvikum farið saman. 

Grunnstef í stefnu Framsóknarflokksins er virðing fyrir náttúrunni. Íslendingar byggja sína tilveru á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar. Mikilvægt er að arður af nýtingu auðlindanna renni til samfélagsins og að nýting sé ávallt út frá viðmiðum hringrásarhagkerfisins. Hreint loft, land og haf, ásamt fjölbreytni íslenskrar náttúru eru auðlindir sem þarf að umgangast af varúð og virðingu. Stefna Framsóknar í loftslags-, umhverfis- og auðlindamálum tekur mið af áherslum í grundvallarstefnu flokksins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Loftlagsváin

Loftslagsváin er ein helsta ógn mannkyns og viðbrögð við henni því eitt stærsta verkefni stjórnmálanna hér heima fyrir og ekki síður í alþjóðasamvinnu. Framsóknarflokkurinn gerir kröfu um að framfylgja loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins, að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5°C. Ísland getur verið fyrirmynd annarra ríkja með stefnu um kolefnishlutleysi og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Takmark um kolefnishlutleysi er vel gerlegt með víðtækri aðgerðaráætlun stjórnvalda, þáttökuvilja almennings, stefnufestu og samvinnu allra aðila. Leggja þarf áherslu á orkuskipti í samgöngum, stóraukna kolefnisbindingu með skógrækt, landgræðslu og bindingu í bergi, markvissari aðgerðir til að auka endurnýtingu efna og úrgangs sem og hvata sem draga úr hvers kyns sóun. Ísland á að vera leiðandi í grænum lausnum og nýsköpun en það eru lykilþættir til þess að taka á við loftlagsvánna.

Orkan og loftslagið

Ísland er ríkt af endurnýjanlegum orkugjöfum sem mikilvægt er að nýta á skynsamlegan hátt. Íslenskt samfélag á að hagnast af nýtingu innlendra orkugjafa, meðal annars með aukinni uppbyggingu, fjölgun starfa og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Mikilvægt er að fylgja vel eftir áherslum aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum og stuðla að orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og legi samhliða uppbyggingu nauðsynlegra innviða sem því fylgja.

Framsókn telur mikilvægt að unnið verði eftir markvissri stefnu um orkuskipti í samgöngum og stutt verði við fjölbreytta framleiðslu innlendra orkugjafa fyrir samgöngur: rafmagn, rafeldsneytis og metan. Stutt verði vel við rannsóknir og nýsköpun á umhverfisvænum orkugjöfum.

Mikilvægt er að framkvæma kostnaðar- og ábatagreiningu til að kortleggja hvers konar hvatar eða kvaðir eru líklegastir til að skila samfélaginu samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Styðja þarf enn frekar við nýsköpun sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaði og annarri orkufrekri starfsemi sem og innan græna hagkerfisins. Eins er mikilvægt að styðja allar hliðar atvinnulífsins til að leita umhverfisvænni lausna í sinni starfsemi og vöruþróun.

Virkjun orku og stuðningur erlendis

Framsókn telur mikinn ávinning nást með því að einfalda regluverk í kringum smávirkjanir og auðvelda einstaklingum og minni aðilum að starfrækja þær. Ísland býr yfir miklum mannauð og stjórnvöld þurfa að stuðla að því að nýta á alþjóðavettvangi alla þá þekkingu sem Íslendingar búa yfir á vatnsafli og jarðvarma m.a. til að aðstoða fleiri þjóðir í baráttunni við lofslagsvána. Vegna stærðar sinnar og þjóðhagslegs mikilvægis gegnir Landsvirkjun lykilhlutverki í orkuskiptum. Ríkið setji Landsvirkjun eigendastefnu til þess að ná markmiðum um hröð orkuskipti.

Beislun vindsins mun gegna mikilvægu hlutverki í orkuskiptunum. Aðstæður eru hér góðar vegna hagstæðra vindskilyrða á landi og sjó. Ekki síst telst vindorkan ákjósanleg saman með vatnafli. Nú þegar vindorka verður sífellt hagkvæmari á Ísland að geta haldið forystuhlutverki sínu í nýtingu grænnar orku. Mikilvægt er að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðki fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins.  Líta ber á vindinn sem viðbót í sameiginlegum orkuauðlindum  landsmanna og auðlindarenta renni til ríkisins. Sátt verður að nást um sanngjarnt afgjald mannvirkja til viðkomandi sveitarfélaga.

Skipulag og kolefnishlutleysi

Innleiða þarf kröfur/takmarkanir um loftslagsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda í landskipulagsstefnu. Jafnframt leggjum við til að komið sé á hvatakerfi með það að markmiði að virkja landsmenn til þátttöku í landgræðslu og skógrækt. Mikil sóknarfæri eru í loftlagsvænni hönnun húsa og mannvirkja. Skoða ætti að setja hámark á leyfilegt kolefnisspor framkvæmda sem og innleiðingu krafna um lífsferilsgreiningar í byggingariðnaði.

Menntun og nýsköpun

Tryggja þarf fræðslu um loftslags- og umhverfisvá meðal annars í gegnum menntakerfið. Skólastarfi þarf einnig að styðja við og efla nýsköpun á þessu sviði þvert á skólastig.

Nýsköpun og nýjar lausnir eru lykilatriði til þess að sigrast á þeirri áhættu sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér. Efla þarf fræðslu og hvetja frumkvöðla til að huga að lausnum sem snúa að lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa, aukinni hringrás og eflingu sjálfbærrar þróunar.

Hringrásarhagkerfið

Eitt brýnasta viðfangsefni samtímans er að sporna við sóun og auka endurnýtingu og endurvinnslu takmarkaðra auðlinda jarðarinnar.  Framsókn leggur áherslu á mikilvægi hringrásarhugsunar í tengslum við stjóriðju með bættri fjölnýtingu auðlinda og innviða. Nýta þarf tækifæri sem snúa að aukinni samkeppnishæfni og hagræðingu með jákvæðum aðgerðum fyrir samfélagið og umhverfið. Með hringrásarhugsun er lögð áhersla á fullnýtingu auðlindastrauma sem falla til innan svæðisins. Ísland á að vera leiðandi í ábyrgri meðhöndlun, endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs. Styðja þarf við uppbyggingu hringrásarhagkerfis þar sem úrgangur og aðföng eru endurunnin og endurnýtt á þann hátt að þau skapi verðmæti fyrir samfélagið. Mikilvægt er að útfærsla nýrra laga um samræmda flokkun úrgangs í hringrásarhagkerfinu gangi hratt fyrir sig með góðri samvinnu sveitarfélaga, fyrirtækja og almennings. Veruleg verðmæti geta falist í nýjum afurðum sem verða til í Hringrásarhagkerfinu.

Halda þarf á lofti mikilvægi þess að minnka matar- og fatasóun. Gera þarf almenningi það ljóst hversu stór áhrifavaldur matar- og fatasóun er í loftslagsmálum. Koma þarf á sérstökum hvötum til veitingastaða, matvælaframleiðenda og matvöruverslana til að draga úr matarsóun í rekstri. Styrkja þarf farvegi til móttöku á notuðum fötum og textíl.

Framsókn leggur áherslu á að framleiðendur og seljendur vöru séu hvattir til að huga að umbúðanotkun og sóun. Skoða þarf af festu hvort þörf sé á reglugerð eða almennum viðmiðum.

Framsókn telur að útvíkka þurfi úrvinnslusjóð þannig að hann nái til alls innflutnings hvort sem það eru hráefni eða neytendavara. Tilgreina þarf hver ábyrgð framleiðenda og innflytjenda  er og taka tillit til þeirra endurvinnslumöguleika sem hér bjóðast. Fylgja þarf eftir þessum markmiðum og mæla árangur með skilmerkilegum hætti.

Matvæli og ræktun á Íslandi

Innlend matvælaframleiðsla hefur aldrei verið brýnni en nú þar sem hún eykur fæðuöryggi og dregur úr kolefnisspori landsins í heild. Æ betur kemur í ljós mikilvægi þess að við séum sjálfum okkur nóg. Mikill ávinningur fæst af nýtingu útblásturs CO2 og glatvarma til ræktunar á grænmeti og ávöxtum.

Styðja þarf við nýsköpun í matvælaframleiðslu og tilraunir við ný matvæli svo sem úr þörungum og dýrasvifi.

Náttúruauðlindir og auðlindanotkun

Framsóknarflokkurinn hefur löngum ítrekað mikilvægi þess að tryggja landsmönnum sanngjarnan arð vegna nýtingar náttúruauðlinda landsins. Þá er mikilvægt að náttúruauðlindir landsins séu skilgreindar og að haldið sé náttúruauðlindabókhald í samræmi við viðmið Sameinuðu þjóðanna til að halda utan um auðlindir landsins og tryggja að ekki sé gengið á þolmörk þeirra.

Auðlindaákvæði þarf að vera í stjórnarskrá og landsmönnum með því tryggður sanngjarn arður af sameiginlegum auðlindum. Lögfesta þarf það sem flokkast til auðlinda hér á landi eins og kostur er og hvaða auðlindir Íslands skulu vera í þjóðareign.

Lífríki lands og sjávar

Íslensk náttúra er auðlind, hún er sérstök og hefur gildi á heimsvísu. Því þarf að viðhalda líffræðilegri og jarðfræðilegri fjölbreytni sem og fjölbreytni íslensks landslags. Vernda skal til frambúðar það sem getur talist sérstætt, sögulegt eða mikilvægt á annan hátt. Þá er mikilvægt að Íslendingar þekki vel samspil náttúru lands og sjávar.

Hreinleiki hafs er verðmæti sem mikilvægt er að virða og vernda um ókomna tíð. Efla þarf rannsóknir og þekkingaleit á súrnun sjávar sem er ógn við lífríki hafsins.

Jarðvegurinn sjálfur er einnig verðmæt auðlind til fæðuframleiðslu og kolefnisbindingar. Þar liggja fjölmörg og verðmæt tækifæri. Eðlilegt er að samfélagið setji reglur um eignarhald bújarða. Leggja skal áherslu á verndun landslagsheilda, vist- og landgerða sem og líffræðilegs fjölbreytileika. Vinna skal skipulagsáætlanir fyrir allt land í almannaeigu, þar með talið hálendið og þjóðlendur. Þá skal flokkun lands vera skilgreind í landskipulagsstefnu.

Vinna ætti landnýtingarstefnu fyrir allt landið og strandsvæði sem taki mið af þolmörkum. Landnýtingaráætlun gæti stutt við skipulag sveitarfélaga svo dæmi sé tekið. 

Mikilvægt er að tryggja net friðlanda í óbyggðum. Unnið skal áfram að uppbyggingu friðaðra svæða í náinni samvinnu við sveitarfélögin og með landnýtingaráætlanir að leiðarljósi. Auka ætti landvörslu í samráði við heimamenn og skýra ábyrgð hennar á viðkvæmum svæðum.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)