Categories
Greinar

Af ESB, IPA og þjóðaratkvæðagreiðslu

Deila grein

19/08/2013

Af ESB, IPA og þjóðaratkvæðagreiðslu

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” – Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins

ESB

Aðild Íslands að Evrópusambandinu var ekki eitt af stærstu málum kosningabaráttunnar í vetur en flokkarnir upplýstu að sjálfsögðu um fyrirætlanir sínar varðandi málið. Núverandi stjórnarflokkar fóru ekki leynt með þá ætlun sína að ef þeir fengu umboð frá þjóðinni yrði breytt um stefnu. Flokkarnir hlutu meirihluta þingsæta og lýðræðislegan rétt til að fylgja eftir stefnu sinni varðandi ESB og önnur mál.

Í stjórnarsáttmálanum segir að gert verði hlé viðræðunum. Það þýðir að sjálfsögðu að ekki verður meira unnið við aðildarferlið og kröftunum beint í önnur verkefni.  Stöðu viðræðnanna þarf að meta og til grundvallar því liggur stöðuskýrsla frá því í apríl. Verður metið hvort ástæða sé til að skoða ákveðna hluta hennar betur og/eða leita svara við spurningum sem etv. er ekki svarað. jafnframt er ætlunin að leggja mat á þróun Evrópusambandsins frá því að ferlið hófst 2009 og reyna að meta hvernig líklegt er að ESB þróist á næstu árum.

Nýverið birti breska blaðið Daily Mail niðurstöður könnunar sem gerð var meðal íbúa Evrópusambandsins. Spurt var um traust til sambandsins og var niðurstaðan sú að 60% treysta ekki sambandinu. Svo afgerandi lýsing á vantrausti hlýtur að valda stjórnendum ESB áhyggjum.

IPA

Með stöðvun aðildarviðræðna er þó að mörgu að huga, t.a.m. framtíð IPA-verkefna hér á landi.

IPA (Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir fjölþætta aðstoð sem ESB veitir umsóknarríkjum til að undirbúa aðild. Með það að leiðarljósi var það tekið skýrt fram samhliða stöðvun aðildarviðræðnanna að ekki yrði af IPA verkefnum sem ekki væru hafin að nokkru leyti. Ríkisstjórnin ákvað þó að leggja til að verkefni sem komin voru af stað eða búið var að eyða miklum tíma og kröftum í að undirbúa yrðu kláruð. Á þetta féllst ESB ekki þar sem viðræður um aðild hafa verið stöðvaðar. Ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta við styrkina má skilja sem staðfestingu á því að ekki sé lengur litið á Ísland sem ríki í umsóknarferli.

Nokkrar staðreyndir um styrkina:

  • Ekki stendur til að hætta við þau verkefni sem þegar eru hafin, en viðræður um að ljúka þeim fara fram í næsta mánuði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ESB muni krefjast endurgreiðslu á þeirri upphæð sem  hefur verið lögð í þau verkefni.
  • Heildarstuðningurinn sem Íslandi stóðtil boða nam um 6,2 ma. kr., þar af voru 5,2 ma. ásvokallaðri landsáætlun sem skipt var áárin 2011, 2012 og 2013.
  • Öll verkefni álandsáætlun 2011, aðupphæð1,8 ma. kr., voru umsamin og hafin utan Matís-verkefnisins sem fellur þ.a.l. niður.
  • Öll verkefni á landsáætlun 2012 og 2013 falla niður, utan eitt sem var hafið; styrkur til að undirbúa stjórnunareiningu fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðunum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti af landsáætlun 2012.

Yfirlit yfir landsáætlun – https://www.utanrikisraduneyti.is/media/ipa/Yfirlit-IPA-verkefna-2011-2013.pdf

Verkefnin sem hlotið höfðu brautargengi hjá „commisjóninni“ í Brussel eru mörg áhugaverð og hægt að setja sig í spor þeirra sem að þeim standa, að sækja í þá miklu fjármuni sem ESB bauð uppá. Nú þurfa þessir aðilar að leita leiða til að fjármagna verkefnin með öðrum hætti, fresta þeim, hægja á þeim, hætta við eða forgangsraða.

Evrópusambandið og fyrri stjórnvöld höfðu byggt upp miklar væntingar í kringum IPA styrkina. Á alþingi vöruðu alþingismenn við slíkum væntingum og lýstu sumir efasemdum um réttmæti styrkjanna.

IPA styrkir eða annar hvati frá Evrópusambandinu má ekki vera drifkrafturinn fyrir aðildarumsókn. Hún þarf að byggja á vilja sem flestra Íslendinga til að vilja aðlaga líf sitt að sambandinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Í stjórnarsáttmálanum segir að “Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” Einhverra hluta vegna hefur þessi setning verið túlkuð með ólíkum hætti en ætti ekki að þurfa. Ekki verður um frekari viðræður eða vinnu að ræða þar sem búið er að gera hlé. Fólk getur treyst því að ekki verða viðræður hafnar á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nýjustu kannanir sýna að 57,4 % Íslendinga eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Þar liggja eflaust margar ástæður að baki en staðreyndin er sú að meirihluti þjóðarinnar er á móti aðild.