Categories
Greinar

Hvenær er maður nógu gamall?

Deila grein

09/08/2016

Hvenær er maður nógu gamall?

Róbert Smári GunnarssonMér líður stundum sem 16 ára ungum manni einsog litið sé niður til mín þegar ég tjái skoðanir mínar opinberlega. Eitt sinn var sagt við mig að ég ætti ekkert að vera tjá mig um hluti sem ég hefði ekkert vit á, sem dæmi.

Ég hef gífurlegan áhuga á þjóðfélagsmálum og dreymir um að taka þátt í pólitískri vinnu í framtíðinni. „En hvenær ætti ég að þora því?“ er spurning sem veltur án efa á mörgu ungu fólki, og ég velti fyrir mér áður en ég sendi þessa grein.

Hvað þarf maður að hafa til að geta farið út í pólitík, eða bara til að vera tekin sjálfsagður í umræðu um pólitík? Þarf ég að vera háskólagenginn, búinn að vera á vinnumarkaði í áratugi, kominn með maka og börn?

Eftir að umræðan átti sér stað meðal fjölda einstaklinga á samfélagsmiðlum þegar Gauti Geirsson var ráðinn sem aðstoðarmaður ráðherra, veltir maður þessum spurningum fyrir sér sem og þegar Jóhanna María Sigmundsdóttir settist á þing, þau voru tætt í sig meðal eldra fólks og sögð vera börn.

Ég lít á þetta unga fólk sem ákveðna hvatningu, hvatningu til ungs fólks að láta í sér heyra, koma sínu á framfæri og láta gott af sér leiða. Þegar einhver nær svona langt og fær gott tækifæri hjá stjórnvöldum er það virðingavert og mikið fagnaðarefni, og sýnir traust stjórnvalda til ungs fólks-, og vilja til að gefa ungu fólki tækifæri, en samt ná neikvæðu raddirnar of oft að verða háværastar.

Getum við ekki breytt þessu þannig að ungt fólk verði tekið sem sjálfsögðum hlut í umræðunni líkt og þeir sem eldri eru?

Það eiga allir sama rétt til að tjá sig, óháð aldri, búsetu, uppruna, efnahag og öðru.

Róbert Smári Gunnarsson

Greinarhöfundur er áhugamaður um pólitík og stjórnarmeðlimur í stjórn SUF