Siðareglur Framsóknar
Tilgangur þessara siðareglna er að stuðla að trúmennsku, ábyrgð, heiðarleika, réttsýni og sanngirni. Þeim er ætlað að efla traust og tiltrú á störfum einstaklinga sem tala, skrifa eða tjá sig á annan hátt í nafni Framsóknarflokksins. Trúnaðarmenn og starfsmenn skulu ávallt stuðla að framgangi þessara reglna, styðja við þær og ganga á undan með góðu fordæmi. Siðareglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu flokksins og þar aðgengilegar öllum, þær ná til allra félaga. Öllum sem gegna trúnaðarstörfum í nafni Framsóknarflokksins ber að fylgja lögum og siðareglum í störfum sínum.
1. gr. Virðing og traust.
Framsóknarflokkurinn starfar með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Í störfum sínum ber félagsmönnum að hafa það hugfast og á þann hátt styðja hver annan í starfi.
2. gr. Heiðarleiki og hagsmunaárekstrar.
Öllum störfum í þágu flokksins skal gegna af trúmennsku og heiðarleika. Greina skal opinberlega frá öllum persónulegum hagsmunum sem geta haft óeðlileg áhrif á störf í þágu flokksins.
3. gr. Ábyrgð.
Flokksfélagar og starfsmenn eiga að vinna störf sín af háttvísi og samviskusemi og eiga ávallt að vera reiðubúnir að axla ábyrgð á verkum sínum. Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins ályktar um ábyrgð vegna brota á reglum þessum í samræmi við lög Framsóknarflokksins.
4. gr. Gagnsæi.
Grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu eiga ávallt að vera hafðar í heiðri. Lögmæt og málefnaleg sjónarmið eiga ávallt að ráða för við ákvarðanatöku.
5. gr. Hlutlægni.
Ákvarðanir á að taka á yfirvegaðan hátt hverju sinni. Óheimilt er að misnota stöðu í eigin þágu eða annarra. Kjörnir fulltrúar, eiga í hvívetna að gæta þess að fara vel með hlutverk sitt.
6. gr. Jafnrétti.
Jafnrétti á að hafa að leiðarljósi í öllum störfum á vegum flokksins, með það að markmiði að koma í veg fyrir mismunun svo sem vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, fötlunar búsetu, stéttar, trúarbragða og heilsufars.
7. gr. Trúnaður.
Trúnaðarmenn flokksins eiga að virða trúnað í sínum störfum og vinna eftir gildandi reglum um þagnarskyldu jafnt innan flokks sem utan. Trúnaðarmönnum, er óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar í eigin ágóðaskyni.
8. gr. Gjafir og styrkir.
Framsóknarflokkurinn starfar samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Trúnaðarmönnum flokksins er óheimilt að þiggja gjafir eða fríðindi sem ætla má að gefnar séu í óeðlilegum tilgangi vegna stöðu þeirra.
9. gr. Tilkynningar til siðanefndar.
Brot á siðareglum eru litin alvarlegum augum. Félagsmenn sem verða vitni að atvikum sem ætla má að að brjóti gegn siðareglum flokksins geta tilkynnt brotið afdráttarlaust og með rökstuðningi til siðanefndar skriflega. Siðanefnd skal halda trúnað um tilkynningar sem berast nefndinni.
10. gr. Meðferð brota á siðareglum.
Um málsmeðferð vegna brota á siðareglum þessum fer eftir lögum Framsóknarflokksins.
Samþykkt á 31. Flokksþingi Framsóknarmanna 2011.
Svo breytt á 35. Flokksþingi Framsóknarmanna 2018.
Deila