Jafnréttisáætlun Framsóknar
Jafnréttisáætlunin kveður á um hvernig Framsóknarflokkurinn í innra sem ytra starfi vinnur að jafnrétti og virðingu meðal allra þeirra sem að flokksstarfinu og að stjórnmálum koma. Markmiðið er að ná jafnri þátttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri í störfum á vegum flokksins, ákvarðanatöku og ábyrgðarskiptingu.
Framkvæmd og umfang
Áætlun þessi tekur til allra stofnana flokksins sem og til allra þeirra sem gegna trúnaðar- og ábyrgðarstörfum fyrir flokkinn.
Jafnréttisfulltrúi – jafnréttisnefnd
Jafnréttisfulltrúi skal starfa á vegum flokksins og hafa aðgang að starfsmanni. Skal hann koma með tillögur og ábendingar til þeirra sem undirbúa framboð á vegum flokksins. Jafnréttisfulltrúi heyrir undir landsstjórn Framsóknarflokksins og kynnir henni árlega stöðu jafnréttismála í flokknum.
Jafnréttisfulltrúi er flokksfélögum, kjördæmisráðum, þingflokki, framkvæmdastjórn og öllum félagsmönnum til ráðgjafar og aðstoðar í jafnréttismálum. Meðal annars til að vinna að jafnri þátttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri í starfi á vegum flokksins. Jafnréttisfulltrúi vinnur í nánu samstarfi við stofnanir flokksins að stefnumótun í jafnréttismálum innan Framsóknarflokksins og stjórnmálastarfi á vegum hans innan stjórnkerfisins.
Jafnréttisnefnd flokksins hefur það hlutverk að fylgja eftir jafnréttisáætlun Framsóknarflokksins. Í jafnréttisnefnd eiga sæti fulltrúi frá LFK, SUF og þingflokki auk framkvæmdastjóra flokksins. Jafnréttisfulltrúi skal vera formaður jafnréttisnefndar. Jafnréttisnefnd skal halda fundi eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári.
Stjórnir kjördæmissambanda skulu í samvinnu við jafnréttisfulltrúa vinna að hugmyndum til að ná fram markmiðum jafnréttisáætlunarinnar í hverju kjördæmi fyrir sig.
Jafnréttisáætlanir stofnana flokksins
Jafnréttisnefnd beinir því til sérsambanda, kjördæmastjórna, þingflokks og framkvæmdastjórnar að árlega verði gerð starfsáætlun í jafnréttismálum innan viðkomandi stofnana flokksins. Þar komi fram hvernig þau hyggjast vinna á grundvelli jafnréttisáætlunar og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar í þeim tilgangi.
Flokksmönnum verði reglulega kynntar upplýsingar um stofnanir flokksins, á Alþingi, í ráðuneytum, sveitastjórnum og meðal ráðherra flokksins þar sem gerður er samanburður milli ára, m.a. með tilliti til kynjahlutfalls.
Jafnréttisnefnd veitir viðurkenningu á flokksþingi þeirri flokksstofnun eða einstaklingum sem skarað hafa framúr að framgangi jafnréttisáætlunar flokksins.
Fræðsla og kynning
Fræðsla um jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnari stöðu félgasmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri skal vera virkur þáttur í starfi jafnréttisfulltrúa.
Áhersla á kynjajafnrétti
Ýmis framkomu- og ræðunámskeið ásamt kynningarstarfi skulu vera virkur þáttur í starfsemi flokksins í því skyni að jafna stöðu kynjanna. Jafnréttisfulltrúi í samvinnu við fræðslu- og kynninganefnd flokksins skal vinna að því að námskeið séu haldin sem víðast.
Flokkurinn úthlutar árlega styrk til jafnréttisnefndar vegna útgáfu- og kynningarstarfsemi sem hefur það markmið að jafna stöðu kynjanna.
Lög og reglur Framsóknarflokksins, kjördæmissambanda og framsóknarfélaga verði yfirfarnar með það að markmiði að tryggja jafna stöðu kynjanna en jafnframt skal markmiðið fela í sér jafna stöðu félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri.
Nefndir, ráð og framboðslistar
Við röðun á framboðslista, skipan í nefndir, starfshópa og stjórnir á vegum flokksins skulu hlutfall kynja vera sem jafnast. Jafnréttisfulltrúi verði í nánu samstarfi við þá sem málið varðar.
Það markmið skal halda að árið 2020 verði hvorki hlutur karla né kvenna í trúnaðar- og ábyrgðarstöðum á vegum flokksins lakari en 40%.
Endurskoðun árið 2020
Áætlun þessi skal endurskoðuð annað hvert ár fyrir flokksþing. Endurskoðunin skal taka mið af könnun á árangri áætlunarinnar.
Deila