Mennta- og barnamál
1. Mennta- og barnamál
Fjárfesting í okkar mikilvægustu borgurum, börnunum okkar, farsæld þeirra og þjónusta á þeirra forsendum er eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. Undanfarin ár hefur orðið umbylting í þessum málaflokki, og erum við nú farin að sjá skólakerfið fylgja með. En það er einmitt grundvöllur alls, samspil allra kerfa til þess að búa börnunum okkar sem besta framtíð sem möguleg er. Ábyrgð stjórnvalda í því að hlúa að menntakerfinu sem heildrænu ferli, tryggja samfellu í þjónustu og innihaldi náms milli skólastiga er þjóðþrifamál. Áframhaldandi aukið fjármagn og fjárfesting, til skóla, frístundar, íþróttamála og svo mætti lengi telja er lykilatriði þess að hægt sé að skapa enn farsælla samfélag fyrir okkur öll.
1.1 Leikskóli og fæðingarorlof
Leikskólastigið, samspil þess við fæðingarorlof og önnur dagvistunarúrræði eru eitt af brýnustu úrlausnarefnum samtímans. Það að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla er algjört lykilatriði til þess að tryggja börnum og foreldrum sem best tækifæri og lífsgæði. Tekin hafa verið skref í lengingu fæðingarorlofs, þeirri vegferð þarf að halda áfram, en það þarf líka að horfa á allt skólakerfið í þessu samhengi. Þetta er líka samfélagsverkefni, samspil vinnumarkaðar og fæðingaorlofs þarf að verða sveigjanlegra og tækifæri foreldra til hlutastarfa verði aukin. Einnig er ljóst að bregðast þarf við mönnunarvanda leikskólanna. Þar þarf að bæta starfsaðstæður og draga úr álagi. Allt þetta þarf að skoðast með velferð barna að leiðarljósi, vinnudagur barnanna okkar má ekki verða of langur. Leikskólinn getur einnig verið ein lykilstoð þess að auka inngildingu í íslensku samfélagi, með því að tryggja börnum með erlendan menningar[1]og tungumálabakgrunn aðgengi að leikskóla til jafns við íslensk börn er hægt að stíga stór skref í íslenskukennslu.
- Framsókn ætlar að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
- Framsókn vill að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði.
- Framsókn telur að fæðingarorlof eigi að skiptast sem jafnast á milli foreldra barns.
- Framsókn vill að lágmarksupphæð fæðingarorlofsgreiðslna sé ákvörðuð í samræmi við lágmarksframfærslu.
- Framsókn telur að styðja þurfi betur við námsmenn sem eignast börn á meðan námi stendur eða við lok þess.
- Framsókn vill meiri sveigjanleika að hálfu vinnumarkaðarins til að geta tekið fæðingarorlof að hluta á móti vinnu.
- Framsókn vill að greidd séu full laun til foreldra í fæðingarorlofi og samhliða sé hámarksupphæð endurmetin og lágmarksupphæð ákvörðuð í samræmi við lágmarksframfærslu.
- Framsókn vill láta endurmeta þær reglur sem gilda um fæðingarorlof fjölburaforeldra.
- Framsókn vill kanna möguleika á því að framselja hluta af fæðingarorlofi til náinna fjölskyldumeðlima. Horfa þarf þá sérstaklega til einstæða foreldra.
- Framsókn vill kanna möguleika á því að hafa skólaskyldu frá 4 ára aldri í leikskóla að undangenginni lögfestingu leikskólastigsins sem fyrsta skólastigs.
- Framsókn vill lögfesta heimildir til sveitarfélaga til að setja reglur um systkinaforgang við innritun í leikskóla.
- Framsókn telur að bæta þurfi vinnuaðstæður starfsfólks á leikskólum og draga úr álagi.
- Framsókn telur mikilvægt að bæta náms- og leikgagnakost leikskólanna til að létta undir álagi og auðvelda faglegt starf.
1.2 Grunnskóli
Menntunarstig og jafnrétti til náms er besti mælikvarði samfélaga á farsæld. Sveitarfélög landsins eru misvel í stakk búin til að tryggja lögbundna þjónustu í grunnskólum landsins með tilliti til fjárhagsstöðu og því þarf aukna aðkomu ríkisins til að tryggja bæði fullnægjandi kennslu og farsæld barna. Halda verður áfram að byggja upp menntunarkerfi sem þjónar öllum samfélagshópum. Til þess verður að tryggja kennurum og starfsfólki skóla starfsumhverfi og þjónustu til að hjálpa þeim að takast á við breytta samfélagsmynd. Tekist hefur á undanförnum árum að fjölga í kennaranámi, þó enn séu áskoranir til staðar varðandi fjölgun nýútskrifaðra kennara til móts við þá sem eru að hætta vegna aldurs. Fylgja þarf eftir með aukinni þjónustu við kennara og þar mun ný þjónustustofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, gegna lykil hlutverki. Þá þarf að festa í lög skólaþjónustu sem tryggir skólum þá þjónustu sem þörf er á, og börnunum ekki síst, úrræði sem takast á við áskoranir með þeim strax, án greininga og langs biðtíma. Einnig er ljóst að setja þarf á samræmdan matsferil í gegn um skólagöngu grunnskólabarna, bæði sem matstæki fyrir skólana og stjórnvöld, en ekki síst til að vakta framfarir barnanna okkar, að við getum mætt þeim sem eiga við örðugleika að stríða á þeirra forsendum.
- Framsókn vill sjá lífsleikni sem sér faggrein í aðalnámskrá grunnskóla. Með meiri áherslu á meðal annars forvarnir, gagnrýna hugsun, borgaravitund, kynjafræði, kynfræðslu og fjármálalæsi.
- Framsókn vill að ríki og sveitarfélög standi sameiginlega að reglulegu ytra mati á starfsemi grunnskóla.
- Framsókn vill að skólaþjónusta sé stórefld, kennarar fái þann stuðning sem nútímasamfélag kallar á og að nemendum sé mætt á þeirra forsendum.
- Framsókn vill að öll börn í grunnskólum fái jöfn tækifæri til menntunar og skólar hafi aðgang að fjölbreyttum verkfærum til inngildingar.
- Framsókn vill að settur sé á samfelldur matsferill í kjarnagreinum fyrir alla nemendur grunnskóla. Slíkur matsferill sýnir meðal annars framfarastuðul nemenda á milli ára og/eða skólastiga grunnskóla.
- Framsókn vill stórefla námsgagnagerð og nýtingu tæknilausna til miðlunar. Nauðsynlegt er að sett séu skýr og gagnsæ gæðaviðmið sem hægt er að styðjast við þegar kemur að þróun námsgagna.
- Framsókn vill að horft sé til aukinnar nýsköpunar og þýðinga á fjölbreyttu námsefni til að auka enn frekar framboð efnis til að mæta þörfum ólíkra nemendahópa.
- Framsókn telur að endurskoða þurfi stöðu dönskukennslu í grunn- og framhaldsskólum.
- Framsókn vill að nemendum sé tryggð fullnægjandi kennsla í list-, verk- og tæknigreinum auk kynningar á framboði til framhaldsnáms í þessum greinum.
- Framsókn telur mikilvægt að efla starfsþróun og símenntunarmöguleika kennara.
- Framsókn telur að það sé samfélagslegur hagur í að kenna grunn í táknmálsfræðum.
- Framsókn vill grípa til aðgerða gegn skólaforðun.
1.3 Framhaldsskóli
Framhaldsskólakerfið stendur á ákveðnum tímamótum. Mikil áskorun er að takast á við aukinn fjölda nemenda með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn, stóraukin aðsókn er í starfs- og verknám, fjölbreyttari hópur nemenda með ólíkar þjónustuþarfir og stóraukinn fjöldi nemenda á starfsbrautum eru verkefni sem við blasa. Það er á okkar ábyrgð að mæta þessum áskorunum, við verðum að geta komið til móts við þessa hópa og til þess þarf að skapa kennurum og öðru starfsfólki framhaldsskólanna svigrúm og gefa verkfæri til að mæta þessum nýja veruleika. Til þess að hægt sé að gera það verður kerfið að hafa fjárhagslegt svigrúm til að taka á því, tryggja þarf framhaldsskólakerfinu fjármögnun í takt við þarfir nemenda og að skólarnir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Nú er komin reynsla á styttingu náms til stúdentsprófs, við þurfum að læra af þeirri breytingu, skoða innihald námsins, skoða skólakerfið í heild frá leikskóla upp í háskóla og brjóta múra milli stiganna. Tryggja þarf námsframboð í heimabyggð allt landið um kring, rekstrargrundvöllur minni skóla vítt og breytt um landið þarf að vera tryggur enda eru þessir skólar oft hjarta sinna samfélaga.
- Framsókn vill fá heimavist á höfuðborgarsvæðið fyrir framhaldsskólanemendur.
- Framsókn vill að skólaþjónusta verði stórefld í framhaldsskólum og skólum verði gert kleift að koma til móts við nemendur á þeirra forsendum.
- Framsókn telur að endurhugsa þurfi fjárveitingar til framhaldsskóla á grundvelli þjónustuþarfa nemenda.
- Framsókn vill að fjölgað verði sérsniðnum íslenskubrautum í framhaldsskólum og stóraukna útgáfu námsgagna fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn.
- Framsókn vill auka áherslu á vettvangsnám og starfsþjálfun.
- Framsókn vill, í anda farsældarlaganna, að stuðningur sé aukinn og skólum gert kleift að sporna gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum. Framsókn vill einnig að umhverfi, eftirfylgni og úrræði barna sem hverfa frá námi sé eflt til muna.
- Framsókn vill að aðstaða til verk- og starfsnáms verði stórefld til að mæta aukinni aðsókn.
- Framsókn vill að sem flestir framhaldsskólar bjóði upp á starfsbrautir.
1.4 Háskóli
Það er mikilvægt að standa vörð um öfluga og sjálfstæða háskóla og rannsóknarstofnanir, sem þjóni samfélaginu um land allt. Uppbygging sveigjanlegs náms og fjarnáms og áframhaldandi fjölgun námsleiða í fjarnámi stuðla að jafnrétti til náms óháð búsetu og aðstæðum. Aðgengilegt ferli við mat á háskólanámi frá öðrum löndum er forsenda þess að menntun allra íbúa nýtist íslensku samfélagi auk þess að stuðla að inngildingu í íslenskt samfélag. Fjölmörg tækifæri felast í áframhaldandi uppbyggingu Menntasjóðs námsmanna, sjóðurinn getur nýst betur sem jöfnunartæki og hvatakerfi.
- Háskólastarf við menntun og rannsóknir uppfylli alþjóðleg gæða viðmið.
- Framsókn vill tryggja öllum jöfn tækifæri til háskólamenntunar óháð búsetu eða aðstæðum.
- Framsókn telur að hækka þurfi frítekjumark Menntasjóðs námsmanna í samræmi við verðlags- og launaþróun. Einstaklingar eiga ekki að verða fyrir óhóflegum skerðingum vinni þeir með námi.
- Framsókn leggur áherslu á fjölþættar aðgerðir til styrktar íslenskunni bæði fyrir þá sem læra íslensku sem fyrsta og annað mál. Því er mikilvægt að á háskólastiginu sé unnið að þekkingaröflun um íslenskuna, kennslufræði íslenskunnar, þekkingarmiðlun til kennara á öllum skólastigum og beinni kennslu í íslensku fyrir fyrsta og annars málshafa. Framsókn vill skilvirkari vinnu við mat á menntun úr erlendum háskólum, sem og á starfsréttindum.
- Framsókn vill sjá aukið framboð á fagháskólanámi, líkt og nýtt nám í leikskólafræðum.
- Framsókn vill virkja möguleikann á að nýta hvatakerfi innan Menntasjóðs námsmanna.
- Framsókn vill efla símenntunarmiðstöðvarnar og þekkingarsetrin í landsbyggðunum þannig að þau geti stutt enn betur við háskóla landsins með þjónustu við fjarnema í virkum námssamfélögum í samstarfi við háskóla og fagstofnanir viðkomandi svæðis.
1.5 Símenntun í framhaldsfræðslukerfinu
Mikilvægi framhaldsfræðslunnar sem fimmtu stoðar menntakerfisins er oft vanmetið. Ekki síst þegar litið er til jafnréttis til náms óháð búsetu og aðstæðum. Tryggja þarf áframhaldandifjölbreytni námsframboðs, aðgang að náms- og starfsráðgjöf og aðstöðu fyrir námssamfélög um land allt. Halda þarf áfram að efla og þróa raunfærnimat.
- Framsókn styður og vinnur að eflingu framhaldsfræðslu sem fimmtu stoðar menntakerfisins og leggur áherslu á að fullorðið fólk hafi aðgang að náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimati og fjölbreyttu námi með vinnu, hjá viðurkenndum símenntunarmiðstöðvum um allt land.
- Framsókn leggur áherslu á jafnrétti til náms og að allt fullorðið fólk eigi kost á menntun alla ævi.
2. Félagsmiðstöðvar og ungmennahús
Á undanförnum árum, að hluta til með tilkomu laga um samþætta þjónustu við börn, hefur mikilvægi frístundastarfs barna og ungmenna margsannað sig. Það hefur verið magnað að fylgjast með uppgangi þessa starfs og sjá það taka stærra hlutverk í samfélagsumræðunni. Mikilvægi framboðs þessa starfs er lykilatriði í því að tryggja farsæld barna og lögfesting þess og áframhaldandi uppbygging inngildandi starfs fyrir alla samfélagshópa er gríðarlega mikilvæg.
- Framsókn vill lögfesta starfsemi félagsmiðstöðva.
- Framsókn vill fjölga ungmennahúsum og virkni úrræðum fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára.
- Framsókn leggur áherslu á að félagsmiðstöðvar haldi úti öflugu sértæku hópastarfi, í samræmi við þarfir hverju sinni.
- Framsókn telur mikilvægt að hinsegin ungmenni eigi öruggan samverustað svo sem hinsegin félagsmiðstöðvar. Mikilvægt er að stutt sé við slíkt starf á landsvísu.
- Framsókn telur vettvangsstarf félagsmiðstöðva mikilvægt og vill tryggja starfsemi flakkandi félagsmiðstöðva, sem spila lykilhlutverk í kortlagningu áhættuhegðunnar unglinga.
- Framsókn telur að efla þurfi frístundastarf fyrir 10-12 ára börn.
3. Íþrótta- og æskulýðsstarf
Mikilvægi íþrótta- og æskulýðsstarfs í forvörnum og lykilþáttur lýðheilsu þjóðarinnar er óumdeilt. Halda verður áfram að efla tækifæri allra til þess að stunda íþróttir og hreyfingu, bæði þarf að horfa til almenningsíþrótta og afreksíþrótta. Tryggja verður að þátttökumöguleikar til afreksstarfs í íþróttum séu jafnir, óháð búsetu og efnahag. Mikilvægt er að afreksstefna byggi á fjölbreytileika, tryggi þátttöku sem flestra, vinni gegn brottfalli og efli börn og ungmenni. Hækka verður fjárveitingar til íþrótta- og æskulýðsstarfs, til að geta komið til móts við ferðakostnað og kostnað við landsliðsstarf. Tryggja þarf jafnrétti barna til þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Mikilvægi þess þegar kemur að félagslegum þroska, aðlögun að samfélaginu og farsæld er ótvírætt. Framsókn styður uppbyggingu fræðslu- og þekkingarseturs hugaríþrótta. Nú hefur byggingu þjóðarhallar verið komið af stað og þarf að ráðast í sömu vegferð með þjóðarleikvang í knattspyrnu.
- Framsókn vill að lögð sé aukin áhersla á almenningsíþróttir, forvarnarhlutverk þeirra og aukna fjárfestingu í lýðheilsu.
- Framsókn leggur áherslu á að auka þarf stuðning við grasrótarstarf íþrótta og ungmennafélaganna í landinu.
- Framsókn vill stórauka fjármagn til afreksstarfs í íþróttum. Gera þarf sérsamböndum íþróttahreyfingarinnar kleift að bjóða upp á jafnt aðgengi að afreksstarfi óháð efnahag. Tryggja þarf fjárhagslega getu til þess að halda úti því afreksstarfi sem er stolt þjóðarinnar.
- Framsókn vill jafna aðgengi að íþróttum og afreksstarfi óháð búsetu.
- Framsókn vill auðvelda aðgengi fatlaðra barna að íþrótta- og æskulýðsstarfi.
- Framsókn vill auðvelda aðgengi barna með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn að íþrótta- og æskulýðsstarfi.
- Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi uppbyggingu þjóðarleikvanga.
- Framsókn vill styðja enn frekar við uppbyggingu hugaríþrótta s.s. bridge og rafíþrótta m.a. með stofnun afrekssjóðs.
4. Farsæld og jöfnuður
Framsókn vill að tryggt verði að farið verði eftir Barnasáttmála SÞ um rétt barna til samvista með báðum foreldrum og að foreldraréttur sé virtur. Tekið var risavaxið skref í átt að auknu jafnrétti í samfélaginu með því að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum landsins í framhaldi er eðlilegt að skoðað verði hvort stíga eigi sama skref á öðrum skólastigum. Halda þarf áfram innleiðingu farsældarlaganna og auka enn vægi snemmtækra íhlutana, grípum börnin okkar sem fyrst þegar erfiðleikar byrja að sjást. Tryggjum þeim þjónustu án biðlista, börn eiga aldrei að bíða eftir þjónustu. Það sama á við um hóp sem lengi hefur orðið eftir í samfélaginu, ungt fólk á framhaldsskólaaldri og upp að 25 ára aldri sem heltist úr námi. Þann hóp er samfélaginu gríðarlega mikilvægt og arðbært að grípa sem fyrst, þar skortir skýra ábyrgð innan kerfisins og því þarf að fylgja fjármagn. Fjárfesting í börnum og ungu fólki er einhver arðbærasta fjárfesting nútíma samfélaga, þar hefur ótrúleg umbreyting orðið undanfarin ár, en við erum rétt að byrja.
- Framsókn telur að útrýma eigi biðlistum þar sem börn eiga í hlut. Börn eiga ekki að bíða. Mikilvægt er að börn fái strax viðeigandi þjónustu og/eða úrræði án langs greiningarferlis.
- Framsókn leggur til að námsgögn í grunnskóla séu gjaldfrjáls með það að markmiði að tryggja jöfnuð til náms.
- Framsókn vill efla samfélagsvitund hjá ungu fólki og styðja við möguleika þess að fá að taka þátt í fjölbreyttum samfélagsverkefnum.
- Framsókn telur að ekki sé nógu vel hlúð að ungu fólki frá 16 til 25 ára. Það er gríðarlega mikið í húfi fyrir samfélagið í heild að lagst sé á eitt við að halda börnum og ungu fólki í virkni. Til þess þarf að efla úrræði og snemmtæka íhlutun á öllum skólastigum og þvert á öll kerfi.
- Framsókn vill að gerð sé sérstök ungmennastefna fyrir Ísland.
- Framsókn leggur til að aðalnámskrár leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla verði endurskoðaðar og samrýmdar til að auka og bæta samfellu í námi barna.
Deila