Categories
Greinar

Hressileg viðbrögð við góðum fréttum

Deila grein

09/09/2014

Hressileg viðbrögð við góðum fréttum

Silja-Dogg-mynd01-vefÍ síðastliðinni viku birti ég yfirlitsgrein fyrir þá þætti efnahagslífsins sem hafa verið á uppleið á síðustu misserum. Þessi grein fór fyrir brjóstið á nokkrum álitsgjöfum og því sé ég mig knúna til að reifa málið aðeins betur.

Viðskiptajöfnuður hagstæður

Fréttastjóri viðskiptafrétta 365 miðla skrifaði áhugaverðan leiðara föstudaginn 5. september. Leiðarahöfundur heldur því fram að viðskiptajöfnuður sé neikvæður. Það er rétt þegar heildartölur ársins 2014 eru teknar saman en skv. nýjustu tölum, sem komu út í síðustu viku, mælist viðskiptajöfnuður hagstæður um 2,9 ma. króna á 2. ársfjórðungi þessa árs. Það eru væntanlega góðar fréttir fyrir okkur öll.

Betra lánshæfismat

Varðandi bætt lánshæfismat þá heldur leiðarahöfundur því fram að það hafi verið kolrangt hjá mér, sem er skrítið. Staðreyndin er sú að lánshæfismat Íslands er nú í stöðugum horfum hjá lánshæfismatsfyrirtækjum. Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings staðfesti í byrjun ágúst 2014 að horfur fyrir lánshæfismat á langtímaskuldbindingum væru stöðugar. Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s breytti horfunum um lánshæfi Ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar í janúar 2014 og úr stöðugum í jákvæðar í júlí 2014.

Þetta eru líka góðar fréttir fyrir okkur öll.

Ekki þriðja heims ríki

Niðurstaða leiðarahöfundar var að Ísland væri þriðja heims ríki! Fyrst ber að nefna að í skýrslu World Economic Forum, sem fréttastjóri vísar í, þá hefur Ísland færst upp um sæti frá fyrra ári. Stefnan er að sjálfsögðu sú að ná hærra og að því eru stjórnvöld að vinna. Ég hef víða farið og get með engu móti borið Ísland saman við þriðja heims ríki. Slík niðurstaða er mjög langsótt. Samkvæmt Alþjóðabankanum eru þjóðartekjur á mann í lok árs 2013 hér á landi 5,3 m.kr. en til samanburðar eru tekjur í mörgum þriðja heims ríkjum á bilinu 100-500 þúsund kr. á ári. Við mælumst efst þegar kemur að jafnrétti og iðulega erum við efst á lista friðsælla ríkja. Heilbrigðis- og menntamál hér á landi eru einnig ávallt ofarlega á lista. Telur einhver að þessi samanburður fréttastjóra sé á rökum reistur?

Bjart fram undan

Það er gott að búa á Íslandi. Vissulega eru mörg krefjandi verkefni fram undan. Þar má nefna afnám gjaldeyrishaftanna, nýtt húsnæðiskerfi, afnám verðtryggingar, endurskipulagning almannatryggingakerfisins og sitthvað fleira. Ég get fullyrt að þessi ríkisstjórn hefur þrek og þor til að takast á við þessi verkefni og leysa þau með sóma. Staðreyndin er sú að hér hafa skapast rúmlega 5.000 störf síðan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við, hagvöxtur er nú með því mesta sem þekkist, atvinnuleysi minna en víðast hvar, verðbólga sambærileg við það sem er í nágrannalöndum okkar og erlendir aðilar sýna fjárfestingum hér aftur mikinn áhuga.

Við ættum að vera þakklát fyrir að búa á fallega landinu okkar og hjálpast að við að bæta það sem þarf að bæta. Verum jákvæð og bjartsýn á framtíðina.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Náttúra og umhverfi undirstaða velferðar

Deila grein

05/09/2014

Náttúra og umhverfi undirstaða velferðar

Sigurður Ingi JóhannssonÍslensk náttúra gegnir lykilhlutverki í efnahagsbata landsins, bæði vegna sérstöðu sinnar hvað endurnýjanlega orku varðar og einstakrar náttúrufegurðar sem er helsta aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Lífsgæði Íslendinga felast ekki síst í hreinu umhverfi sem tryggir okkur framúrskarandi vatnsgæði, litla loftmengun og mikið aðgengi að óspilltri náttúru. Þetta eru nokkrar af meginniðurstöðum heildarúttektar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi árin 2001-2013, sem kynnt var í gær.

Meðal annars er fjallað um hvernig efnahagur og náttúra tengjast – hvernig vöxtur og samdráttur hefur bein áhrif á umhverfið og hvernig náttúran hefur lagt grunninn að endurreisn efnahagslífsins. Við getum verið stolt af þeirri eindregnu jákvæðu umsögn sem gefin er en um leið eru settar fram gagnlegar ábendingar um að hverju beri að gæta. Svo jákvæð umsögn vekur okkur til umhugsunar um mikilvægi þess að varðveita gæðin sem felast í umhverfinu og náttúrunni. Við nýtingu auðlinda okkar þurfum við að bera virðingu fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins svo þau haldist jafn óspillt og raun ber vitni. Slíkt er brýnt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og hreinni náttúru.

Þannig er undirstrikað í skýrslunni að náttúrutengd ferðamennska sé mikilvæg auðlind og að ferðaþjónustan hefur átt hvað ríkastan þátt í viðreisn efnahags landsins. Þá er fjallað um mikilvægi þess að formgera langtímaáætlun um byggingu innviða á ferðamannastöðum sem er í takt við frumvarp til laga um framkvæmdaáætlun um uppbyggingu ferðamannastaða sem ég mun leggja fram í haust. Í umfjöllun um orkumál fá Íslendingar rós í hnappagatið fyrir að vera það OECD-ríki sem státar af hæsta hlutfalli endurnýjanlegrar orku en bent er á að velja þarf af kostgæfni áframhaldandi nýtingu með hámarks arðsemi og langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Niðurstöður OECD-skýrslunnar undirstrika einnig að náttúra og umhverfi eru undirstaða velferðar í landinu en þrjár greinar – sjávarútvegur, orkuvinnsla og náttúrutengd ferðaþjónusta – standa undir um 4/5 allra okkar útflutningstekna. Því þarf umhverfis- og náttúruvernd að vera samofin allri stefnumörkun, opinberri starfsemi og stjórnsýslu, þvert á alla málaflokka.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Góðar fréttir

Deila grein

03/09/2014

Góðar fréttir

Silja-Dogg-mynd01-vefÖll él styttir upp um síðir. Það má segja að þungu fargi hafi verið létt af þjóðinni þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við vorið 2013. Á aðeins einu ári hefur núverandi ríkisstjórn lyft grettistaki og komið efnahagslífinu á réttan kjöl. Það eru bjartir tímar framundan á Íslandi.

Haustið 2008 var dimmur tími í íslensku þjóðlífi. Eldar brunnu á Austurvelli. Vinstristjórnin tók við um vorið eftir erfiðan vetur. Við hana voru bundnar miklar vonir. Skjaldborgin, sem átti að reisa um íslensk heimili, varð því miður ekki að neinu. Vinstristjórnin vildi skattleggja okkur út úr kreppunni og festa okkur í Icesave-skuldafangelsi. Sem betur fer gengu þau plön heldur ekki eftir.

Allt á uppleið
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur nú setið við stjórnvölinn í rúmt ár. Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar á haustþingi 2013 var að leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Tillagan var í tíu liðum og nú að þingi loknu hefur öllum liðum hennar verið lokið eða komið í áframhaldandi farveg. Leiðréttinguna ber þar hæst en með henni er komið til móts við heimili með verðtryggð húsnæðislán með aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn hélt fram að væru óframkvæmanlegar. Beinar niðurfærslur á höfuðstól verðtryggðra lána og möguleiki á að nýta séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól munu hjálpa heimilum með verðtryggð lán á beinan hátt með því að lækka mánaðarlega greiðslubyrði af lánum og hækka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar. Heildaráhrif leiðréttingarinnar eru metin um 150 milljarðar fyrir 100 þúsund heimili. Alls bárust 69 þúsund umsóknir frá 105 þúsund einstaklingum.

Jákvæðar umsagnir
Skuldaleiðréttingin hefur hlotið jákvæðar umsagnir hjá erlendum lánshæfismatsfyrirtækjum, sem hafa hækkað lánshæfismat Íslands í kjölfar þess. Standard & Poor‘s breytti lánshæfishorfum Ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar þar sem dregið hefur úr áhættu sem tengist ríkisfjármálum (janúar 2014).

Bjartsýni í stað svartsýni
Ótrúleg umskipti hafa orðið í efnahags- og atvinnulífi hér á aðeins einu ári. Hagvöxtur er nú með því mesta sem þekkist, atvinnuleysi minna en víðast hvar, verðbólga sambærileg við það sem er í nágrannalöndum okkar (lægri en í Noregi m.v. júlí), viðskiptajöfnuður jákvæður, rekstur ríkissjóðs jákvæður og erlendir aðilar sýna fjárfestingum hér aftur mikinn áhuga. Bjartsýni hefur tekið við af svartsýni og eymdarvísitalan hefur ekki verið lægri síðan 2007.

Það skiptir sannarlega máli hverjir stjórna!

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

„Dæmið er rangt, niðurstaðan rétt“

Deila grein

02/09/2014

„Dæmið er rangt, niðurstaðan rétt“

Þorsteinn sæmundsson_SRGB_fyrir_vefRitstjóri Fréttablaðsins sýndi mér þann sóma á Sprengisandi um helgina að helga mér og skoðunum mínum nokkurn hluta þáttarins án þess þó að leyfa mér að taka þátt. Þekkt er að erfitt er að eiga orðastað við fjarstatt fólk. Í leiðara Fréttablaðsins í gær bætir hann svo um betur og leggur út af gagnrýni Margrétar Kristmannsdóttur kaupkonu í nefndum þætti og kemst að því að dæmi sem ég tók í nýlegri grein minni sé kolrangt.

Fyrst af öllu gleðst ég yfir því að vöruverð á Íslandi og þróun þess sé komin á dagskrá. Það er löngu tímabært að tekin sé vönduð umræða um vöruverð og rekstur verslunar því hvort tveggja hefur mikil áhrif á afkomu okkar allra. Fyrst af öllu um þá fullyrðingu að 5% verðlækkun innfluttra vara lækki vísitölu neysluverðs um 2%. Innflutt vara vegur um 35% af neysluvísitölunni, 5% lækkun hennar lækkar vísitölu neysluverðs um 2%. Þessi niðurstaða er fengin með aðstoð starfsmanna Hagstofunnar.

Verðtryggð lán heimilanna nema nú 1700 milljörðum, 2% af þeirri upphæð eru 34 milljarðar. Rangt dæmi. Það held ég hreint ekki.
Önnur fullyrðing sem fram kom í grein minni fór fyrir brjóstið á kaupkonunni. Það er að styrking krónu skili sér ekki inn í vöruverð en veiking skili sér strax. Þessi fullyrðing er komin frá starfsmanni greiningarfyrirtækis sem hefur það að aðalstarfi að fylgjast með verðbreytingum og áhrifum þeirra. Rangt dæmi. Það held ég hreint ekki.

Nægir ekki sem afsökun
Undanfarin misseri hefur íslenska krónan styrkst um 13% að meðaltali gagnvart helstu viðskiptamyntum. Á sama tíma hefur vörukarfa í íslenskum verslunum hækkað að undanteknum verslunum Bónuss þar sem hún hefur lækkað um 3%. Launahækkanir sem vitnað var til eru væntanlega 2,85%. Ekki nægir það sem afsökun fyrir að lækka ekki vöruverð.

Kaupkonan sagði verð birgja í útlöndum hækka tvisvar á ári. Samt er verðbólga í evruríkjunum í sögulegu lágmarki, í kringum hálft prósent. Íslensk verslun hlýtur að njóta stórum verri kjara en verslun í Evrópu samkvæmt þessu. Hvað ætli valdi því? Nú er rétt að benda á góðu fréttirnar. IKEA treystir sér til að lækka vöruverð um 5% væntanlega vegna þess að sænsk króna hefur veikst gagnvart íslenskri um rúm 16% síðan í febrúar í fyrra. Þessu ber að fagna þó skrefið sé stutt. Hvað dvelur önnur verslunarfyrirtæki?

Ritstjórinn hvetur þann sem hér ritar að taka til hendinni á Alþingi. Ég þakka hvatninguna en það þarf ekki að hvetja þennan þingmann. Þessi þingmaður hyggst beita sér fyrir bættum samkeppnislögum. Þessi þingmaður styður ríkisstjórn sem hefur afnám verðtryggingar á stefnuskrá sinni. Þessi þingmaður styður ríkisstjórn sem ætlar að taka til í ríkisrekstri, að hafa hér hallalaus fjárlög, að bæta hagstjórn.

Jú, niðurstaðan var rétt en dæmið alls ekki rangt. Ég hvet ritstjórann til áframhaldandi umfjöllunar um vöruverð og verslun, gjarnan frá öllum hliðum. Full þörf er á!

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist 2. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Af verðbólgu og verðbólguvæntingum

Deila grein

01/09/2014

Af verðbólgu og verðbólguvæntingum

Þorsteinn sæmundsson_SRGB_fyrir_vefUndanfarið hefur farið nokkuð fyrir umræðu um verðbólgu og væntingum um hana næstu misserin. Það er ekki að ófyrirsynju því verðbólga hefur verið ein höfuðmeinsemd í íslensku þjóðlífi um langa hríð. Síðustu mánuði hefur náðst góður árangur sem vonandi er ekki tímabundinn. Þannig hefur mánaðarverðbólga undanfarið verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans lengur samfellt en nokkru sinni.

Í nýlegum spám er því hins vegar spáð að verðbólga fari vaxandi á næstu mánuðum og misserum. Er þar einkum um að kenna vaxandi þenslu að sögn greiningarfyrirtækja. Mér lék nokkur forvitni á að kynna mér nánar forsendur greiningarfyrirtækjanna og hafði því samband við eitt þeirra. Ég spurði hvort í spánni væri tekið tillit til þess að mjög vantar á að styrking krónunnar hafi skilað sér í lægra vöruverði og því sé fyrir hendi uppsöfnuð lækkun vísitölu.

Svar greiningarfyrirtækisins var sláandi: Ekki er gert ráð fyrir vöruverðslækkun í spám fyrirtækisins því reynsla undanfarinna ára og jafnvel áratuga hefur kennt mönnum að gera ekki ráð fyrir lækkun vöruverðs þegar gengi krónunnar styrkist. Veiking krónunnar skilar sér hins vegar undantekningarlaust og örfljótt inn í vöruverð á Íslandi samkvæmt sömu reynslu.

Tregða kaupmanna

Sá sem hér ritar hefur ítrekað bent á þá staðreynd að tregða kaupmanna til að skila styrkingu krónunnar sem nemur að meðaltali um 13% undanfarin misseri, þó ekki væri nema að hluta, kostar landsmenn stórar upp hæðir. Í fyrsta lagi greiða landsmenn hærra verð fyrir nauðsynjar en efni standa til. Í öðru lagi kemur tregða kaupmanna til lækkunar vöruverðs í veg fyrir að verðtryggð lán heimilanna lækki eins og gerast myndi kæmi styrking krónunnar fram í lækkuðu verði.

Benda má á að ef kaupmenn skiluðu styrkingu krónu, þó ekki væri nema sem næmi 5%, myndi vísitala neysluverðs lækka um tvö prósentustig. Það hefði í för með sér um 34 milljarða lækkun á verðtryggðum lánum heimilanna í landinu.

Á því tímabili sem undirritaður hefur gaumgæft þróun vöruverðs og gengis, þ.e. frá febrúar 2013, hefur innkaupakarfa ASÍ hækkað í öllum verslunum sem könnun ASÍ nær til nema í Bónus þar sem karfan hefur lækkað um þrjú prósent. Lækkun Bónuss er góðra gjalda verð en betur má ef duga skal. Allar aðrar verslanir í könnunni, þ.á.m. Hagkaup, hafa hækkað innkaupakörfuna á tímabilinu. Það er algerlega óásættanlegt að verðbólguþróun fari úr böndunum vegna aðgerða eða aðgerðaleysis kaupmanna. Ljóst er að ef ekki verður breyting hér á þarf að fara gaumgæfilega yfir það lagaumhverfi sem varðar verslun, samkeppni og verðlagningu.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.