Sveitarstjórnarfólk Framsóknar
Múlaþing
Smellið hér til að kynnast frambjóðendum listans
Stefnuskrá Framsóknar í Múlaþingi fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022
Sterkt sveitarfélag
Tilgangur sveitarfélags er að veita íbúum sínum þjónustu. Innan stofnana sveitarfélagsins eigum við gríðarlegan mannauð sem við treystum fyrir öllu því sem okkur er kærast. Starfsfólkið okkar bregst ekki ef við bregðumst því ekki og við þurfum að gera allt sem við getum til að búa því eins góðar starfsaðstæður og framast er unnt, hlusta á raddir þess og nýta þekkingu þess þegar við mótum stefnu fyrir sveitarfélagið. Það er okkar ábyrgð sem kjörinna fulltrúa. Þannig verður stefnan best, þannig veitum við bestu þjónustuna og þannig náum við mestum árangri.
Traustur fjárhagur er lykillinn að farsælum rekstri sveitarfélags. Við höfum til að bera þá reynslu og þekkingu sem þarf til að stýra fjármálum sveitarfélagsins af ábyrgð. Með því að sýna skynsemi í rekstri munum við geta fjárfest í tímabæru viðhaldi og uppbyggingu húsnæða sveitarfélagsins.
Sterkir innviðir
Áætlanir gera ráð fyrir stórtækum innviða framkvæmdum víðsvegar um sveitarfélagið á vegum HEF – veitna. Mikilvægt er að unnið sé að þeim verkefnum af metnaði og seglu enda vitum við öll hvað aðgengi að köldu vatni, heitu vatni og frárennslismál skipta okkur miklu máli fyrir alla þéttbýliskjarna
Það skiptir máli hver stjórnar og það vitum við einna best þar sem hér er á áætlun heilsársvegur um Öxi auk þess sem framkvæmdir eru að hefjast við Fjarðarheiðargöng. Það er okkar hlutverk að halda því þétt að ríkisvaldinu að tryggja að ekkert raski þeim áætlunum, enda eru samgönguinnviðir okkar lífæð.
Nú þegar heimsfaraldur er yfir genginn er mikilvægt að við styrkjum heimastjórnir í samtali við íbúa. Heimastjórnir gegna lykilhlutverki í stjórnkerfinu og því er okkur mikilvægt gefa okkur tíma til að þróa þeirra verkefni og samtal við íbúa á næsta kjörtímabili.
Framsækið skipulag
Góðir hlutir gerast þegar skipulagið er gott og það gildir sérstaklega um sveitarfélög. Við höfum verið að stórefla skipulagssvið sveitarfélagsins svo við getum betur mótað framtíð þess í gegnum vandað aðalskipulag.
Á næsta kjörtímabili er nauðsynlegt að ráðast í gerðar aðalskipulags fyrir sveitarfélagið en það er mikilvægasta stefnumótunin sem sveitarfélög fara í. Stefnan verður að endurspegla þær áskoranir og tækifæri sem við okkur blasa. Framsækið skipulag sem hefur að leiðarljósi vellíðan íbúa, styrkingu svæðisins og sterkri framtíðarsýn. Skipulag sem unnið verði með íbúum.
Mikilvægt er að leita leiða til að létta á þrýstingi á fasteignamarkaði með því að tryggja nægar lóðir og hafa hvata til þess að hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Við sem sveitarfélag erum í samkeppni við önnur svæði til byggingar húsnæða og því mikilvægt að sýna vilja í verki til að flýta uppbyggingu íbúðarhúsnæðis eins og hægt er
Atvinnumál
Við náum mestum árangri þegar við vinnum saman milli svæða innan sveitarfélagsins. Það verður að vera okkur leiðarljós að stuðla að aukinni verðmætasköpun innan sveitarfélagsins.
Við vitum það að atvinnumál hafa gjörbreyst síðan störf án staðsetninga fór að raungerast en betur má ef duga skal og er mikilvægt að vera með vökult auga fyrir því að styrkja enn stoðir atvinnulífsins. Hafa skal þó í huga að sátt sé um alla þá atvinnustarfsemi sem sé rekin í sveitarfélaginu. Við sem samfélag viljum að hér sé næg og fjölbreytt atvinnustarfsemi.
Menningarstefna
Við þurfum að endurspegla þann kraft sem einkennir menningarlíf á Austurlandi, efla það enda er það okkur sem samfélagi til góða. Mikilvægt er að tryggja aðgengi að menningu, styrkja við menningarlæsi og menningar þátttöku okkar íbúa á öllum aldri. Öflugt menningarlíf er einnig mikilvægur þáttur í að bjóða gesti okkar velkomna.
Metnaðarfull menningarstefna er það sem sveitarfélagið þarf að ráðast í á næsta kjörtímabili enda mikilvægt að við hugum sífellt að menningu og tryggjum okkar menningarstofnunum bestu skilyrði svo þau blómstri áfram.
Nýjar áherslur fyrir dreifbýli
Dreifbýli sveitarfélagsins er það sem tengir byggðakjarna þess saman og sveitarfélagið getur ekki blómstrað nema íbúum þess alls sé sinnt af metnaði. Okkar fólk þekkir aðstæður og er tilbúið að standa með dreifbýlinu, rétt eins og þéttbýlinu. Það þarf að bæta vetrarþjónustu á vegum, sem tryggir öryggi íbúa og auðveldar íbúum dreifbýlisins, ungum sem öldnum, að sækja tómstundastarf, atvinnu og þjónustu í öfluga byggðakjarna. Leggja þarf ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn um sveitir og ýta á eftir um bætt farsímasamband heima á bæjum. Þó þessi mál séu ekki öll í valdi sveitarfélagsins skiptir máli að sveitarstjórnarfólk beiti sér gagnvart þeim.
Við höfum flott landbúnaðarhérað sem þarf að koma betur á framfæri með kynningu til dæmis.
það þarf að kynna betur vörur framleiddar í sveitarfélaginu og stuðla að auknu hringrásarhagkerfi.
Mikilvægt er að nálgast áskoranir dreifbýlisins með heildrænum hætti út frá þörfum þeirra í mismunandi málaflokkum sveitarfélagsins.
Vellíðan íbúa
Fjölbreytileiki þarf að vera leiðarstef. Við tökum okkar bestu ákvarðanir þegar við hlýðum á ólíkar raddir og tökum tillit til ólíkra sjónarmiða. Þar eiga allir að eiga sína rödd óháð aldri, kyni, uppruna eða nokkru því sem greinir okkur í sundur. Samfélögin okkar eru ólík og stofnanirnar okkar og fólkið sömuleiðis, með eigin hefðir, venjur og áherslur. Þetta gerir sveitarfélagið okkar litríkt og líflegt. Við þurfum að hafa kjark til að þora að prófa ólíkar leiðir svo hver og einn staður, stofnun og einstaklingur fái að blómstra með sínu lagi, okkur öllum til hagsbóta.
Við hlúum að börnunum okkar í skóla og leikskóla með því að gefa skólunum okkar það færi og þau verkfæri sem þarf til við séum í fararbroddi í menntamálum. Mikilvægt er að fara í viðhald og framkvæmdir í grunnskólunum okkar og ótrauð þurfum við að halda áfram uppbyggingu leikskólahúsnæðis því góð aðstaða fyrir börn og ungmenni gerir sveitarfélagið aðlaðandi fyrir fjölskyldur að setjast hér að.
Heilsueflandi samfélag og Cittaslow verkefnin eru góð verkefni sem við eigum að nýta okkur við framþróun í okkar sveitarfélagi með ýmsum leiðum og dáðum. Raddir okkar íbúa í gegnum öldungaráð, ungmennaráð og samráðshópur um málefni fatlaðs fólks eru okkur kjörnum fulltrúum mikilvægt
Uppbygging íþróttamannvirkja og stuðningur við verkefni íþróttahreyfingarinnar eru samfélagslega mikilvæg. Styðja þarf við þróun á íþróttastarfi enda ríki um það sátt innan íþróttahreyfingarinnar. Forgangsraða þarf fjárfestingum í íþróttamannirkjum og greina þarfir til uppbyggingar íþróttamannvirkja innan sveitarfélagsins og Austurlands alls.